Lyse øyeblikk

Hellaskoðun

þegar þú tekur kristna trú færðu eilífðarverkefni. Að berjast gegn syndinni í öllum sínum myndum, að verða betri manneskja, að vaxa í vísku og trú. Ekkert smámál.

“Synd” er orð sem ekki er beinlínis í tísku nú til dags. Það hefur fengið á sig svo margar og óljósar merkingar að það er nánast ónothæft í umræðunni. Vinir mínir verða vandræðalegir eða hneykslaðir ef ég segist vera í syndabaráttu, en sperra hins vegar eyrun ef ég segist hafa fundið frábæra leið til sjálfsræktunnar, hraðbraut til aukins þroska og innsæis. Það hljómar nútímalegra og áhugaverðara. Meira svona 2009.
En í raun er ég að tala um sama hlutinn.

Syndin er það sem hindrar mig í að njóta mín í lífinu. Allt sem stendur í vegi fyrir að ég nýti krafta mína og gáfur til fulls, uppfylli hlutverk mitt í tilverunni, allt sem heftar mig. Syndin er falin í veikleikum mínum og göllum og lætur mig forðast mikilvægum verkefnum, lætur mig skemma fyrir og særa aðra og bregðast þegar mest á reynir. Baráttan gegn syndinni gengur út á að uppgötva eigin veikleika, horfast í augu við þær afleiðingar sem gerðir, orð og vanefndir mínir hafa haft fyrir aðra. Það er ekkert smámál. Það er með því erfiðasta og mest krefjandi sem maður getur tekið sér fyrir hendur um ævina. Talaðu bara við alla sálfræðingana og ráðgjafana sem vinna í þessu fagi. Margir streitast á móti í lengstu lög og lifa í afneitun. Það er skiljanlegt, en óhollt.

Þegar þú tekur kristna trú ertu farin að ganga þennan viðsjárverða veg. Feta mjóa stiginn sem vitnað er um í Biblíunni. Stígurinn byrjar við skiltið þar sem stendur: “játaðu syndir þínar”. Horfðu í augun við sjálfan þig, skoðaðu veikleika þína og styrk. Það er upphafið að sjálfsrækt og þroska.

Á þessum mjóa og vandrataða stig er gott að hafa góðan leiðsögumann og góða birtu. Kristnir hafa það. Leiðsögumaðurinn er enginn annar en Andinn heilagi. Hann er traustur, og hann hefur með sér lukt sem gefur góða birtu, Orð Guðs. Í ljósi þess sjást mistök þín og illvirki greinilega. Í ljósi þess mælikvarða sem þar er settur máttu endurmeta eigið ágæti. Þú sérð sjálfan þig í réttu ljósi, og ert kannski ekki alveg sá sem þú taldir þig vera.

Að játa syndir sínar er að fara í hellaskoðun. Þú hefur göngu inn í dimman og óþekktan munna með skuggalegum og óvæntum hliðargöngum á báðar hendur. Endalausar sprungur og lausamöl. Sumir snúa við eftir fimm mínútur, en ef þú herðir upp hugann getur þú komist mjög djúpt inn í fjallið og fundið sífellt þrengri op og dimmara skot. Hér er loftið staðnað og fúlt og erfitt að draga andan. Ef þú heldur áfram getur þú fundið leiðina inn að þinni dýpstu skömm og grófustu illvirki. Og ef þú ratar hingað í þetta skúmaskot einmanaleikans skaltu halda luktina á loft og láta birtuna falla á hellisvegginn. Og þá muntu sjá það. Sjá veggjarkrotið. Ljósið fellur á vegginn og það fyrsta sem þú sérð eru þessi orð: JESUS WAS HERE.

Sama hversu djúpt þú ert sokkinn, sama hversu langt frá mannabyggðum þú ert kominn var Jesús á undan þér þangað með náð sinni.

Nú ertu við upphafið. Leiðin tilbaka liggur í átt á ljósinu, lífinu og samfélaginu við Guð og menn.

Comments are closed.