Eins og kerlingin sagði: „Það er erfitt að spá. Sérstaklega um framtíðina.“
Hver vissi það, þegar ég álpaðist af hálfgerðri tilviljun undir stöng á mínu fyrsta kraftlyftingamóti, að ég ætti eftir, fjórum árum seinna, að styðja inngöngu KRAFT í ÍSÍ?
Ekki ég.
Sumt vissi ég þó.
Ég vissi að mér þótti kraftlyftingar flott íþrótt.
Ég vissi að mér fannst hún eiga heima meðal annara íþrótta, hvort sem var í ÍSÍ eða á Ólympíuleikjum.
Ég vissi að skýringarnar sem ég fékk á af hverju KRAFT væri utan ÍSÍ voru loðnar. Yfirlýsingaglöðum kraftakörlum með stórum munnum fyrir neðan nefið varð fátt um svör þegar ég spurði. Þeir horfðu til hliðar og umluðu. Ég áttaði mig á því að allstaðar eru tabú.
Utanfélagsmenn höfðu svörin á reiðum höndum: Það er vegna þess að kraftakarlarnir vilja ekki þurfa að gangast undir lyfjapróf.
Noj!!!??
Júvíst. Hversu bláeyg geturðu verið. Auðvitað er það skýringin.
Ég er nú einu sinni þannig að ég vil frekar vera álitin saklaus og heimsk en að hugsa illa um fólk, svo ég kaus að trúa þessu ekki.
Það var þess vegna mikið áfall þegar tvær helstu hetjur mínar í sportinu voru dæmdir í bann og úr leik vegna svindls.
Við slíkar aðstæður er erfitt að kveða niður álmenningsálitið.
Við slíkar aðstæður er engin leið fær önnur en að taka til hjá sér i no uncertain terms.
Mér finnst kraftlyftingar flott sport.
Ég vil sjá þær sóma sér við hliðina á sundið, frjálsar og handboltann.
Ég vil geta borið höfuðið hátt.
Ég vil geta æft réttstöðulyftu án þess að næsti maður komi upp að mér og segi (vonandi í gríni): Á hverju ert þú eiginlega??
Ég vil að allir sem hafa áhuga á að æfa styrk og hugsanlega keppi í kraftlyftingum eigi sér öflugt félag þar sem ekki eru nein tabú.
Ég vil að sterkustu menn og konur landsins fái sama styrk og stuðning til íþróttaiðkunnar sinnar og keppnismenn í öðrum íþróttum.
Þess vegna styð ég inngöngu KRAFT í ÍSÍ.
Framtíðin verður svo að leiða í ljós hvort það verði kraftlyftingum til framdráttar. Það er ekki gott að segja.
Eða eins og kerlingin sagði: það er erfitt að spá. Sérstaklega um framtíðina.