Fyrir Mannréttindaráð Reykjavíkur liggur nú tillaga sem í raun miðar að því að banna samskipti skóla og kirkju.
Það eru réttindi hvers barns að fá að kynnast vel sínum uppruna, sinni sögu og sinni menningu.
Ef Mannréttindaráð Reykjavíkur á annað borð ætlar að skipta sér af innra starf skóla og leikskóla, væri nær að það myndi skylda þessar fræðslustofnanir til að fara með nemendur í kirkju og tryggja þannig að öll íslensk börn, líka börn trúlausra foreldra, fengu að sjá hvernig þar er umhorfs.
Á Íslandi hefur búið þjóð í meira en þúsund ár. Allan þennan tíma hefur kristin kirkja verið ein af undirstöðum samfélagsins. Saga, menning og trúarlíf þjóðarinnar hefur verið kristin. Allar kynslóðir hafa átt þessa hluti saman.
Enn á okkar dögum er yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar kristinn, og telst til þjóðkirkjunnar og er þátttakendur í starfi hennar í meira eða minna mæli. Gerðir eða aðgerðarleysi kirkjunnar manna er meðal heitustu umræðuefna manna á meðal.
Skóli sem útskrifar íslensk börn án þess að þau hafa fengið að kynnast Biblíunni, Passíusálmunum og annarri sálmahefð, án þess að þau hafa nokkurn tímann komið inn í kirkjubyggingu eða séð hempuklæddan prest í alvörunni, hefur vanrækt skyldu sína í menningarfræðslu að mínu mati.
Trúariðkun er daglegur hluti í lífi hundruða milljóna manna um allan heim. Það er staðreynd hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Trúarbrögð eru og hafa löngum verið míkill áhrifavaldur í sögu mannkyns, til góðs og ills.
Skóli sem útskrifar barn sem aldrei hefur fengið að sjá trúariðkun í alvörunni hefur ritskoðað veruleikann á mjög grófan hátt. Í heimi þar sem trúarbrögð skipta máli, hefur það barn hlotið gloppótta menntun sem aldrei hefur orðið vitni að helgistund í ríkjandi kirkju í sínu landi.
Það er skylda skólanna að mennta börnin. Að setja íslenskum skólum og leikskólum svo vanhugsaðar skorður jaðrar við valdníðslu – nokkuð sem er mannréttindaráði síst til sóma.