Lyse øyeblikk

Brókarsótt

1 Comment

Brókarsótt
Ég var að taka mínar fyrstu jómfrúarbeygjur í brók.
Við það tækifæri vöknuðu fjórar áleitnar spurningar.

Spurning númer eitt: HVAÐ ER AÐ ÞESSU KRAFTLYFTINGARFÓLKI??
Hvurslags sjálfspýntingarhvatir liggja hér að baki? Þetta er masokismi sem jaðrar við perraskap! Er ekki nógu vont að pína sig á æfingum og mótum þangað til maður sér stjörnur um hábjartan dag? Er nauðsynlegt að gera það í fötum sem eru sérhönnuð til að kvelja mann enn frekar? Af hverju ekki að fara þá alla leið og festa brodda á skálmana? Eða fóðra beltið með gaddavír? Hefur engum dottið það í hug? Menn ættu að fá kikk út úr þvi!

Jæja, ég varð mér úti um brók og lærði að fara í hana, sem er kúnst útaf fyrir sig. Ég hélt fyrst að það væri ekki hægt, en fór í heimsókn til Maríu sem sýndi mér að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það má eiginlega kalla það kraftaverk, bókstaflega, að komast í svona flík. Impossible is nothing.
Ok, so far so good. Ég er komin með brókina upp í klof, upp fyrir rass og bumbu.

Þá vaknar spurning númer tvö: HVER HANNAÐI ÞESSA BRÓK?
Að óathuguðu máli treysti ég mér til að fullyrða að það hafi EKKI VERIÐ KONA! Viðkomandi hefur pottþétt ekki verið með brjóst.
Ég er aftur á móti með brjóst. Tvö stykki meira að segja. Framan á mér, akkúrat þar sem hlírarnir á þessari brók eiga að koma.
Brjóstin mín eru mjög góð, ég er ánægð með þau. Þau hafa þjónað margvíslegum tilgangi gegnum árin, fjölhæf brjóst myndi ég segja. Allir sem hafa komið nálægt þeim hafa lokið upp einróma lof og prís. Þau hafa verið stolt mitt og prýði og hafa ekki orsakað vandræði – fyrr en nú. Nú eru þau FYRIR.
Þetta er hannað fyrir karlmann eða brjóstalausa konu. Brækur fyrir konur þurfa að vera heilar að framan eins og sundbolur. Ég þarf að skrifa þessum Inzer-gæja.

Hversu ótrúlegt sem það kunni að virðast er þetta ekki í fyrsta sinn sem ég upplifi að heimurinn er hannaður fyrir karlmenn, og að konur þurfa að AÐLAGA sig. Mig grunar að aðrar konur hafa svipaðar sögur að segja.
Og hvað geri ég? Ríf ég mig úr brókinni, hendi henni í gólfið, öskra og æði af stað til að skrá mig í femínistafélagið? Nei, ég dreg andann djúpt og reyni að finna leið til að aðlagast heimi karlmannsins.
Ef einhverjir strákar skyldu lesa þetta og vilja fatta hvað ég er að tala um, skulu þeir binda kodda framan á bringuna og reyna svo að fara í brókina. Eða fara í m j ö g þröngan G-streng. Og láta hann snúa öfugt.

Spurning númer þrjú verður sem sagt: HVAÐ Á ÉG AÐ GERA VIÐ BRJÓSTIN?
Þetta er ekki auðvelt mál. Brjóstamínkun er ekki inni í myndinni, ekki strax. Ég ætla að eiga það inni sem síðasta örþrifaráð. Þá er um þrennt að velja.
Ég get þrýst þau saman á milli hlíranna. Þá verður til eitt risabrjóst, “una-breast”. Þetta hljómar eins og sixtís B-mynd: The Woman with The Giant Tit. Hryllingsmynd. Þetta er ekki góð lausn, og ekki hættulaus. Ef ég skyldi slysast til að líta niður í beygjunni, gæti ég fengið slíkt hláturskast að ég gæti misst stjórn á lyftunni og stofnað sjálfri mér og nærstöddum í hættu. Nei, kemur ekki til greina.

Þá má reyna að ýta þeim til hliðar, út fyrir böndin. Þau eru að vísu teygjanleg og til í flest, en þetta verður of erfitt. Þegar ég er orðin sextug og þyngdarkrafturinn hefur fengið að vinna á þeim í tíu ár í viðbót er hugsanlegt að ég nái þessu, en ekki í dag.

Þá er bara einn kostur eftir, að reyna að fletja þau út og láta böndin liggja yfir þeim. Við það myndast þrjú brjóst. Það hljómar eins og Woody Allen mynd: The Triple-Chested Language-Teacher.
Þetta er leiðin sem verður fyrir valinu. Nú er ég þá loksins komin í þetta helvíti og þá vaknar spurning númer fjögur:

ER MEININGIN AÐ MAÐUR EIGI AÐ ANDA Á MEÐAN MAÐUR ER Í ÞESSU?
Þegar ég er komin í brókina, búin að spenna á mig beltið, komin undir stöngina og ætla að fara draga í mig andann – get ég það ekki! Þindin er stuck.
Ég er lungnasterk kona. Ég hef lært söng, ég hef sungið í kórum áratugum saman. Ég veit flest um að stjórna og beita öndun. Ég hef beitt öndun í kóloratúrverkum eftir Bach. Ég hef beitt öndun í fjórum barnsfæðingum. Ég hef beitt öndun í lyftingum með góðum árangri fram að þessu, en nú næ ég ekki andanum. Djísöss.

Ég tek nokkrar beygjur og sé að þetta er eitthvað sem ég þarf að æfa vel og lengi.
Svo kem ég í búningsklefann og skil ekkert í því af hverju stelpurnar stara svona á mig. Fyrr en ég sé marin sem ég strax er komin með út um allt. Æðar hafa sprungið big time. Framan á lærunum eru mar dauðans. Hvernig á ég að útskýra þetta? “Ég labbaði á hurð? Ég datt niður stiga”??

Jæja, þetta var nú bara fyrsta tilraun, mín fyrsta reynsla í brókarmálum. Þetta er vont en það venst. Þetta hlýtur að venjast.

Síðasta og áleitnasta spurningin sækir þó á mig: Er ég masókisti? Hlýtur ekki að vera eitthvað að manneskju sem er að gera þetta sér til skemmtunnar?

One thought on “Brókarsótt

  1. Spurning um að velja sér brók sem ekki er of lítil, það breytir verulega dæminu 😉 Á lýsingunum má glögglega sjá að númeri stærri brók hefði gert gríðarlegan mun fyrir þig.

Leave a Reply