Lyse øyeblikk

Orgeltónleikar

Eitt af því sem ég er virkilega þakklát fyrir í þessu lífi er að hafa lært að njóta góðrar listar. Bókmennta, leiklistar, tónlistar, myndlistar. Það hefur auðgað líf mitt no end.
Hver þarf að fara í heimsreisu til að upplifa stórkostlega hluti og öðlast lífsreynslu þegar maður getur skroppið í Langholtskirkju eina kvöldstund og gert það?

Ég er reyndar alls ekki nógu dugleg við að sækja tónleika. En í þetta skipti hafði ég margfalda ástæðu til að fara. Í fysta lagi voru þetta orgeltónleikar, en mér finnst orgelið meiriháttar. Í öðru lagi var dagskráin mjög forvitnileg. Og í þriðja lagi var listamaðurinn Guðný Einarsdóttir. Ekki bara er hún í fjölskyldunni, heldur er ég líka óvart orðin fulltrúi vinnuveitenda hennar í Fella- og Hólakirkju. Sem sagt, ég fór og sé ekki eftir því.

Dagskráin hófst stundvíslega á Annum per annum eftir Arvo Pärt. Ég er fordómafull og hef alltaf verið á þeirri skoðun að maður sem heitir Arvo Pärt geti ekki skapað fallega tónlist. Ég hef ekki heyrt mörg verk eftir hann, aðallega kórverk þó, og þau hafa öll afsannað þessa kenningu mína. Samt var ég vantrúuð í upphafi. En, viti menn, enn og aftur tókst Arvo Pärt að vinna mig á sitt band. Þetta var virkilega gegnsætt og aðgengilegt verk eins og sagði í prógramminu. Svo mjög að þegar A kaflinn var búinn hugsaði ég með sjálfri mér: hvað, ætlar hann ekki að segja AMEN, karlinn?? Og … hvað gerðist? Arvo Pärt kom með nákvæmlega það amen sem ég hafði beðið eftir! Minn maður!

Dagskráin var blanda af gömlu og nýju og í eins konar time-warp flengdumst við aftur um aldir og fengum sálmaforleik eftir Böhm. Mjög skreyttur og dúllulegur.

Svo kom verk sem var mjög áhrifamíkið en erfitt fyrir mig að skilja. Ég á greinilega margt ólært í fræðunum. Gloría úr Messu fyrir klaustrin eftir Couperin. OG Gloría úr Messe du 6éme Ton eftir du Mont.
Que??
Var þetta eftir Couperin? Eða var það eftir du Mont?
Voru kannski orgelkaflarnir eftir Couperin? Byggðir á sönglínunum eftir du Mont?
Ég verða að biðja organistann að skýra þetta fyrir mér. Hvað sem því liður var verkið mjög áhrifamíkið og munkarnir miðaldalegir með Kristján Val í fararbroddi. Eins og klipptir út úr da Vinci code.
Orgelpípurnar léku aðalhlutverki með alls konar raddsamsetningum.

Svo back to the future í einum grænum. Auf meinen lieben Gott eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Ég á stundum svolítið erfitt með hann verð ég að viðurkenna, en þar sem hann sat nú sjálfur á bekknum fyrir aftan mig og verkið var tileinkað norskum organista fannst mér ég þurfa að leggja mig alla fram. Ég náði ekki sálmalaginu og ég náði ekki heildinni, en ég fann marga fallega kafla í verkinu sem ég gat notið.

Tónleikarnir enduðu eins og allir góðir orgeltónleikar eiginlega þurfa að gera, á verki eftir Bach. Passacaglia i c-moll no less.
Það er náttúrulega bara svo cool. Þessi bassalína gæti ekki AC/DC gert betur.

Guðný spilaði eins og sú sem valdið hefur. Hún er þeim hæfileika búin að auk þess að vera 100% alvarlegur listamaður með öll sín smáatriði á hreinu hefur hún sjarma sem hún er óhrædd við að nota. Að geta verið bæði upphafin og nálæg í einu er góður eiginleiki hjá listamanni. Tveir þjónar sátu henni til beggja handa og höfðu nóg að gera.

Ég man ekki hvenær ég kom síðast í Langholtskirkju. Getur verið að ég hafi ekki komið eftir að hið margumdeilda orgel var sett upp? Nei, það getur ekki verið. Ég HLÝT að hafa barið það augum áður. En kannski ekki horft svona míkið á það. Af hverju hefur þetta hljóðfæri ekki fengið nútímalegra útlit. Það er eins og út úr kú inni í þessu nútímlegu kirkjuskipi.
Útlitslega séð, það er að segja.
Það var ekkert út á hljóminn að setja.
Og útlitið er jú ekki allt…

Comments are closed.