Ég gekk inn á líkamsræktarstöð i fyrsta sinn í janúar 1998. Það var þar sem þá var og hét Aerobic Sport í Faxafeni. Maðurinn minn hafði gefið mér 3 mánaða einkaþjálfun í jólagjöf – að gefnu tilefni. Ég var í algerri niðurníðslu bæði líkamlega og andlega eftir áratuga vanrækslu. Ég var allt of þung og í slæmu formi. Ég var ein af þeim sem var búin að segja í 10 ár: Nú verð ég að fara að gera eitthvað í þessu!! Ég byrjaði að æfa af sömu ástæðu og sjálfsagt flestar aðrar rúmlega fertugar fjögurra barna mæður; til að léttast og líta betur út.
Eftir nokkurra mánaða æfingar uppgötvaði ég, mér til míkillar furðu, að ég hafði bæði gaman af og hæfileika í að lyfta. Svörun líkamans við styrktarþjálfun var óvenjulega góð, og ég hafði verulega gaman af því. Ég lagði á mig hlaup og brennslu af illri nauðsyn, en hlakkaði alltaf til að komast í lóðin. Og ég hafði óbeit á 3×16 endurtekningum með pínulóðum. Ég vildi lyfta þungt, lyfta meira og meira, meir í dag en í gær.
Á stöðinni voru tveir lóðarekkar. Einn með málmlituðum litlum handlóðum fra 1 og upp í 12-15 kíló. Einn með stórum svörtum lóðum frá 12 kíló og uppúr. Fólkið skiptist nokkuð jafnt, stelpurnar í litlu lóðunum, strákarnir í stóru lóðunum. Það leið ekki á löngu áður en ég var farin að gjóa augunum yfir í “strákadeildina”. Það væri nú gaman að prufa að lyfta einhverju af þessu … Á endanum kom að því, fyrst í bekkpressu með handlóðum, 12 kíló í hvorri hendi! Hrikalega var það nú þungt! Hvað var ég að vilja upp á dekk??
Það voru ekki margar stelpur að fást við þyngri lóð en 12-14 kíló og mér fannst horft á mig þegar ég stundi og roðnaði og blánaði í átökunum. Ég kvartaði einu sinni við þjálfarann og sagði að mér fyndist ég frekar ókvenleg miðað við megabeibin hinumegin í salnum. “Só ..?” svaraði hann og sagðist skyldi koma með bleikar slaufur í næsta tíma til að skreyta lóðunum með, if that will make you feel better. Ég afþakkaði hlæjandi og hafði ekki frekari áhyggjur af kvenímyndinni upp frá því. Ég æfði með Raul, bandariskum þjálfara. Hann skildi fljótt að ég kunni ekki að meta neitt dúll og elsku mamma, og rak mig áfram harðri hendi. Mér leiddist að heyra hvað ég væri dugleg og frábær, en þegar hann sagði mér að ég væri aumingi og amma sín gæti lyft þessu með bundið fyrir aftan bak, æstist ég öll upp og vildi frekar líða útaf en að biðjast vægðar.
Eftir árið varð ég að viðurkenna að ég var orðin húkt á lóðunum. Það rann endanlega upp fyrir mér í fyrsta tímanum eftir jólafríið í lok ársins. Ég hitti konu sem var vön að æfa á sama tíma og ég, og við tókum tal saman. Hún spurði mig hvort ég væri komin aftur í sömu þyngd og fyrir jólafríið. Já, sagði ég. Ég hef ekki misst mikið niður og er komin upp í sömu þyngdir og ég var í áður en ég fór í frí. Hún horði spyrjandi á mig, og þá rann upp fyrir mér að hún hafði verið að spyrja um LÍKAMSÞYNGD. Hún vildi vita hvor ég hafði losað mig við jólakílóunum. Ég hafði ekki pælt í því, ég var bara að hugsa um þyngdina á stönginni. Ég vildi bæta á mig eins mörgum kílóum og ég gæti.
Ég var ekki að æfa styrk sérstaklega á þessum tíma, heldur var ég í alhliða æfingum með mikilli brennslu og 12-15 endurtekningum í lyftunum. Ég prófaði ymislegt, body pump, spinning, pallapuð, german volume training og hlaupaprógam Grethe Waitz og komst á endanum í besta alhliða form sem ég hef verið í. Ég hætti í einkaþjálfun og æfði áfram sjálf, en fannst það frekar leiðinlegt. Á endanum fékk ég mér annan þjálfara og hef æft með Jónsa síðan, fyrst í Planet Sport og svo í World Class. Þar erum við enn, eða í Laugum eins og það víst heitir í dag.
Stuttu eftir að ég byrjaði hjá Jónsa ákvað ég að koma út úr skápnum með lyftingunum og æfa eingöngu styrk í tímunum. Þolþjálfun stunda ég á eigin spýtur, t.d. í göngutúrum með hundinum. En styrktarþjálfun vil ég gera í fylgd með fullorðum, bæði til að forðast röngu formi og meiðslum og til að geta lyft max þyngdir áhyggjulaust. Og svo er líka gaman að hafa einhvern til að tala við um daginn og veginn, ekki síst ef það er myndarlegur strákur… J
Nú byrjaði ég að æfa af krafti. Hin mikla og hraða styrktaraukning fyrstu áranna var liðin. Þá gat ég stundum bætt 5 – 10 kíló á stöngina milli vikna! Nú varð ég að hafa mikið fyrir hverju kílói. Ojbara. Ég var lengi að æfa fyrir 70 kíló í bekknum, ég hélt ég myndi aldrei ná því. En þegar ég svo á endanum náði því, fannst mér það alger lágmarksþyngd og ekkert varið í minna en 75 kíló! Mér finnst þetta stundum vera galli. Þyngd sem ég hef lyft einu sinni finnst mér ég ætti að fara létt með upp frá því, í hverri einustu tilraun. Næsta þyngd fyrir ofan er það eina sem skiptir máli. Með þessum hætti er ég vissulega alltaf metnaðarfull í æfingum, en aldrei ánægð!
Ég hef bætt mig mikið í tækni undanfarið ár, sérstaklega í bekknum. Ég er ekki viss um að styrktaraukningin sé svo mikil. Nú snýst málið um að ná út úr mér þeim styrk sem ég er komin með. Ég get ennþá bætt mig mikið í tækni og síðast en ekki síst í hausnum. Sjálfsöryggið og þorið þarf að vera til staðar. Ég hef stundum hugsað að það væri hollt fyrir mig að æfa teygjustökk sem liður í lyftingarprógramminu. Til að þjálfa mig í að láta vaða …
Nú er ég búin að taka þátt í einu móti, Íslandsmót öldunga 2004. Ég var eina konan á mótinu og hafði þess vegna auðveldan sigur J Það var skemmtileg reynsla, og ég var mjög ánægð með sjálfa mig að hafa yfirhöfuð tekið þátt.
Markmið nr. 1 var að vera með, nr. 2 að klára mótið, nr. 3 að ná lágmarki fyrir Íslandsmót. Allt þar fyrir ofan væri eiginlega bónus. Ég lyfti 110 – 70 – 130 = 310. Ég náði s.s. settum markmiðum og var ánægð með það. En eins og venjulega var ég ekki ánægð með lyftunum. Sérstaklega fannst mér réttstaðan léleg. Mér mistekst ekki með 140 kg á æfingu, en klikkaði á mótinu. En svona er lífið, maður gerir bara betur næst. Það var mjög gagnlegt að vera með, m.a. hljóp aukið kapp í æfingarnar. Ég ætla þess vegna að halda áfram að vera með á mótum. Ekki til að öðlast frægð og frama heldur til að halda mig við efnið á æfingum og auðvitað með það fyrir augum að bæta mig. Ég ætla ekki að láta 310 kg standa sem besta árangur! Ojbara.
Ég get sagt, alveg án þess að ljúga, að ég hef hlakkað til hverrar einustu æfingar sem ég hef farið á. Ég hef ALDREI hugsað: ó nei, ég nenni þessu ekki í dag, ég fer bara á morgunn. ALDREI. Ég hlakka alltaf til að fara. Ég fer reyndar stundum með blendnum huga, t.d. ef ég er að fara í þunga hnébeygjuæfingu. Ég hlakka til, en kvíð líka fyrir því sem ég veit er framundan. En aldrei þannig að það hvarfli að mér að hætta við eða fresta. Það hefur aldrei komið fyrir.
Svo er maður alltaf stífur og aumur einhversstaðar. Það er sjálfsagt ekki hollt, en ég verð áhyggjufull ef ég finn hvergi til. Það hlýtur að þýða að ég hafi ekki tekið almennilega á því! En þetta eru bara eymsl í vöðvum og jafnar sig fljótt. Ég hef sloppið mjög vel við alvöru meiðsl og skaða, sennilega vegna þess að ég hef haft góðan mann með mér. Það eina sem ég hef lent í var þrálátur tennisolnbogi sem plagaði mig í hátt á annað ár. Ég þurfti að breyta æfingunum til að losna við hann, og hef t.d. ekki getað tekið biceps-curls eftir það. Ég þarf líka að passa hægri öxlina mjög vel. Ótrúlegt þó, hvað þessi gamli skrokkur getur tekið. Fleiri, fleiri tonn á æfingu, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuði eftir mánuði, ár eftir ár ..
Ég ætla að halda áfram að lyfta á meðan ég lifi. Æfingarnar tryggja mína líkamlega og andlega heilsu og er beinagrindin í mínu daglegu lífi. Æfingarnar skapa festu og reglu í mataræði, hvíld, tímaskipulag osfrv. Forgangsröðunin er önnur í dag en fyrir 5 árum.
Ég hef þjálfast í ýmsu sem hefur komið að góðum notum á öðrum sviðum lífsins. Það að geta fókuserað, t.d. Að klára lyftu er mjög afmarkað og einfalt verkefni: þarna er stöngin, hér ert þú, farðu að verkefninu, hugsaðu bara um það, einbeittu þig og kláraðu dæmið, auminginn þinn! Ekki mikla það fyrir þér, einbeittu þig AND JUST DO IT!
Þetta er hollt viðhorf í vinnunni líka. Verkefni sem ég kvið fyrir, mikla fyrir mér, vil helst fresta osfrv. verður miklu viðráðanlegra ef ég beiti sömu aðferðum: þarna er verkefnið, hér ert þú, gakktu í verkið, einbeittu þér að því og KLÁRAÐU DÆMIÐ. Einbeittu þér og gerðu þitt besta. Nú, ef það klikkar – þá klikkar það. Þá hefur þú markmið að vinna að, alltaf að leitast við að bæta sig.
Það er líka hollt fyrir sjálfstraustið að finna að maður tekur framförum. Í lyftingum er árangurinn svo auðmælanlegur. Maður getur heldur ekki platað sjálfan sig svo glatt, annaðhvort tekur maður lyftuna eða ekki, og maður kjaftar sig ekki út úr því. Ég veit um konur sem hafa eytt peningum og tíma á sjálfsstyrkingarnámskeiðum. Ekki nema gott eitt um það að segja, en ég hugsa að þær hefðu grætt jafnmikið á því að hefja markvissa styrktarþjálfun.
Líkamlegur ávinningur er augljós. Maður styrkist, lítur betur út, borðar betur, sefur betur, kemst í betri tengls við líkama sinn, lærir að þekkja hann og virða. Aukinn styrkur gerir öll dagsverk auðveldari, maður verður síður þreyttur og hefur styrk og þekkingu til að beita líkamanum rétt og forðast þannig vöðvabólgur og slit.
Alvöru átök veita gríðarlega útrás og losar efni í líkamanum sem gefur kröftugt kikk. Ég æfi f.h. og almennileg beygjuæfing endist mér fram undir kvöldmat. Þá fyrst fer að “renna af mér.” Ég held að það hafi verið Jón Páll heitinn sem sagði eitthvað á þá leið að dagur án góðrar réttstöðulyftu væri ónýtur dagur. Þó að ég sé bara óbreyttur “hobbílyftari” hef ég lyft nóg til að skilja hvað hann var að meina. Góð réttstöðulyfta er nautn.
Ég hélt einu sinni að kraflyftingar væri bara fyrir stráka, og helst bara fyrir heimska stráka sem höfðu vöðva milli eyrnanna og orðaforða á við meðal górillu. Í dag skammast ég mín fyrir þetta menningarsnobbs-viðhorf sem byggði á fordómum og núll þekkingu.
Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði var hvað þetta er míkil andleg íþrótt. Það hafði mér aldrei dottið í hug. Einbeiting, vilji, kjarkur, ákveðni, úthald, trú og jafnvel auðmýkt eru grundvallaratriði ekki síður en vöðvastyrkur. Þetta er sigur andans á holdinu í sinni hreinustu mynd.
Kraftlyftingar eru fyrir hvern sem er, kannski fyrst og fremst fyrir konur sem er “veikara kynið” frá náttúrunnar hendi og þess vegna þurfa sérstaklega á styrktarþjálfun að halda. Og fyrir konur á mínum aldri er þetta alveg kjörið sport. Vöðvarýrnun, beinþynning og blóðfitustig eru vandamál sem ég hef engar áhyggjur af. Með æfingum og auknum vöðvamassa eykst fitubrennslan um allan helming á meðan ég stunda æfingar mínar standandi kyrr – eða jafnvel liggjandi á bakinu. Síðan ég byrjaði að æfa hef ég bætt á mig vöðvamassa sem brennir jafnmargar kalóríur á sólahring og þarf til að skokka í klukkutíma. Góðar fréttir fyrir konu sem hatar að skokka, ég get sparað mig klukkutíma skokk á dag. (Ég skokka samt reglulega, sjálfspíningarhvötin lætur ekki að sér hæða)
Konur sem vilja grenna sig og líta vel út ættu að vera duglegar að lyfta. Ekki endilega eins og kraftlyftingarkonur, en af alvöru. Hætta að dunda sér i 20 endurtekningum með pínulóðum sem ættu helst heima í dótakassanum í leikskólanum og fara að bjóða líkamanum sínum upp á eitthvað bitastæðara. Til hvers að hafa alla þessa heilbrigðu vöðva ef þeir fá aldrei að vinna? Það ætti að halda styrktarþjálfun miklu ákveðnara að konum, og líkamsræktarstöðvar sem að miklu leyti gera út á konur mættu standa sig betur í því. Ef fleiri stelpur færu að taka á því myndi líka fjölga konum í kraftlyftingum, það er ég viss um. Ein af hverjum 100 mundi fá sama opinberun og ég gerði:
þetta er það sem þessi líkami er skapaður til að gera.
Af hverju byrjaði ég ekki á þessu fyrir löngu síðan?
Hin mikla líkamlega nautn og andlega sjálfsstyrking í lyftingunum ættu ekki að vera fyrir strákana eingöngu.
Amen.