Lyse øyeblikk

Æfing fyrir stelpurnar.

Hvað á langþreyttur kennari í verkfalli sossum að gera? Ég ákvað að skella mér til Noregs. Reyndar átti ég erindi þangað, erfitt persónulegt erindi. Þetta var engin skemmtiferð. Ég tók með mér fulla tösku af lyftingargræjum til að búa mér til mótvægi við andlegu átökin.

Ég var að vona að ég gæti hitt Heidi og tekið nokkrar æfingar með henni. En þá svarar hún ekki tölvupósti, er komin í nýja vinnu og gemsanum hennar hefur verið stolið. Hvernig næ ég sambandi við hana?

Hún ætlaði að æfa í Askøyhallen. Ég þangað til að athuga málin. Þar er lyftingarherbergið harðlæst með talnalás og risaplakat fyrir utan listar upp allar reglurnar um notkun og öll skilyrði um hver megi og megi ekki æfa þar. Til að fá lyklakort þarf að hitta á nefndar-formanninn sem er við í salnum á föstudögum milli 18.30 – 19.30. Ég meina það! Það er ekki verið að gera þetta aðgengilegt fyrir mann.

Ég nennti ekki að pæla meir í því og dreif mig í Puls í Strusshamn í staðinn. Þar var lítið skot með lóðum á bak við glervegg. Það var eins og að vera í fiskabúri. Þar var ein lögleg stöng og akkúrat lóð til að fylla upp í þyngdina sem mig vantaði í deddinu. Svolítið sérstakt að vera búin að klára lóðunum á staðnum! Ungur strákur úr afgreiðslunni kom til að horfa á mig stórum augum.

Allt í einu kemur maður til mín og spyr hvort ég heiti Gry. Jú … Þá er þetta maðurinn hennar Heidi að leggja saman 2+2 þegar hann sér mig. Heimurinn er lítill.  Ég fæ símann hennar og næ sambandi en við náum ekki æfingu saman.

En taktu lyklakortið mitt í Haukelandshallen og drífðu þig þangað á morgunn. Það er alltaf æfing hjá stelpunum á fimmtudögum.

Ha! ………. Hvað? …………… Come again ……………… Stelpunum? Alltaf? Æfing? Á fimmtudögum? Alltaf æfing hjá STELPUNUM á fimmtudögum?

Jú, það passar. Stelpurnar sem æfa kraftlyftingar í Haukelandshallen reyna að hittast og taka á því saman á fimmtudögum.

Þetta verð ég að sjá.

Ég fæ lánað kortið hjá Heidi og bílinn hjá pabba. Það er ekki auðvelt að keyra í Bergen. Ætli það sé ekki reynandi á beygja út af í Damsgaardtunnelen og vita hvort ég rambi ekki á Danmarksplass. Jú, það gengur eftir og fljótlega fer ég að kannast við mig.

Guð þarna er hann blessaður á sínum stað, Haukelandshallen. Þar sem maður gerði garðinn frægan fyrir löngu. Margfrægan fyrir margt löngu. Margar helgar fóru í handboltann þarna í denn. Ég fæ algert flashback og gömul vináttubönd og gamla sjensa rifjast upp fyrir mér. Ég kíki inn í höllina. Allir vellirnir eru í notkun. Stelpur í handbolta út um allt, á sama aldri og ég var þegar ég kom hingað síðast. Rosalega hef ég nú átt margar góðar stundir á minni ævi. Þetta voru meiriháttar ferðalög í gamla daga. Fyrst í rútu, svo í ferju, svo ganga gegnum bæinn með æfingatösku og boltapoka og svo strætó. Maður þurfti að koma nestaður fyrir heilan dag. Nú fer ég þetta á korteri yfir brú og gegnum fjöll.

Jæja, hvar er svo þetta lyftingarherbergi? Kemur ekki brosandi stúlka á móti mér og spyr hvort ég heiti Gry. Þar er komin Linda landsliðskona á besta aldri að taka á móti mér. Við förum inn í lyftingarsalinn. Þvílík dýrð. Salur með bekkjum í röðum. Fleiri fleiri beygjustatíf og lóð í öllum stærðum og regnbogans litum – rétt röðuð og aðgengileg. Frábært.

Og stelpur í meirihluta. Nokkrir strákar bisa við að lyfta útí horni, en halda sér skynsamlega til hlés.

Linda er að æfa sig upp fyrir Evrópumótið í nóvember. Við leggjum undir okkur réttstöðupallinn og lyftum til skiptis. Hún er reyndar 15 kílóum léttari en ég og deddar af upphækkun, en mér er alveg sama. Þetta er gaman. Þú ert mikið sterk í bakinu, þú notar lappirnar sama og ekkert. Nú? Já, prófaðu að setjast meira í upphafi lyftu. Svona? Já, jafnvel enn neðar. Erfitt að kenna gömlum hundigamall/i tík að setjast. Ég verð að pæla í þessu betur.

Við lyftum og kjöftum og Linda hefur auga með nýrri stelpu sem er að æfa hnébeygju. Við ræðum stangastöðu og ég segi frá tilraunum mínum til að færa stöngina neðar á bakinu. Af hverju ertu að því, spyr hún. Nú, mér var ráðlagt að gera það. Hver ráðlagði það, það hlýtur að hafa verið stór og bólstraður karlmaður. Jú, reyndar .. Jæja, þú finnur sjálf hvar þú ert sterkust. Ég er með stöngina mjög ofarlega segir hún, bakið er svo mjótt.

Ég ákveð að taka þungan bekk líka fyrst ég hef svo góða aðstoð. Þegar ég dreg upp bekkpressusloppinn minn reynir hún árangurslaust að halda niðri í sér hláturinn. Á hvaða fornsölu fékkstu þessa? kemur svo upp úr henni. Sjáiðið stelpur, hahaha. Þú segir það, ég ætti kannski að fá mér nýjan slopp?? Engin spurning. Í dag notum við allar Fury. Þú getur saumað ungbarnaföt úr þessu, efnið er svo mjúkt og þægilegt … Láttu allavega þrengja hann um helming, sjáðu. Þær snúa sloppnum við og spá og spekúlera í hvar eru mestar húðleifar og hvar ég þarf helst að þrengja. Hvað, eru þetta skraddarar líka?

Þetta er skemmtileg reynsla og lærdómsrík. Þú mætir svo á norska meistaramótið næst, ekki satt?

Af brókarsóttinni er það að frétta að hún er heldur í rénun. Á æfingu númer 2 fór ég aðeins rólegar í sakirnar, fór í brókina hlíralausa, setti á mig beltið og beygði 2x2x112,5 óvafin. Þar sem ég á ekki nema 115 best fyrir finnst mér það alveg skítsæmilegt. Ég eygi glætu.

Comments are closed.