Lyse øyeblikk

Kraftasaga – horft um öxl

Kraftlyftingasamband Íslands er að verða 4 ára.

Fjögur ár er stuttur tími en um leið langur tími. Það fer eftir hvernig á það er litið. Við hvað er miðað.
Ég á fjögurra ára gamla dótturdóttur. Hún minnir í mörgu á KRAFT. Hún hefur tekið stórstígum framförum á fjórum árum. Full af orku með framtíðina fyrir sér. Rétt að byrja að átta sig á eigin styrk og möguleikum. Það er að byrja að renna upp fyrir henni að til eru leikreglur sem hún þarf að fylgja, skyldur sem hún þarf að bera. Rétt að uppgötva að til eru takmarkanir og vonbrigði líka, og ekki alltaf bara gaman.

Ég álpaðist inn í kraftlyftingaheiminn 2004, þegar hið svonefnda „Gamla KRAFT“ var enn við lýði.
Þar mætti ég á minn fyrsta aðalfund 2008 og varð svo fræg að ná að greiða atkvæði með því að leggja all undir til að verða hluti af ÍSÍ. Mín fyrsta handaupprétting í KRAFT var til að samþykkja að leggja niður „gamla“ KRAFT og verða nefnd innan ÍSÍ.
Við þennan gjörning stóðu margir gamlir félagar upp og gengu út.
Eftir varð öflugur og samhentur hópur sem lagðist á árarnar af fullum þunga – og, eins og oft er með slíka menn, án þess að berast á.
Á mettíma var öllum skilyrðum uppfyllt og ÍSÍ stóð við gefna yfirlýsingu og stofnaði Kraftlyftingasamband Íslands 15.apríl 2010.
Aftur var ég viðstödd og menn sýndu mér það traust að kjósa mig í fyrstu stjórn. Pælið í því.
Gerðu svo vel – taktu á þig þessa ábyrgð – byggðu upp eitt stykki sérsamband!
Hjúkk! Hvernig fer maður að því??
Maður vinnur með góðu fólki af einurð og heiðarleika, eitt skref í einu.
stofn

 

 

 

 

Við ákváðum að taka fortíðina með okkur – en byrja samt alveg frá nýjum grunni. Nafnið KRAFT, lénið kraft.is og merkið létum við halda sér. Gömul úrslit voru varðveitt, en öll gömlu met settum við á safn og byrjuðum upp á nýtt. Reglugerðir þurftum við að semja frá grunni og koma í framkvæmd, stundum með óborganlegum viðbrögðum og tilsvörum frá umhverfinu: – Hvaða rugl er þetta? Svona hefur þetta aldrei verið áður! Helvítis reglukjaftæði!
Hægt og sígandi breyttust viðhorfin og viðbrögðin og fram komu nýir keppendur sem þekktu ekki „gömlu góðu dagana“ og tóku nýjum vinnubrögðum sem sjálfsagðan hlut.

Mikilvægt verkefni var, og er, að styrkja og efla sjálfstæði og ábyrgð félaga. Það er ótrúlega stutt síðan menn hættu að hringja í mig á öllum tímum sólahrings til að láta skrá sig á mót án þess að vera í félagi eða fram hjá sínu félagi. (Er það ekki hægt?? Hvaða rugl er þetta? Svona hefur þetta aldrei verið áður! Helvítis reglukjaftæði!)
Sumir spáðu okkur hrakförum í upphafi, töluðu jafnvel þannig að mætti halda að þeir vonuðu að illa færi. Við tókum allan tímann þann pól í hæðina að ansa ekki meinfýsni og leiða hjá okkur skæting. Sumt er einfaldlega ekki svara vert, og við höfðum um nóg annað að hugsa.

Á undanförnum fjórum árum hefur félögunum fjölgað úr 8 í 15, og er KRAFT það sérsamband innan ÍSÍ sem hefur vaxið hvað hraðast.
Skráðir meðlimir hafa fjölgað úr 400 í 1042.
Tekjur hafa aukist úr ISK 1.300.000 í ISK 12.200.000 (áætlun 2014) og hefur KRAFT tekið til sín góðan hluta af afrekssjóði ÍSÍ miðað við stærð.
Fyrir tveimur árum mótaði KRAFT afreksstefnu sem var send til ÍSÍ til skoðunnar. Helsta athugasemdin var að hún þótti víðáttubjartsýn.
Svona hefur raunin orðið fyrstu tvö árin:

Mót

Þáttakendafjöldi

Árangur

2012

Áætlað Raun Áætlað Raun
NM unglinga 2 2 1-2 top 10 6 sæti
NM opinn PL+BP 1 1 1 top 10 1 sæti
EM unglinga 3 3 2 verðlaun 1 verðlaun
HM unglinga 4 2 1 verðlaun 1 verðlaun
EM opin 2 2 1-2 top 10 5+9 sæti
HM opin 2 2 1-2 top 10 8 sæti
14 12

2013

Áætlað Raun Áætlað Raun
NM unglinga 10+ 13 Sigur í 2 flokkum Sigur í 3 flokkum
EM unglinga 5 6 3 verðlaun 5 verðlaun
HM unglinga LB+BP 4 5 2 verðlaun 6 verðlaun
EM opin PL+BP 4 3 1-2 Top 5 3 sæti
HM opin PL+BP+CL 4 4 1-2 top 10 6+10 sæti
27 31

Ég sit ennþá í stjórn og hef fengið að reyna ýmislegt og prófa nýja hluti á þessum fjórum árum: að taka dómarapróf og dæma, að vera mótsstjóri og þula, að sitja í nefnd og stjórn á alþjóðavelli og að taka á erfiðum málum. Því það er ekki alltaf gaman og í stjórn þurfa menn að geta talið upp á 10, jafnvel 20, og tala ábyrgt.
Það ættu reyndar allir að gera – við öll tækifæri. Stóryrði – gífuryrði – blótsyrði og skætingar – uppnefningar og baktal lýsir þeim sem talar, ekki þeim sem talað er um.
Þessi vinna hefur gefið mér dýrmæt tækifæri til aukins þroska; að þurfa að leysa úr siðferðislegum spurningum og taka afdrifaríkar og óvinsælar/umdeildar ákvarðanir er krefjandi en um leið gefandi.

Ég hef alltaf haft tilhneigingu til að verða starsýnt á allt sem óunnið er, öll markmiðin sem ennþá eru utan seilingar, og gleyma sigrum sem hafa verið unnar og markmiðum sem ég hef náð. Á tímamótum getur verið hollt að staldra við og líta aðeins um öxl. Þá blasir við að kraftlyftingaheimurinn í dag er ekki sambærilegur við það sem var fyrir fjórum árum. Það er einfaldlega ekki hægt að líkja því saman. Íþróttin var í fjötrum, og þegar þeim var aflétt leystust úr læðingi kraftar sem hafa áorkað miklu á stuttum tíma. Ef allir halda áfram að standa sig, hver á sínum stað: stjórnendur, keppendur, þjálfarar, dómarar og stuðningsmenn munu KRAFTA-verkin halda áfram að gerast.

Fyrir mig persónulega hafa síðustu 12 mánuðir verið markaðir af þessum hápunktum:

Norðurlandamót unglinga 23.febrúar 2013
2000&eitthvað var ég í Stavanger og tók æfingu með Tone Ingebrigtsen sem þá var forseti norska sambandsins. Við ræddum um skipulagsmál og ég sagðist stefna að því að upplifa þann dag að íslenska sambandið væri aðili að ÍSÍ og maður gæti tekið niður hauspokann á almannafæri.
Tone hvatti mig og sagðist hlakka til þess dags að hægt væri að senda norsk ungmenni í keppni til Íslands.
Sá dagur rann upp 23.febrúar 2013 og var merkisdagur í mínu lífi.
Að standa í Ármannsheimilinu og sjá ungmenni frá öllum Norðurlöndunum og Íslandi streyma í hús – með þjálfurum, liðsstjórum og dómurum á heimsmælikvarða – eins og ekkert væri sjálfsagðara, og horfa um leið 3 ár aftur í tímann og sjá hversu gífurlegt skref hafði verið stigið, setti mig hljóða.
Að boða til tæknifundar í höfuðstöðvum ÍSÍ og fá að óska liðunum velkomna og vera með alla framkvæmd á hreinu og til sóma fyllti mig gleði og stolti.
Að vera ritari á borði mestan hluta dags og ráða við það. Að vera svo vel undirbúin að hægt var að leysa úr öllum málum sem upp komu og geta meira að segja gefið sér tíma til að spjalla við menn og hafa gaman.
Að sjá ungu heimalningana mæta alþjóðadómurum og pluma sig vel, og muna 3 ár aftur í tímann þegar enginn vissi hvað meldingarmiðar voru og spurðu hvort ég héldi að þeir gætu verið með penna á sér á mótsstað og hvort ég væri vangefin eða hvað??
Fyrir mig persónulega var þetta stór dagur, sá dagur sem okkur Tone hafði dreymt um þarna um árið.
nm13

RIG 18.janúar 2014
Í upphafi árs fékk ég að vera mótsstjóri á RÍG/ÍM í bekk og kynnast öllum hliðum á þeirri framkvæmd – og síðast en ekki síst fékk ég að bjóða til landsins fyrirmynd minni og hetju til margra ára. Eins og fyrir golfara að taka á móti Tiger Woods eða boltamann að fá til sín Messi var fyrir mig að taka á móti Inger Blikra, kynna hana og sjá hana setja PB á bekknum á 53.aldursári.

RIG 2014 Íslandmeistaramót í bekkpressu
KRAFTA-verki líkast.

Comments are closed.