Lyse øyeblikk

Batnandi (kraftlyftinga)mönnum er best að lifa

Ég sat kraftlyftingaþingið um helgina. Þar tóku menn þá róttæku ákvörðun að byrja nýtt og betra líf. Það er alltaf gaman að verða vitni að slíku.
Við slík tækifæri er eðlilegt að ákveðinn kvíði og óróleiki sé í mönnum, framtíðin er óviss. *Man vet hva man har, men ikke hva man får* – syndromet.

Að byrja á einhverju nýju þýðir um leið að segja skilið við eitthvað gamalt. Það er óhjákvæmilegt og ekki alltaf sársaukalaust. Ekki alltaf auðvelt. En alltaf nauðsynlegt. Menn geta ekki bæði haldið og sleppt.

Margar spurningar vakna sem þarf að finna svör við og vinna úr á næstu misserum, svo sem t.d. hvað verður um öll glæsilegu íslandsmetin? Verða þau ógild??

Það er stór spurning, en samt bara angi af ennþá stærra máli – nefnilega það að gera upp við fortíðina.
Kraftlyftingarkona eða –karl sem hefur sett glæsilegt íslandsmet af harðfylgi og dug og algerlega án “utanaðkomandi aðstoðar” hefur vissulega ástæðu og rétt til að verða svekktur og reiður ef til standi að ógilda metið. Vissulega.

En hann verður að passa sig á því að láta reiðina bitna á þeim sem eiga hana skilið.
Það er ekki stjórn KRAFT eða eitthvert alþjóðasamband útí heimi.
Það eru þeir sem hafa með afstöðu sinni og atferli varpað rýrð á þessi met, sem hafa gefið færi á að menn geta dregið gildi þessara meta í efa.
Það eru þeir sem þurfa að fá að heyra þetta svekkelsi og þessa reiði. Það eru þeir sem þurfa að verða minntir á að svindl og reglubrot bitna alltaf á þeim sem eru saklaus.

Þegar menn gera upp við fortíðina er gott að hafa hausinn í lagi og horfa á hlutina frá réttu sjónarhorni.

Íslenski kraftlyftingarheimurinn er lítill. Hann samanstendur af mönnum og konum sem hafa verið vinir og félagar árum, jafnvel áratugum saman.
Hvað nú? Verða menn að hætta að tala saman? Þurfa menn nú að leggja lykkju á leið sína ef þeir skyldu rekast á utanfélagsmann á förnum vegi? Þurfa menn að taka til á jólakortalistanum sínum og fjarlægja forna vini? Er bannað að heilsa mönnum með handabandi? Þurfa menn að loka augunum á æfingum til að læra örugglega ekki neitt af mönnum í öðru sambandi?
Tæplega.
En þegar kemur að íþróttinni, keppnum og mótum þurfa skilin að vera skýr.
Nú verða menn að velja. Og hafna.
Hvoru megin vil ég vera? Í KRAFT, ÍSI OG IPF? Eða ekki ..

Comments are closed.