Lyse øyeblikk

Eru kraftlyftingar íþrótt??

Fyrir hér um bil hundrað árum skrifaði ég grein á heimasíðu minni undir heitinu „Eru kraftlyftingar kerlingarsport?“
Hvatin að skrifunum voru orð sem ég heyrði bæði konur og karla láta falla í þá veru að það væri ókvenlegt að lyfta þungt, að konur gætu glatað kynvísi sínu og kynþokka ef þær stunduðu kraftlyftingar.
Samkvæmt þessu eru konur mest aðlaðandi ef þær eru veikburða.
Þetta samrýmist hinni fornu ungfrú-í-nauðum-hugmynd sem gerir körlum kleift að koma til bjargar og sýna yfirburði sína. Hugmynd sem hampað hefur verið nógu lengi að mínu viti og er kominn tími til að leggja endanlega.

Nú finnst mér ég knúin til að skrifa aðra grein. Að þessu sinni undir heitinu „Eru kraftlyftingar yfirleitt sport?“ Á að skilgreina kraftlyftingar sem íþróttagrein?
Hvatin að skrifunum að þessu sinni eru orð sem ég hef heyrt bæði konur og karla láta falla í þá veru að maður getur vel verið íþróttamaður án þess að vera í íþróttafélagi.

Skoðum það nánar.

Tökum fótboltann sem dæmi. Það er íþróttagrein. Ef marka má fjölmiðlaumfjöllunina er það eina íþróttagreinin sem varið er í!

Nú stundar fjöldi manns fótbolta án þess að vera skráðir í knattspyrnufélögum. Þú þarft ekki að skrá þig í félag til að mega fara út á tún með bolta. Pollar og peyjur á leikskólaaldri leggja allt í sölurnar til að skora mark. Vinnufélagar æfa í hádeginu. Hópar koma saman reglulega í meira eða minni formlegum hópum og sparka tuðru, sumir hafa jafnvel haldið hópinn áratugum saman og elska fótbolta af öllu hjarta. Horfa á boltann öllum stundum og klæðast einkennisbúningi sins liðs. Sumir eru jafnvel góðir – og sameiginlegt eiga þau öll að æfa sér til heilsubótar og skemmtunnar. Frábært.

Á sama hátt stundar fjöldi manns lyftingar án þess að vera skráðir í lyftingarfélögum. Þú þarft ekki að skrá þig í félag til að mega lyfta lóðum. Miðað við aðsóknina á æfingarstöðvum stundar hálf þjóðin styrktarþjálfun með einum eða öðrum hætti. Tengdamanna á endurhæfingarstöðinni og fangarnir á Litla-Hrauni taka á því, með mismunandi hætti þó. Vinnufélagar æfa í hádeginu og á kvöldin og bekkja, dedda og beygja fram í yfirliðið. Frábær líkamsrækt, skemmtun, samvera og heilsubót. Frábært.

En eru þetta fótboltamenn og kraftlyftingarmenn? Geta þeir sagst vera íþróttamenn?

Flestir tuðrusparkararnir myndu segja að þeir væru að gera þetta að gamni sínu – án skuldbindinga. Án þess að takast á hendur þær skyldur og skuldbindingar sem fylgir því að skilgreina sig sem íþróttamenn. Þeir eru ánægðir með að vera í líkamsræktarpakkanum.
Margir æfa kraftlyftingar að gamni sínu – án skuldbindinga. Án þess að takast á hendur þær skyldur og skuldbindingar sem fylgir því að skilgreina sig sem íþróttamenn. Þeir eru sáttir í líkamsræktarstellingunni. Gott mál.

Því ef þú ert ekki sáttur þar og vill vera kraftlyftingarmaður – s.s. stunda þetta sem íþrótt – þá er nauðsynlegt að ganga í félag og skuldbinda sig. Annað er bara í plati.
Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur boðið kraftlyftingamönnum tækifæri til verða íþróttamenn, hluti af íþróttaheiminum. Þeir sem vilja vera kraftlyftingarmenn ættu ekki að láta bjóða sig það tvisvar en leggjast á sveif með þeim sem vilja skilgreina kraftlyftingar sem íþrótt.
Með stofnun Kraftlyftingasambands Íslands er lag að hefja þetta sport til vegs og virðingar hjá þjóðinni.

Að halda því fram að það er hægt að vera íþróttamaður án þess að vera í íþróttafélagi er álíka fornt og ungfrú-í-nauðum-sjónarmiðið. Viðhorf aftan úr forneskju sem ætti að leggja endanlega. Núna.

Comments are closed.