Lyse øyeblikk

HM 2006

MYNDIR FLERI MYNDIR

THE BAR IS LOADED OPEN. 

Borgarstjórinn í Stavanger bauð mér í lokahófið. Það var fallegt af honum, ég hefði ekki viljað missa af því.
Á hótelinu var María að æfa sig í að ganga dömulega á pinnahælum í einstaklega klæðilegum kjól. Mita þurfti ekki að æfa sig, hún hefði getað hlaupið maraton á hælum. A girl of many talents.
Veislan var í Stavanger Forum. Búið að leggja fallega á borð. Uppá vegg var upptaka af konu sem þuldi öryggisreglur, eins og flugfreyja fyrir brottför. Við vorum þar af leiðandi vel undirbúin undir bruna og sprengjuhótanir. Ég held samt að hryðjuverkamenn myndu hugsa sig um tvisvar áður en þeir legðu til atlögu við þennan söfnuð. Jafn óárennilegan hóp vöðvabúnta hef ég aldrei séð samankominn á einum stað.
Maturinn var allt í lagi, vínin vel valin.
Skötuselur með jurtadressing í forrétt. Við fengum ekkert brauð með. Það var ekki borgarstjóranum að kenna, heldur lenti brauðkarfan hjá Hjalta.
Kjúklingur fylltur með einhverju og Panna cotta með hindberjasósu, kaffi og cognac. Ágætur matur og skemmtilegur félagsskapur.
Hefðbundin ræðuhöld og lófatak, verðlaunaafhendingar með vídeóupptökum af sigurlyftum. María trítlaði á svið á háu hælunum sínum til að sækja skjölin fyrir Ísland.
Eftir matinn var gaman að hitta stelpurnar og spjalla. Spennan búin og árangurinn glæsilegur. Norsku stelpurnar lentu í annað sæti 3 stigum á eftir bandaríkjakonum, (næst) besta kvennalandslið í heimi. Hörkuhópur!
Inger var glæsileg með uppsett hár og kynnti mér fyrir dætur sínar. Heidi var létthífuð og uppnuminn eftir silfur samanlagt og gull í réttstöðu. Hún sagði mér allt um gulldeddið, að þjálfarinn hefði logið að henni áður en hún fór á pallinn og hún hélt að hún væri að lyfta 197,5 þegar hún í rauninni var að lyfta 205 kg. Ég hefði aldrei getað þetta ef ég hefði vitað hvað það var þungt sagði hún og skellihló.
Hildeborg var mögnuð í flegnasta kjól hússins, ljómandi af ánægju. Tone var pollróleg eins og venjulega, miðpunkturinn og kletturinn sem allt brotnaði á.
Og nú er þetta búið. Örugglega tómleg tilfinning hjá þeim sem hafa einblínt á þetta í tvö ár, en góð þar sem árangurinn var framar vonum. Meira að segja Anita var sátt þrátt fyrir að hafa klikkað í bekknum. Mitt fyrsta stórmót, sagði hún. Mikil lífsreynsla. Ég hefði ekki viljað missa af þessu.
Nú þarf að skipuleggja ferð þessarra kvenna til Íslands. Þær myndu sóma sér sem gestalyftarar á Íslandsmóti. Og í Blaá Lóninu á eftir.
Margt skemmtilegt fólk fra öllum heimshornum að spjalla við.Barinn galopinn. Kvöldið fékk óvæntan og góðan endi.

 
TEAM HILDEBORG
Svona á þetta auðvitað að vera. Sætaferðir á kraftlyftingamót. Allir sem vettlingi gátu valdið í smábænum Sauda með sveitarstjóranum í fararbroddi höfðu lagt land undir fót til að horfa á Hildeborg verða heimsmeistari. Einkennisklædd í ljósbláum bolum með TEAM HILDEBORG á bakinu voru þau mætt með kúabjöllum, fánum, lúðrum og borðum. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Hildeborg mætti á sviðið í opnunarbeygjunni, 255 kg. Það var afskaplega örugg og pottþétt lyfta og barátta stóru stelpnanna var hafin. Hún endaði á nýju norsku meti 265 og vann beygjunni.
Í bekknum kláraði hún 185 létt og sigraði. Allir stóðu fagnandi upp og ætluðu að rétta úr sér fyrir réttstöðunni þegar þulurinn kallaði menn aftur í sætin. Hildeborg hafði beðið um aukatilraun við heimsmetið, 193 kg. Það ber byggingarverktökum fagurt vitni að þakið skyldi ekki hafa rifnað af húsinu. Það varð allt vitlaust. Ég er viss um að loftþrystingurinn af öskrinu hafi haft áhrif á lyftuna, en hún fór glatt upp og þrjú hvít á nýtt heimsmet. Hildeborg hvarf aftur fyrir tjaldið og ældi úr sér allt sem hún hafði borðað þann daginn. Spennan, áreynslan og þröngt belti gerði það að verkum. Kannski ekki besti undirbúningur undir deddið. Hún sagði mér seinna að hún hefði haft mestar áhyggjur af því að hún myndi æla yfir stöngina í fyrsta deddinu sínu – fyrir framan sveitarstjórninni allri, prestinum og leikskólakrökkunum á fremsta bekk.
Deddið er ekki hennar sterkasta grein. Hún er algerlega háð því að hitta rétta leið, annars kemur hún ekki stönginni yfir lærin. Önnur lyftan var misheppnuð og nú yrði hún að setja persónulegt met og taka 210 í síðustu tilraun ef hún ætlaði að vinna. Það hafðist með góðri hjálp frá Team Hildeborg sem  trylltist gersamlega. Nú var bara að bíða og sjá hvort O´Donnell myndi ná sinni lyftu. Úrslitalyftan. Ég þorði varla að horfa.Það leit mjög illa út – lyftan fór upp. En þegar vantaði 1,5 cm uppá varð hún að gefast upp. Lyftan var það augljóslega ógild að menn biðu ekki eftir dómurunum heldur fögnuðu brjálæðislega.
Ef allar stelpur í Sauda fara nú ekki að æfa kraftlyftingar er ég illa svikin.

 
KOMA SVO AUÐUNN!
Laugardagurinn rann upp með sama ömurlega veðrið og verið hafði alla vikuna. Við lögðum snemma af stað. Í þetta skiptið tókst okkur að rata í fyrstu tilraun, við fundum meira að segja löglegt stæði. Mari kom með, sjálfviljug. Hún hafði setið með mér allan föstudaginn og var ekki enn búin að fá nóg. Engin sérsök íþróttaáhugakona, en þetta fannst henni kúl. Hún hafði komið með á hótelið kvöldið áður og orðið vitni að því þegar Auðunn pantaði sér kvöldmat. Er hann rosalega matvandur? hvíslaði hún. Ekkert salt, enginn sósa … ekki hitt og ekki þetta ….. Er hann kannski ofnæmissjúklingur með viðkvæman maga? Nei, sagði ég, hann er að hugsa um vigtunina í fyrramálið. Hún starði á mig forviða.

Fjölmenni var í höllinni. Búið var að taka frá sæti fremst og við hlömmuðum okkur þar. María mætti með fánann og ég keypti klöppur handa okkur til að geta framleitt hávaða. Ég skartaði Kraft-bolnum mínum og sperrti kassann eins og ég gat til að láta bera á merkinu. Mér datt í hug að þetta gæti væri rétti dagurinn til að þykjast vera Íslendingur. Spennan magnaðist. Ég hléraði samtöl manna, það var eins og að hlusta á áhyggjufulla foreldra tala um nýfæddan son sinn: Hvað er hann þungur? Svaf hann vel í nótt? Er hann búinn að borða?
Ég meina það!

Fjórtán keppendur voru mættir til leiks, meiri og minni spámenn. Það var ljóst að Auðunn yrði í toppbaráttunni. Gullið var innan seilingar. Meðal keppenda var Asbjørn Randen sem ætlaði sér verðlaun og ætlaði að verða fyrstur norðmanna yfir tonnið í tótal. Við lentum beint fyrirframan aðalstuðningsmanni hans, sem var mættur með trommu fimm sentimetra fyrir aftan hausinn á mér.

Það var mjög gott að fylgjast með það sem fram fór. Á einum skjá voru tölurnar allar sýndar jafnóðum, framreiknaðir í endanlegt tótal miðað við gildandi meldingar. Á öðrum sáum við það sem fram fór á pallinum, með endursýningum og á hægum hraða. Ein myndavél var staðsett beint fyrir ofan pallinn svo við sáum framan í bekkpressarana. Skemmtilegt sjónarhorn.

Leikar hófust.

Það var ljóst að Bretinn ætlaði sér sigur í beygjunum, enda byrjaði hann á heimsmeti öldunga, 410 kg. Hrikalegur beygjumaður. Hann stóð mjög gleiður, notaði hálfgerðan súmóstíl! Nú var spurninging hversu gott forskot hann myndi ná á hinum, því hann var greinilega frekar slakur í deddi. Hann endaði í 435 og 40 kg forskot á okkar manni.

Auðunn gekk á svið eins og sá sem valdið hefur. Hann var alskeggjaður og hrikalegur og óárennilegur í meira lagi. Ég dáðist að andstæðingum hans að taka ekki til fótanna strax. Hann virkar alltaf svo ótrúlega rólegur og einbeittur og traustur. Manni finnst maður geti lagt hvaða byrðar sem er á þessar breiðu axlir og hann muni geta borið þær. Lyfturnar hans voru hver annari glæsilegri og öruggari. Norðmaðurinn með trommuna stundi þungan. Ekkert veikleikamerki á Íslendingnum.
Asbjørn Randen byrjaði ákveðinn og kláraði líka 395. Það dugði í bronsverðlaun eftir Clive og Auðun.

Svo hófst keppni í bekknum. Japaninn Midote var með ymislegt á prjónunum. Hann byrjaði í 310 og gerði síðan tvær tilraunir við nýtt heimsmet. Það tókst ekki. Þetta var einkennilega vaxinn maður. Ég hef aldrei séð mann með jafn krókótta handleggi. Sjónin mín er ekkert sérstök skal ég viðurkenna, en ef þessi maður rétti úr höndum skal ég hundur heita. Ég verð að skoða upptökur af þessu bekkpressum hans. Hann sigraði örugglega, 22,5 kg á undan næsta manni og 30 kg á undan Auðun sem tók íslandsmetið eins og að drekka vatn að því er virtist. Allar lyftur gildar þrátt fyrir fúlan japanskan dómara sem hafði límt puttann við rauða takkann.

Þá var bara deddið eftir. Þetta stefndi í einvigi milli Auðuns og Henry Clive, en það varð aldrei neitt einvigi. Þetta líktist meira leik kattarins að músinni, maður hálfpartinn vorkenndi Bretanum. Auðunn byrjaði á því að lækka byrjunarþyngdinni hressilega og hélt sig síðan þar, 2,5 kg á undan Clive sem remdist við stöngina eins og rjúpan fræga við staurinn. Hann átti aldrei séns. Þegar Clive klikkaði á 330 var ljóst að við hefðum fengið íslenskan heimsmeistara.
Norðmaðurinn hafði brotið 1000-kg múrinn með eftirminnilegum hætti í annari tilraun og trommarinn gekk af göflunum. Nú var barist upp á lífi og dauða um bronsið. Tony Cardella tók heljarstökk úr 332,5 í 365 og hafði það og þar með bronsið af Asbjørn sem var 25 gr of þungur. Held ég að sá hafi séð eftir morgunkaffibollanum þann daginn!

Auðunn hækkaði snarlega í 365 líka, alger hermikráka og togaði það upp með glæsibrag. Jafnglaðan mann hef ég sjaldan séð.
1040 kg og heimsmeistari. Gull, silfur og brons í greinunum. Allar níu lyftur gildar. Getur það orðið betra? .

María stökk baksviðs með fánann og ég þurrkaði úr augunum. Ég fann allt í einu að ég var orðin þegjandi hás. Ég hlaut að hafa öskrað svona mikið. Það er ekki oft sem ég sleppi mér gersamlega en það hafði ég greinilega gert þarna án þess að taka eftir því.

Verðlaunaafhendinginn var auðvitað nautn að horfa á fyrir alla viðstadda klakverja. Það er ekki oft sem Guðvorslandsið hljómar við svona tækifæri.
Auðunn kastaði blómvöndinn af verðlaunapallinum og hann lenti beint í fangið á mér. Nú stendur hann í vasa heima hjá bróður mínum öllum til yndisauka..

 
A LONG EXPECTED PARTY
Ef ég hefði vitað að það væri svona gaman að halda upp á fimmtugsafmæli væri ég löngu búin að því. Fyrir mörgum árum!
Það voru liðin tvö og hálft ár síðan við María ákváðum að halda upp á 9. nóvember 2006 saman í Noregi. Og við stóðum við það!
Um leið og ég frétti að afmælið mitt hitti á HM í kraftlyftingum ákvað ég að halda upp á daginn með því að horfa á mótið.
Bróðir minn bauð mér að búa hjá sér, og ekki nóg með það heldur bauð hann mömmu og pabba að koma og vera líka. Þegar Mari frétti það ákvað hún að koma, svo allir minir norsku ættingjar voru saman komnir í Stavanger. Það fannst mér vænt um.

Dagurinn rann upp með grenjandi rigningu og næðandi vindi og ég vaknaði fimmtug í herbergi bróðursonar míns sem hafði gengið úr rúmi fyrir frænku með glöðu geði en með því skilyrði að ég notaði ekki mikið ilmvatn inni í herberginu.
Við plönuðum kökuveislu fyrir kvöldið og ég lagði af stað með lest í bæinn.
Í höllinni mundu allar stelpurnar eftir afmælinu og komu og kysstu mig í bak og fyrir. Það fannst mér vænt um, því þær höfðu nú um margt annað að hugsa þá stundina.
Flokkur – 75 var á dagskrá, og þar ætlaði Inger Blikra nú loksins að verða heimsmeistari. Og þar var María skráð til leiks langléttust. Rétt rúm 70 kg. Nú var dagurinn upprunninn og ekki aftur snúið. Dagurinn sem við höfðum ákveðið að upplifa saman í Stevegym sællar minningar.
María maulaði banana og var mælanleg á Richter. Við spjölluðum aðeins, en ég er ekki viss um að hún hafi verið viðstödd í huganum. Allavega svaraði hún út og suður. Tímanlega hvarf hún aftur fyrir tjaldið í fylgd aðstoðarmanna sinna og við Mita tókum til við að naga neglurnar.
Mótið hófst.
Samkvæmt meldingu var María nr. 2 í rásröðinni, en allt í einu tók ég eftir því að þýskan Eva María Gall hefði breytt byrjunarþyngd sinni. Sú átti eftir að koma meira við sögu. Hún hlýtur að hafa gert það á síðustu stundu, og einhverra hluta vegna komust þau boð ekki tímanlega til skila til íslenska liðsins og María féll á tíma. Við Mita vorum í áfalli.
Þetta var ekki gott. María hafði samkvæmt venju verið frekar íhaldssöm í meldingu og þorði nú ekki annað en að endurtaka 155 sem hún hefði átt að klára strax. Sú lyfta var pottþétt og líka þriðja lyftan, en hún átti töluvert inni sem hún fékk aldrei að sýna. Hún endaði í 165, sömu þyngd og Gall.
Inger sigraði með 225, en Ingunn fylgdi henni fast á eftir.
Í bekknum jafnaði María sínu besta, sem er gott í nýjum slopp á fyrsta heimsmeistaramóti. Hún tók 105 og lenti í fjórða sæti. Inger sigraði aftur örugglega á 142,5 kg og Ingunn aftur í öðru sæti. Þær ætluðu greinilega að skipta verðlaununum á milli sín.
Svo var komið að deddinu og nú fóru stuðningsmenn að setjast upp í sætin og ræskja sig. Nú átti að taka á því. Það var nokkuð ljóst að Inger og Ingunn mundu taka gull og silfur, þær voru báðar í hörkuformi, en bronsið var innan seilingar fyrir Maríu. Hún byrjaði í 185 kg. Mér sýndist lyftan vera þung, en sjálf sagðist hún ekki hafa átt í vandræðum með hana. Svo tók hún 195 sem fór upp 3 – 0.
Ég vonaði að það myndi duga í bronsið, en svo blandaði þýskan Gall sig aftur í málið og bað um 197,5 kg. María reyndi fyrst en hafði það ekki þrátt fyrir mikla baráttu. Svo kom Gall og ég verð að viðurkenna að ég óskaði henni alls ills í huganum. Hún lyfti, en eitthvað fannst mér lyftan gruggug svo ég beið eftir dómnum með öndin í hálsinum. Því miður fyrir okkur voru dómararnir ánægðir með þetta. Og María missti af bronsinu með minnsta mögulega mun. Grábölvað. En hún stoð sig vel og var landi og þjóð til sóma. Gaf allt sem hún átti og gekk um næstu daga með merki átakanna í augunum.

Inger sigraði í flokknum á nýju heimsmeti öldunga í deddi og tótal, 592,5 kg. Þessi kona er ekki venjuleg. Hún er 45 ára gömul og ennþá að bæta sig. Hvernig er það hægt? Hún á aldeilis skilið sætið sitt í Hall of Fame. Ingunn krónprinsessa stóð sig líka vel og hirti silfurverðlaunin.
Við tókum vel á móti Maríu sem var svekkt og sátt í bland, fegin að vera búin og stolt að hafa klárað dæmið. Það eru ekki allir sem hafa tekið þátt í heimsmeistaramóti og barist um bronsverðlaun til síðsta blóðdropa.
Við borðuðum og komum okkur fyrir til að horfa á -82,5. Þar var Heidi Hille mætt, en það er alltaf gaman að horfa á hana. Ef veitt höfðu verið tilþrifaverðlaun hefði hún fengið þau. Hún gargar, stappar og ber sig á bringu, enda skapmikil og ákveðin kona. Hún hafði erfitt verk fyrir höndum, því Lian Blyn hafði flúið undan Inger upp í – 82,5 og var sigurstrangleg.

Comments are closed.