Lyse øyeblikk

Bönn og boðun

Undanfarið hefur verið um fátt meira talað en tillaga Mannréttindaráðs Reykjavíkur um að banna allt sem flokkast getur undir “trúboð” í leik- og grunnskólum.
Heimsóknir presta flokkast þar með, og sálmasöng, englaföndur og handfjötlun Nýja testamentisins. Sérstaklega er mannréttindafrömuðum uppsigað við Gideon-félaga. Upp til hópa meinlitlir menn sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Flokkaðir með verstu skaðvöldum allt í einu.

Ég hef nú víst þjáð mig nóg um þessa tillögu í bili, en verð að staldra við eitt enn:
hvernig ætla menn að greina fræðslu frá trúboði í þessu tilfelli?

Má tala um Krist en taka fram að þetta er bara eitthvað bull sem örfáir milljónir manna trúa á? Má minnast á að sumir biðja borðbænir og þakka Drottinn fyrir lífið, en taka fram að við eigum Guði ekkert að þakka? Eða má bara ekki minnast á þetta yfirleitt?

Á að kenna kristinfræði en leggja sig fram við að vekja ekki áhuga eða forvitni? Hvers konar fræðsla er það?

Í öllum fögum snýst kennsla um að uppfræða, mata börnum á upplýsingum. En líka um að vekja áhuga og forvitni og hvetja nemendur til að sækja sér frekari menntunnar.
Íslenskukennari sem reynir að bæla áhuga nemenda á efninu er ekki að standa sig. Heimilisfræðikennari sem letur börn til að reyna að elda heima vinnur gegn markmiðum aðalnámskrár.
Sömuleiðis trúfræðikennari sem reynir að bæla áhuga nemenda á trúmálum og mælir gegn kirkjuheimsóknum. Hann er kannski að reyna að forðast því að boða trú, en hann er ekki að standa sig sem kennari.

Comments are closed.