Lyse øyeblikk

Hreinræktuð kraftlyftingakona

Ég er orðin félagi í Oslo Styrkeklubb. Til að svo mætti verða þurfti ég að borga félagsgjald, með afslætti 700 norskar, og skrifa undir eiðstaf þar sem ég lofaði að haga mér eins og maður, vera sjálfri mér og sportinu til sóma í hvítvetna og ekki nota ólöleg efni – að viðlögðum sektum og eilífa smán og útskúfun. Ég skrifaði undir með glöðu geði. Ég reyni alltaf að haga mér eins og maður, mér þykir vænt um sportið og reyni að mæla með því þegar tækifæri gefst og ég veit ekkert um og kem ekki nálægt ólöglegum efnum.
Lyfjamisnotkun er ein helsta pest í íþróttaheiminum í dag, og því miður hafa kraftlyftingar á sér alveg sérstaklega slæmt orð. Það finnst mér glatað.

Ég átti gott spjall við formann norska kraftlyftingasambandsins. Hún fræddi mig um að einhugur væri þar innandyra um að reka af sportinu slyðruorðið og uppræta hugsanlegu svindli í nánu samstarfi við WADA og norska íþróttasambandið. Í fyrra voru framkvæmd rétt innanvið 200 lyfjapróf á meðlimum sambandsins á öllum stigum. Frode Rui, landsliðsmaður, þurfti að mæta 15 sinnum í prófun ef ég man rétt. Og landsliðskonurnar sem voru á kvennamótinu voru tilkynningarskyldar og gátu átt von á því á hverri stundu að vera kallaðar í sýnitöku. Og þá er eins gott að mæta, annars ertu sjálfkrafa fallin og úti í kuldanum.

Mér finnst vit í þessu. Ég vil að kraftlyftingar njóti virðingar og álit á við hvaða öðru sporti sem er. Sérstaklega finnst mér nauðsynlegt að gefa ungum og óþolinmóðum lyftingarkonum skýr skilaboð um að halda sér frá kemískum efnum. Maður heldur að maður sé ódauðlegur þegar maður er ungur. Maður vill sigra, no matter what. Maður heldur að góð heilsa sé mannréttindi og eitthvað sem má taka sem sjálfsögðum hlut. Maður heldur að maður getur boðið líkamanum hvað sem er.

Kannski hefur það eitthvað með aldur að gera að ég hafi áttað mig á að svo sé ekki. Kannski metur maður góða heilsu meira með aldrinum. Ég hef ekkert á móti því að mæta í lyfjapróf.
Og þó …Konur ein og ég, á breytingarskeiðinu, hafa sérstaka hormónasamsetningu í blóðinu. Með minnkandi estrogenframleiðslu hækkar testosteroninnihaldið hlutfallslega. Sem er gott fyrir styrkinn. Vonandi taka þeir það með í reikningin … ef ég skyldi vera komin yfir lögleg mörk!!!! 😀

Comments are closed.