Er það nokkur spurning? Sport þar sem maður byrjar á að gefa upp aldur og líkamsþyngd bara HLÝTUR að höfða til kvenþjóðarinnar.
Það er yfirlýst stefna hjá norska íþróttasambandinu að fjölga konum í íþróttum, meðal þátttakenda, þjálfara, dómara og stjórnenda. Það líst mér vel á. Í NIF eru 60-og-eitthvað sérsambönd, þar af hafa einungis 4 sambönd konu í forsæti! Eitt þeirra fjögurra sambanda er kraftlyftingasambandið. Í einu sérsambandi (segi og skrifa EINU sambandi) eru konur í meirihluta í stjórn. Það er í kraftlyftingasambandinu. Það finnst mér athyglisverð staðreynd, ekki síst þar sem þetta í huga flestra er mega-macho-massa-karla-sport númer 1. Kannski færðu lyftingarnar þessum konum þann dug og þor sem á skorti til að þær risu upp og tóku völdin..??
Stjórn sambandsins hefur sett sér það markmið að fjölga konum í sportinu um allan helming. Að minnsta kosti 25 konur með á næsta opna meistaramóti. Sem liður í þessu kvennastarfi var haldið nokkurs konar landsmót kraftlyftingakvenna í Noregi í vor og ég fór þangað til að læra og hitta félaga.
Eitt af því sem við eyddum tíma í voru umræður um hvernig mætti auka áhuga kvenna á þessarri íþrótt og fjölga þátttakendum á mótum. Hvernig er hægt að selja konum þessa íþrótt?
Það er ekki erfitt að finna ástæður fyrir stelpur á öllum aldri til að stunda styrktarþjálfun almennt og kraftlyftingar sérstaklega.
Ástæðurnar eru aðallega tvær:
A, ÁVINNINGURINN ER MIKILL
B, ÞETTA ER EKKI MJÖG TÍMAFREKT
HINN MIKLI ÁVINNINGUR er aukinn styrkur og betri heilsa líkamlega og andlega. Þar sem við erum “veikara kynið” frá náttúrunar hendi segir það sig sjálft að það erum við sem þurfum á styrktarþjálfun að halda. Strákarnir hafa pínu forskot.
Rannsóknir sýna að styrktarþjálfun
– styrkir sina og vöðvafestar, gefur aukin stöðugleika og minnkar líkurnar á meiðslum í daglegum störfum.
– eykur þekkingu og hæfileika til að beita líkamanum rétt og komast hjá slit og meiðsli.
– gefur aukna orku í daglegum störfum
– gefur aukin vöðvamassa og brennslu
– gefur aukið sjálfstraust og þor
– minnkar líkur á beinþynningu og vöðvarýrnun hjá fullorðum konum
– veitir aðgang að öðruvísi og skemmtilegum félagsskap
TÍMINN sem fer í æfingar til að ná árangri er ekki meiri en svo að upptekin nútímakona getur komið þessu fyrir á stundaskránni sinni. Ef maður ætlar að ná árangri í maraþonhlaupi eða kappsundi þarf að leggja fram margra klukkutíma vinnu á dag. Í styrktarþjálfun geta konur æft markvisst þrisvar í viku, tvo tíma í senn, og náð góðum framförum.
Að ná mikinn ávinning með frekar litlum tilkostnaði ætti að höfða til kvenna á kafi í vinnu og heimilisverkum.
Af hverju taka þá stelpurnar svo sjaldan almennilega á því?
Daglega verð ég vitni að því í æfingarsalnum að strákarnir mæta galvaskir til leiks og hlaða allt of mikið á stöngina miðað við getu, og svo koma stelpurnar og hlaða of LÍTIÐ á stöngina miðað við getu. Ef þær snerta þá yfirleitt lóðin. Margar stunda vélaþjálfun alla sína tíð án þess að taka nokkurntímann upp handlóð, hvað þá stöng.
Hvað er það? Hafa þær engan metnað? Hafa þær svo rúman tíma að þær geta eytt honum í æfingum árum saman án þess að taka framförum? Hvernig nenna þær að æfa án þess að reyna almennilega á sig? Hvaða líkamshluta þykjast þær vera að þjálfa? Samviskuna? Getur það verið að þær séu að æfa til að styrkja samviskuna? Ef svo er ættu þær að vara sig á ofþjálfun, það líffæri sem oftast hleypur ofvöxtur í hjá konum er samviskan.
Ég hef heyrt sögusagnir um konur sem eru hræddar(!) við að verða stórar(?), ljótar(??), ósexí(???!) og fá skeggbrodda af því að stunda styrktarþjálfun..
Þegar ég horfði yfir salinn sá ég ekkert nema frekar litlar, jafnvel smávaxnar, konur – misfríðar eins og gengur, sumar glæsilegar – flestar giftar eða í sambúð, svo nógu sexí hafa þær verið til að ná í karlinn sem þær óskuðu sér – og engar tóku upp rakvél í minni viðurvist.
Ég man þegar hlaupaæðið fyrst gekk yfir vesturlönd og menn tóku upp á því í stórum stíl að fara út að skokka á kvöldin. Það voru skiptar skoðanir um hvort þetta væri sæmandi fyrir konur. Án gríns. Menn viðhöfðu þau orð í mín eyru að það væri ekki við hæfi að konur væru úti að hlaupa sveittar og rjóðar á almannafæri. Það var ekki beinlínis fagurfræðilega æskilegt, frekar óaðlaðandi sjón, sérstaklega ef konan væri holdmikil og bústin. Hlaupandi konur með allt hossandi upp og niður var ljót sjón, særði fegurðarskyn hins almenna manns.
Nú, ef konur endilega vildu hlaupa og keppa í hlaupum ættu þær að halda sig við styttri hlaup. Langhlaup væri ekki hollt fyrir hin viðkvæma kvenlíkama, og maraþon var beinlínis hættulegt. Það var bannað. Konur máttu ekki hlaupa maraþon. Þær gætu orðið ófrjóar. Pælið í því.
Ég man fyrsta ólympíumaraton fyrir konur í 1984, það er ekki nema 20 ár síðan. Joan Benoit sigraði, en ég held að jafnmargir muna eftir Gabriela Andersen-Scheiss sem var 5 mínútur að klára síðasta hringinn áður en hún skjögraði yfir marklínua og beint í hendurnar á hjálparsveitina. “Sko, sjáið bara, hvað sögðum við? Konan er nær dauða en lífi.” Og menn rifust. Var þetta sönnun þess að maraton væri ekki fyrir konur eða var þetta sönnun þess að konur gæti gert hvað sem væri? Var Gabríela hetja eða fórnarlamb? Tvo tíma eftir hlaupið var hún í fínu formi, mætti í myndatöku og viðtöl, og konur hafa hlaupið maraton síðan. Þökk sé Grethe Waitz og félagar.
Þegar ég var stelpa voru ekki til fótboltalið fyrir konur. Nema hvað! Það var alkunna að stelpur höfðu ekki vit á fótbolta. Það var sport sem var utan við kvenlegan skilning. Það var eitthvað í eðli íþróttarinnar sem konur einfaldlega gæti ekki meðtekið. Það vissu það allir. Stelpur voru hlægilegar með bolta. Fyrsta heimsmeistarakeppni kvenna var haldinn 1991, það er ekki lengra síðan. Sama gilti um aðrar boltaíþróttir.
Ég hugsaði um þetta þegar ég horfði á úrslitaleik Dana og Norðmanna á evrópumótinu í handbolta í fyrra. Almenningur í báðum löndum sátu fyrir framan sjónvörpin og nöguðu neglur upp í olnboga. Það var hörkuleikur, menn og konur hlógu og grétu á víxl. Enginn höfðu orð á því að stelpurnar voru klunnar með boltann, ragar í tæklingum eða barnalegar í leikskipulaginu. Þetta var toppíþrótt á háu plani.
Anette Sagen er norsk skíðastökkvari sem komst í fréttirnar sl. vetur vegna þess að henni var bannað að stökkva í Vikersund skíðaflugspallinum vegna kynferðis. Hvernig má það vera að hún má ekki stökkva, á árinu 2005, eingöngu vegna þess að hún er kona. Hvernig má það vera? Halda þeir að hún verði ófrjó af því?
Ef ég man rétt var kona skipstjóri um borð í geimferjunni síðast. Konur geta s.s. stjórnað geimferjur – en stokkið á skíðum?? Nei, ertu frá þér maður?!
Ég veit ekki hvort það sé rétt hjá mér, en stundum finnst mér sem konur í kraftlyftingum séu staddar í svipuðum sporum nú og hlaupakonurnar voru í fyrir 20 árum síðan. Þetta er eitthvað sem sæmir ekki konum, eitthvað sem konur geta ekki skilið, eitthvað sem getur verið hættulegt.
Við hvað eigum við að vera hræddar?
Að fá vöðva? Að verða sterkar? Að verða of ókvennlegar?
Of ókvennlegar til hvers? Of ókvennlegar fyrir hvern?
Hversu lengi ætla konur að láta stjórnast af fornfálegum og úreltum kvenímyndum?
Mér er spurn.