Lyse øyeblikk

Hvenær drepur maður mann?

Ég las í einhverju blaði um daginn að finnsk stjórnmálakona væri að fara í mál við kennara vegna þess að hann sýndi nemendum sínum myndband sem mælti gegn fóstureyðingum. Ég hváði.

Nú hef ég ekki séð téð myndband, kannski er það ofbeldiskennt og ljótt og alls ekki við hæfi barna. Ef  svo er get ég svo sem fallist á réttmæti bannsins. En ef hún er að mótmæla vegna innihalds og boðskap efnisins, ef hún vill banna kennaranum að færa rök gegn fóstureyðingum finnst mér það stórtíðindi og ekki góð fyrir lýðræðisríkið Finnland.
Réttmæti fóstureyðinga er og hefur verið umdeilt atriði síðan ég man eftir mér. Þegar ég var í menntaskóla var það vinsælt ritgerðarefni hjá móðurmálskennurum. Það var svo auðvelt að færa rök bæði með og á móti og menn þurftu að opinbera lífssýn sína og mannskilning til að komast að niðurstöðu.
Ég skrifaði ritgerðir bæði með og á móti, og á tímabili vissi ég ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga. En á endanum komst ég að niðurstöðu sem ég hef ekki getað hvikað frá síðan.
Í mínum augum eru fóstureyðingar manndráp. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir get ég ekki logið öðru að sjálfri mér.
Við getnað verður til líf, mannlegt líf sem er einstakt í sögu heimsins, sem vex og dafnar ef við leyfum, ef við drepum það ekki. Öll rök um að þetta verður ekki fullgilt líf fyrr en eftir svo og svo margar vikur og á þess vegna ekki rétt á vernd fyrir þann tíma finnst mér út í hött. Ég get ekki keypt það sjónarmið. Hvernig getur réttur manneskju til lífs breyst algerlega frá einum degi til annars, eða frá einum mánuði til annars?
Ég hef gengið með og fætt fjögur börn. Og ég veit jafnvel og allar mæður, að lífið sem er inni í mér er ekki ég. Það er önnur vera, sem tekur yfir líkama minn, stjórnar líðan minni og nærist á orku minni. Ef ég vil losna við hana þarf ég að drepa hana, eða á kórréttara máli “eyða henni”.
Í dag fara drápin fram í sótthreinsuðum umbúðum spítalanna, en það breytir ekki því að það er ég sem móðir sem fer fram á að fóstrinu sé deytt. Það er mín ábyrgð hvernig sem ég reyni að líta á málið.
Ég get skilið að konur sem hafa orðið ófrískar gegn vilja sínum vilja láta deyda fóstrinu, það get ég auðveldlega skilið. En ég get ekki skilið hvernig þær fara að því að sannfæra sjálfan sig um að þær eru ekki að drepa líf. Það get ég ekki skilið. Þær geta kannski sagst drepa í sjálfsvörn, en hvernig geta þær neitað því að þær eru að drepa?
Það virðist vera kyrr sátt um fóstureyðingalögin í dag hér á landi. Í mörgum löndum hafa þessi lög orsakað míkil átök og gera enn. Sumir halda því fram að lögleiðing fósturdrápa sé nauðsynlegur liður í réttindabarátta kvenna. Getur það verið? Geta konur ekki lifað mannsæmandi og frjálsu lífi öðruvísi en að mega deyða börnin sín? Er það bara ég sem finnst þetta undarleg röksemdafærsla?
Móðir Theresa var þekkt og dáð kona. Hún fékk friðarverðlaun Nóbels 1979 og ég hugsa að flestum hafa fundist hún vel að þeim komin. Hún er titluð Móðir þó hún hafi aldrei alið barn. Hún hafði samt ákveðna skoðun á móðurhlutverkinu. Í þakkarræðu sinni við hið hátíðlega verðlaunaafhendingartækifæri hóf hún mál sitt á þessum orðum: helsta ógn við frið í heiminum í dag eru fóstureyðingar!
Móðir Theresa þekkti neyð heimsins, neyð ungra mæðra, neyð óvelkominna barna. Hún vissi allt um það. Hún hafði hitt og hjálpað fleirum óvelkomnum börnum en allur íslenski þingheimur samanlagður. Henni fannst samt ekki fóstureyðing vera nærtækasti lausn á því vandamáli.
Ef menn taka sjónarmið hennar og annara andstæðinga alvarlega blasir við hörmuleg sjón. Ef menn raunverulega líta svo á að hér sé um manndráp að ræða, verða menn að horfast í augu við þann veruleika að aftökur og útrýmingarherferðir stríðsherra fyrr og nú blikna í samanburði. Kerfisbundin aftaka ósjálfbjarga manneskja í skjóli dóms og laga. Það er hryllileg hugsun.
En sá veruleiki blasir við ef maður tekur þann pól í hæðina að líta á fostureyðing sem morð.
Ef finnskir og annara landa stjórnmálamenn ætla að banna fólki að benda á þetta sjónarmið, hringja viðvörunnarbjöllur í mínum eyrum.
Kannski mun almenningsskilningur á þessum málum breytast með árunum. Kannski mun mannkynið sjá sér um hönd. Kannski munu menn horfa tilbaka í sögunni og spyrja sig: hvernig gátu annars vel hugsandi fólk horft fram hjá þessu og látið þennan horror viðgangast?

Comments are closed.