Lyse øyeblikk

Ferð með fjórum fræknum

Ég er ekki vanur fararstjóri en tók að mér að fylgja íslensku kraftlyftingaliði til Brumunddal í júni sl.

Brumunddal er lítill bær, þekktastur fyrir að vera elstur af bræðrunum Gaus, Roms og Brumund Dahl – fyrir þá sem hafa séð þættina um þá Dahl-bræður.
Lítill bær, en með mjög þróaða hársnyrtimenningu. Ég hef hvergi séð jafnháa tíðni hárgreiðslustofa. Á hverju horni var klipping í boði!
En við vorum í öðrum erindagjörðum.

Fjórum íslenskum drengjum var boðið að keppa á norsku unglingamóti skipulagt af Brumunddal atletklubb.
Við Linda höfðum rætt möguleikana á samvinnu milli landanna þegar við hittumst á Norðurlandamótinu í Bergen og hún setti Marie Tjosevik í málið. Áður en varði var ég komin með höfðinglegt boð í hendurnar um að senda fjóra íslenska keppendur á mótið í júni. Frekar skammur fyrirvari og ekki beint í tengslum við íslenska mótaskrá, en tilboð sem var of gott til að hafna. Eins og don Corleone hefði orðað það.

Ég hafði samband við Massa. Þeir eru lengst komnir í markvissu starfi með unglingum og eina félagið með bolmagn til að senda menn til útlanda fyrirvaralaust. Þeir létu ekki bjóða sér tvisvar. Sturla valdi fjóra metnaðarfulla drengi og setti upp æfingarplan. Foreldrafundur var haldinn, miðar keyptir og mér boðið að koma með. Sem ég þáði – en ekki hvað!

Þrátt fyrir tafir í flug- og lestarsamgöngum komumst við síðdegis á fimmtudegi til Brumunddal; hinir fjórir fræknu; Daði, Davíð, Ellert og Steinar, Stulli, Gulla og ég. Til stóð að hýsa okkur á Mjøsa ferie- og fritidssenter sem gortaði af strandlegu sinni. Vatnstaðan í Mjøsa var reyndar búin að vera töluvert í fréttunum, míkil flóð ofar í dalnum og vatnið á leiðinni til okkar. Ég hafði illan grun, en sem betur fer var allt á þurru og hreinu. Við fengum þrjú einföld en ágæt herbergi til afnota. Miklu frjálslegra að búa þannig en á leiðinlegum hótelherbergjum. Gulla var einróma útnefnd matráðskona. Ég lagði einn bacon-og-egg morgunverð til málanna – það var nú allt og sumt.

Aðalhöfuðverkurinn reyndist vera samgöngurnar. Leiðin úr miðbænum sem virtist hverfandi stutt á kortinu reyndist löng í raun. Við kynntumst fyrir vikið leigubílstjórum staðarins nokkuð vel. Eftirá að hyggja hefði jafnvel borgað sig að taka bílaleigubíl.

Við höfðum mælt okkur mót vil Lars Samnøy, þjálfara norska unglingalandsliðsins sem vildi bjóða upp á fræðslu og tækniæfingu með liðinu. Hann hafði nýstaðið fyrir besta norska árangur allra tíma á unglinga-EM og hafði væntanlega margt að miðla.

Ég hafði mjög óljósa hugmynd um hvert við vorum að fara. Í kjallaranum á „A-eitthvað-textíl í Nygata“. Leigubílstjórinn stoppaði fyrir utan eitthvað sem nefndi sig Alternativ helse & velvære AS. ??? Hljómaði ekki sannfærandi. En með því að standa grafkyrr og hlusta gat ég greint hljóðið. Kunnuglegt hljóð. Við gengum á það niður tröppur og inn um dyr – og fundum staðinn.
Lars og Jørgen tóku á móti okkur með brosi á vör í rauðum peysum sem bókstaflega öskruðu á okkur: PLAY FAIR – PLAY CLEAN – PLAY TRUE. Enginn skyldi efast um leikreglur á þessum stað.

Fundur var haldinn í fundarherberginu sem var á stærð við góðan kústaskáp. Svo tóku við tækniæfingar í beygju, bekk og deddi. Lars lagði ofuráherslu á smáatriði og hvernig strákarnir gætu best leiðrétt og aðstoðað hvern annan. Fjórmenningarnir hlustuðu í óvenjulegri auðmýkt og virtust nánast óttaslegnir. Kannski sló það þá út af laginu að Carl Yngar var að hita upp við hliðina á þeim. En þeir hlustuðu af áhuga og skiptust á skoðunum þegar þeir fengu málið aftur yfir kvöldmatnum. Við fórum snemma í háttinn.
Ég sofnaði út frá hljóðbókinni minni, ævisögu Keith Richards lesin af Johnny Depp. Og dreymdi litríka drauma.

17.júní rann upp með ekta íslensku þjóðhátíðarveðri. Ausandi rigningu. Eftir staðgóðan morgunverð (bacon, egg, pönnukökur og hlynsíróp) leigubíluðum við í bæinn. Veðrið dró úr okkur að leggja land undir fót til Lillehammer/Hamar. Strákarnir höfðu fundið go-cart braut og þangað fórum við í skemmtunaleit. Ég tók að mér að túlka og þýða leiðbeiningar og skilyrði. Ég hváði yfir reglunni um 500 króna sekt fyrir að gubba í hjálminn! En strákarnir létu mínar aðvaranir sem vind um eyru þjóta og versluðu go-cart fyrir allan gjaldeyrinn. Gulla hafði vit fyrir Stulla og stoppaði hann af áður en keppnisskapið gerði út af við hann. Ellert sigraði. Deginum bjargað

Við komum við í æfingarsalnum. Þar voru menn að forfæra á fullu og fylla gáma sem áttu að fara á mótsstað. Við náðum að stöðva keppnisvigtina sem var komin ofan í kassa þannig að Daði gat komist að því að hann vó nákvæmlega 66,0 kg. Nettó. „Losaðu þig við kókið á stundinni“, sagði Stulli.
Næsti viðkomustaður var Rema1000 til að versla í hátíðarmatinn. Enginn bjórsala eftir kl. 20.00 sögðu reglur. Verandi norðmaður rann mér blóðið til skyldunnar að verja hefðir heimamanna, en þessa reglu átti ég erfitt með að rökstyðja.

Þjóðhátíðarveislan fór fram á pallinum. Stulli grillaði borgara með alls konar meðlæti. Daði hafði verið settur í aðhald og horfði löngunaraugum til félaganna sem gerðu úttekt á framleiðslu aðalatvinnuveitanda staðarins, Maarud.
Ég ákvað að hringja í Simen og biðja um auka aðstoðarmann á motinu. „Ekkert mál,“ sagði hann. Það voru yfirleitt viðbrögðin sem ég fékk hjá brumunddælingunum – „ekkert mál“. Hann útvegaði okkur aðstoðarmann af reyndari taginu; Kjell Egil Bakkelund. Hann bjargaði málunum, sérstaklega þegar átti að þröngva hinum bústna Daða inn í bekkpressubolinn.

Við vorum mætt á slaginu 9.00 í vigtun. Fyrsti maður sem ég geng á er enginn annar en Freyr Aðalsteinsson, allstaðar rekst maður á hann! Hann var mættur fyrir Stavangerliðinu og var m.a. með tvo aðra íslendinga, þá Gunnstein og Halldór Arnarsyni. Ég náði líka að heilsa Loyd og óska þeim Hildeborg til hamingju með drenginn. Í liðinu var ung stelpa heitandi því kröftuga eftirnafni Hugdal.

Með vantrú horfðu strákarnir upp á að nærbuxurnar þeirra voru dæmdar úr leik. Þær hlutu ekki náð fyrir augum tæknidómarans við skoðun keppnisbúnaðar. Nú voru góð ráð dýr.
Liðsstjórinn til þjónustu reiðubúin fór í bæinn og verslaði nærbuxur á heilt drengjalið. Margt er verkefnið.

Mótið hófst stundvíslega að norskum sið og gékk hratt og vel fyrir sig undir færri stjórn Ove og Nils-Petter. Nils-Petter reyndist hafa keppt við Skúla Óskarsson í Reykjavík back in the days.
Stulli hafði stjórn á strákunum, Gulla ljósmyndaði allt og alla. Ég hljóp til og frá með meldingarmiða í von um að ruglast ekki á nöfnum og láta að öðru leyti lítið fyrir mér fara.

Daði var í fyrsta holli. Hann gerði ógilt í fyrstu lyftu og kom tilbaka svolítið fölur. En næsta lyfta hitti í mark og þaðan í frá gekk allt eins og til stóð. Allir strákarnir bættu sig verulega og áttu góðar tilraunir við enn frekari bætingar. Þeir lyftu vel, bættu á sig íslensk unglingamet í stórum stíl og fengu verðlaunapeninga og viðurkenningarskjöl áranginum til staðfestingar.

Þeir aðstoðuðu hver annan og studdu, erfitt að trúa að þeir hefðu tæplega þekkst áður en að þessari ferð kom. Þetta eru drengir sem eiga heilt ár eftir í drengjaflokki og geta grætt míkið á að halda áfram að æfa saman.
Dagurinn var langur og við sáum margar góðar lyftur. Ég endurnýjaði gömul kynni og stofnaði til nýrra með míkilli ánægju. Ég tók stolt við viðurkenningarorðum frá mörgum vegna framístöðu drengjanna og almennt góðra frétta af þróun kraftlyftingamála á Íslandi.

Strákarnir höfðu skoðanir á öllu og létu þær í ljós. Sú eina sem gerði þá kjaftstopp var Tutta Hansen. Að þessi písl var sú sem rústaði hið nýafstaðna Evrópumót unglinga var erfitt að fatta.

Að móti loknu flutti einka-leigubílstjórinn okkur á pízzastað til að éta. Maturinn hvarf ofan í liðið á slíkum hraða að maður gæti haldið að hér færu 17-ára gamlir kraftlyftingamenn nýbúnir að lyfta. Stulli komst loksins í bjórinn og ég lét eftir mér rauðvínsglas í tilefni dagsins. Allir voru glaðir, en enginn tók undir mína skýringu um að nærbuxurnar höfðu gert gæfumuninn.

Þá var bara eitt vandamál óleyst. Strákarnir höfðu meðferðis smá kveðju til mótshaldara. Við höfðum beðið eftir tækifæri til að afhenda það í lok móts,en tækifærið gafst aldrei. Nú sátu þeir uppi með gjöfina óafhenta.
Nokkur símtöl fræddu okkur um að Carl Yngar væri að borða á Rozarin. Míkið rétt. Þar sat hann og átti sér einskis ills von þegar við þrömmuðum inn með Daða í broddi fylkingar. Hann afhenti gjöfina með viðhöfn og fulltrúi heimamanna lofaði að koma þessu fyrir á áberandi stað í æfingarsalnum.

Fyrir utan tók Gulla síðustu mynd ferðarinnar. Af auglýsingaskilti við Shell-stöðina. Mynd af norsku bensínverði.
Ánægð settum við stefnuna heim á leið. Góða veðrið kom þegar við vorum að fara.

Mín einu vonbrigði voru að ég skyldi ekki hitta félaga úr Odin. Bergensfélögin voru fjarri góðu gamni.

Comments are closed.