Lyse øyeblikk

Mother-of-all-straight-jackets

Einu sinni var lítil stúlka sem hét Öskubuska. Hún hafði nettar og prinsessulegar fætur og notaði skó úr gleri. Ekki hentugt! Gler er óþjált efni og gefur ekki mikið eftir. Ég hef komist að því þegar ég hef reynt að troða glösum inn i uppþvottavélina. Systur Öskubusku fengu líka að sannreyna það þegar þær vildu troða sér í glerskóinn. Ekki að virka. Þær þurftu að skera af sér hæla og tær …

Öllu fórnað til að láta hann passa. Allt lagt í sölurnar til að troða sér í. Þannig er veruleiki bekkpressarans.

Það er kannski ekki þekkt meðal almennings, en kraftlyftarar eru haldnir dulinni sjálfspíningarhvöt. “No pain – no gain” er guðspjall dagsins á þeim bæ. Þess vegna hafa þeir látið hanna sérstakar keppnisgræjur sem eiga að styðja og styrkja í lyftunum og jafnframt vera eins óþægilegar og frekast er unnt. Helst valda sársauka.
Hér er um að ræða belti sem eru svo rammgerð að kalla þarf út slökkviliðið með klippur ef lásin stendur á sér, sérsmíðaða skó sem ekki er hægt að ganga í, bönd sem á að vefja mjög fast um hné – ef þú getur stöðvað blóðrásina alveg ertu kominn uppá lagið, grófar stangir og magnesíum sem er martröð allra handsnyrtara, stálbrækur – nafnið segir allt sem segja þarf. Og svo auðvitað hinn uppáþrengjandi bekkpressusloppur.

Þú sest ekki niður við eldhúsborðið og saumar þér bekkpressuslopp. Hann stríðir gegn öllum reglum góðs saumaskapar. Ekkert af því sem ég lærði í handavinnutímunum hjá frú Schei Pedersen kemur hér að notum.

Þessi skyrta hefur alveg einstakt snið.
Efnið er framleitt á sama stað og Stonehenge.
Ermarnar eru settar í að framan.
Þegar þú ert komin í, stendur þú með framréttar beinar hendur eins og hver annar svefngengill.
Þeir sem hafa séð myndina The Monster from the Swamp kannast við lúkkið.
Þegar þú leggst á bekkinn standa hendurnar beint upp og þú þarft að leggja vel á stöngina áður en þú komist yfirleitt niður með hana.

Þú kemst ekki í sloppinn hjálparlaust. Ítroðslan er vandaverk sem er best komið í höndum sterkra og vandaðra manna. Tveggja manna helst. Best ef þetta eru menn sem þú þekkir vel, eða langar til að kynnast náið, því þetta er nærgöngul og persónuleg vinna. Close encounter of the third kind.

Ágætt er að byrja á púðrinu. Talkúm á hendur og axlir getur skipt sköpum og minnkað mótstöðuna. Athuga að sáldra ekki púður yfir allt gólfið, hálkublettir gera sig ekki í gymminu.
Byrjað er á að troða sér í ermarnar. Það getur tekið slatta tíma og fólk með innilokunarkennd ætti að fá sér eitthvað róandi eða fara með hugleiðingaþulur á meðan á þessu stendur.

Ef þér tekst að koma sloppnum upp í handarkrika getur þú unnað þér smá hvíld áður en þú leggur í að koma honum yfir höfuðið.
Nú er tímabært að ganga frá gleraugum, eyrnalokkum, fölskum tönnum og öðru lauslegu.
Gott er ef troðarinn geti staðið hærra en fórnarlambið, t.d. í stiga, til að ná betra taki. Farið varlega með nef og eyru, sömuleiðis með hnakka sem geta brotnað og tognað undir þessarri pressu.
Ef þú nærð sloppnum yfir höfuðið getur þú sest niður smástund og kastað mæðinni ásamt ítroðurunum sem nú eru farnir að sjá eftir að hafa ekki plástrað á sér puttana strax í upphafi.

Svo er málið að toga sloppinn niður með líkamanum. Hér skiptir engu máli hversu brjóstagóður maður er, allt fletjist út og leggst í eyði. Þegar bolurinn er komin alla leið niður í mittið gæti óreyndur lyftari freistast til að halda að björninn væri unninn og það versta yfirstaðið. Það er á misskilningi byggt.

Nú hefst nefnilega vinnan við að laga sloppinn til og láta hann sitja rétt.
Upphefjast nú miklar spekúlasjónir hjá troðurunum sem fara að hegða sér eins og saumakonur. Stíga skref tilbaka, leggja hönd á höku, halla undir flatt, virða fyrir sér flíkina. Nei elskan, þetta gengur ekki, hér þarf að laga til, þessi fellingur á ekki að vera, þessi saumur er skakkur, hægra ermið er síðara, þurfum að toga hér, rétta þar, upp með hendur, snúa hálsinn, anda inn, anda út. Spyrna i vegginn til að ná góðu taki. Þrýsta, klípa, strjúka, toga, meiða. Hér gildir það eitt að horfa út í loftið og reyna að öskra ekki. Standast rauninni.

Allt tekur enda um síðir. Menn eru sáttir. Þetta virðist vera í lagi, ég get næstum því hreyft mig.
Svo er mál að lyfta og komast að því hvort það hafi verið þess virði að standa í þessu …

Allt lagt í sölurnar til að komast í. Öllu fórnað til að láta hann passa. Veruleiki bekkpressarans.

Smá minnispunktur í lokinn: þegar á að svipta af manni flíkina aftur er um að gera að ríghalda í toppinn – til að forðast óhapp a la Janet Jackson.

Comments are closed.