Lyse øyeblikk

U/J/V 2005 (is)

Þegar ég var búin að setja tvö norsk öldungamet á síðasta íslandsmóti sá ég í hendi mér að ég gæti átt erindi á norska unglinga- og öldungamótinu 2005. Það átti að fara fram í minni heimaborg, svo það lá beint við að setja stefnuna þangað. Nógur tími var framundan, og nú átti aldeilis að stimpla sig inn í norsku bækurnar. Æfingar gengu vel, sérstaklega sá ég bætingar í beygjum. Þess vegna ákvað ég að keppa í sama þyngdarflokki aftur til að reyna að bæta eigin hnébeygjumeti áður en ég stekk upp í eldra öldungaflokk um áramótin. Ég ákvað líka að skrá mig á bikarmót Kraft helgina áður og taka það sem nokkurs konar fínstillingaræfingu, enda langt síðan ég hafði lyft á móti.
Ég talaði Maríu á að koma með mér út, keypti flugmiða, fékk frí í vinnunni, skráði mig á mótin og byrjaði að bursta hnébeygjuskóna, strauja sloppinn og fægja beltissylgjuna. Allt klárt.

Á síðustu æfingunni fyrir bikarmótið ákvað ég að enda á einni léttri réttstöðulyftu, svona nokkurs konar good-luck lyfta, punktinn yfir í-ið. Ég var búin að taka 140 og eiginlega búin að æfa, en ákveð illu heilli að taka eina 135, svona bara að gamni. Þetta er ekki þungt, ég fer rétt í lyftuna, ekkert skökk eða skæld eða með hugann við annað, en þegar lóðin eru komin 3 cm frá gólfi heyrist hvellur og ég stend allt í einu á annari löppinni föl af sársauka.
Ég veit um leið að þarna fór bikarmótið og sennilega líka norska mótið.
Ég haltra heim og sest ofan í klakafötu og sturta í mig bólgueyðandi og verkjalyf. Sjúkraþjálfarinn horfir íbygginn á mig og skoðar mig hátt og lágt. Hann fellir þann úrskurð að hér hefur spjaldhryggurinn hrokkið úr stað og vöðvar fests í krampa og jafnvel tognað. Það hljómar nú ekki svo illa. Hann tekur til við að hnoða og hamast á mér og segir mér að taka léttar æfingar með. En engar beygjur eða dedd thank-you-very-much!

Ég hugsa lengi og djúpt um hvað ég eigi að gera. Bikarmótið er úti, það er alveg á hreinu. Þar geri ég lítið annað en að mæta og þvælast fyrir Maríu sem keppir í 75 og rústar öllum íslandsmetunum á einu bretti.

Norska mótið hangir á bláþræði, en ég ákveð að fara út og hita upp á sjá svo til hvernig gengur. Ég finn alveg dagamun til batnaðar svo ég er orðin þokkalega bjartsýn um að geta allavega klárað mótið, hvað svo sem hugsanlegum bætingum líður.

Við förum út á fimmtudegi. Mótið hefst á föstudegi á gömlu körlunum. Ég og hinar konurnar eigum að lyfta á laugardegi ásamt ungu strákunum.
Ég vakna snemma á föstudeginum, ætla að útrétta aðeins fyrir hádegi og fara síðan á mótsstað að skoða aðstæður og horfa á öldungana.
Best á fara fram og bursta í sér tennurnar. Ég rölti fram á bað, stíg fæti inn á gólfið og ÞÁ GERIST ÞAÐ! Mín rennur á baðherbergisgólfinu, beint út í splitt, vöðvinn fer allur í hönk og ég ligg í fósturstellingu emjandi á gólfinu. ÉG TRÚI ÞESSU EKKI, ÞETTA GETUR EKKI VERIÐ AÐ GERAST! BACK TO SQUARE ONE AND THEN SOME! Ég hef ekki verið svona kvalin síðan ég lenti í að fæða hér um árið.
María kemur hlaupandi fram og horfir á mig með opinn munninn: hvað gengur á? Ég kem ekki upp orði en skríð inn í herbergi og velti fyrir mér hvort ég eigi að byrja að gráta en ákveð að sleppa því.
Ég veit ekki hvað er verst, kvalirnar, að hafa sennilega endanlega misst af tækifærinu til að gera eitthvað marktækt á stönginni, eða hitt: að hafa meitt mig með því að renna á baðherbergisgólfi eins og áttræð kerling. Það er of asnalegt til að mega fréttast.
Ég byrja á því að taka hátíðlegt loforð af Maríu um að segja aldrei frá því hvernig þessu slysi bar að höndum, við verðum að finna einhverja aðeins hetjulegra opinbera skýringu.
Hvað á ég svo að gera? Öll skynsemi segir mér að henda inn handklæðinu og vera ekki að rembast við að afneita staðreyndum, og ég er með svarta beltið í skynsamlegri hegðun.
– Ég veit hvað strákarnir myndu gera, segir María.
– Nú?
– Þeir myndu bíta á jaxlinn.
– Is that so?? Eru það valkostirnir í stöðunni, að haga sér skynsamlega – eða eins og strákur?
Ég ákveð að halda mínu striki, mæta í upphitun og sjá hversu langt það nær. Ég ætla ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana.

Morguninn fer í að útrétta og reyna að finna æfingarstað fyrir Maríu sem vantar að taka eina deddæfingu. Linda Høyland bendir á stúdentagymmið á Vektertorget. Við litum við í Puls að gamni, en þar eru ekki til nógu mörg lóð til að fylla á stöngina fyrir hana. Þar hittum við rúmlega sjötugan hressan og tannlausan karl sem reynist hafa verið landsliðsmaður í lyftingum, og meira að segja orðið heimsmeistari öldunga. Hann segist hafa komið til Íslands nokkrum sinnum, m.a. sem fararstjóri með kraftlyftingaliði fatlaðra. Við tölum saman lengi, lyftingarmenn leynast víða.
Svo förum við í Haukelandshallen og fylgjumst með keppni í öldungaflokki karla. Þeir voru margir hverjir sprækir og myndarlegir. Hápunkturinn var þegar Rolf Halvorsen setti heimsmet forn-ölduna í bekkpressu með 163 kg í -82kg í beinni sjónvarpsútsendingu. Það var kúl. Framkvæmd mótsins var öll til fyrirmyndar, og í hléinu gátum við skoðað söluvarning og fengið heitan mat og kökur. Ég fjárfesti í nýja skó og María í réttstöðubrók.
Mér leið ekki vel, gat hvorki setið né gengið og fór heim snemma. Eftir hrikalegt djúpnudd fór ég að sofa og ákvað að vera bjartsýn.

Mótsdagurinn rann upp með grenjandi rigningu. Vigtun og skoðun var strax klukkan 9. Þar voru stelpurnar mættar, m.a. Hildeborg Hugdal sem var stór og geislandi kát og brosandi. Tone Glomstein var hætt við þátttöku en Lise Engsnes mætt til leiks. Hún er með mjög svipað tótal og ég og gaman gæti orðið að keppa við hana.
Ég byrjaði snemma að hita upp, mjög rólega, enda var ég orðin spennt að sjá hvað druslan gæti dregið. Ég var með verki, en ekkert óþolandi. En strax í 80 kg var ég farin að lyfta á annarri löppinni, hægri löppin virtist vera á mörkunum að detta út, það var eins og það væri enginn kraftur í henni. Ég ákvað að prófa í brók og vafningum, og þá lagaðist það aðeins. Ég lækkaði opnunarþyngd niður í 120 og ákvað að láta slag standa.

Svo skal nú bara farið fljótt yfir sögu, svekkelsið var algert. Ég fékk þrjár ógildar lyftur. Allt búið. Ég gæti gargað.
Það var ekkert vit í að halda áfram. Engar bætingar fyrirsjáanlegar í bekknum, og ég efaðist um að ég gæti beygt mig niður að stönginni í réttstöðunni. Ég þoli ekki að játa mig sigraða. ÉG HATA ÞAÐ!!!!! Allt í lagi að tapa fyrir sterkara konu eins lengi og maður hefur gert sitt besta, en að detta út án þess að hafa gert neitt af viti er glatað!
En kannski hefur maður gott af því að falla á feisið stundum. Ég er sko ekki búin að segja mitt síðasta orð, það mikið er víst!

Um kvöldið var fín veisla með ræðuhöld og læti og glóðvolgar fréttir um að Tollef Taksdal hafði fengið brons í bekknum í Florida og væri að hita upp í réttstöðu. Mikið klapp.

Þetta var gaman þrátt fyrir allt. Gaman að kynnast Maríu betur, gaman að hitta fullt af skemmtilegu fólki – gamla kunningja og ný andlit. Við sluppum frá Bergen á elleftu stundu áður en mannskaðaveðrið skall á aðfaranótt mánudagsins.

Nú er ég komin í sjúkraþjálfun og æfingarbanni og fæ mér kvalastillandi þegar ég get ekki meir. Þetta hlýtur að taka enda bráðum.

Comments are closed.