Ég hafði ekki verði lengi á Íslandi þegar ég var búin að læra að það er sumt sem útlendingar mega ekki hafa í flimtingum eða gera grín að.
Efst á því blaði, heilög og hafin yfir gagnrýni er Íslenska Tungan.
Ég var búin að vera á Íslandi í tvær vikur þegar ég skildi að mér væri það fyrir bestu að læra málið strax og vel. Ég vann mjög markvisst í því, lagði mig fram og gekk vel. Fljótlega komu menn að orði við mig og sögðu Mikið talar þú góða íslensku. Finnst þér ekki islenskan erfið?
Í byrjun svaraði ég í sakleysi mínu: nei, mér finnst hún frekar auðveld. Þetta er rökrétt og reglubundið mál , skemmtilegt og auðlært. Þá kom alltaf einhver svipur á menn, eins og ég hefði móðgað þá eða sært. Þetta var greinilega ekki rétta svarið. Svo ég fór að segja: jú, hún er rosalega erfið. Þá tóku menn gleði sína á ný og sögðu Þú talar samt mjög góða íslensku. Það var æðsta hrósið sem var hægt að hugsa sér, og virtist skipta meira máli en innihaldið í því sem ég sagði.
En ég var að skrökva. Mér fannst íslenskan alltaf auðveld og mjög skemmtileg, sérstaklega fyrir norðmann. Við getum fundið svo margt í íslensku sem skýrir okkar eigið tungumál. Fyrstu árin, ef mig vantaði íslenska orðið, tók ég gjarnan nýnorska orðið og bætti kannski –ur aftan við og þá skildu menn hvert ég var að fara.
En auðvitað kom stundum upp misskilningur. Ég hélt t.d. lengi vel að kirkjan héti Hátignskirkja. Ég var búin að vera í kirkjukórnum lengi áður en ég fattaði að hún héti Háteigskirkja. Mér fannst það miklu ómerkilegra nafn. Ég var líka lengi að ná muninum á að bera ábyrgð á og að bera áburð á. Það getur orsakað leiðan misskilning að ganga um og bjóðast til að bera áburð á alla skapaða hluti….
Ég hef alla tíð lagt mig eftir að læra málið og um sögu og menningu þessa nýja heimalands míns, og að taka þátt í samfélaginu og vera nýtur þjóðfélagsþegn. Mér ber skylda til þess ef ég vil búa hér. Ég held að í dag hugsi menn ekki út í það að ég er útlendingur, menn taka mig sem íslending. Sýna mér sömu virðingu og umburðalyndi og öðrum íslendingum. Ég er ekki viss um að það sé reynsla allra útlendinga sem hér búa. Þeirra sem bera vitlaust fram, sem líta öðruvísi út, sem vita ekki hver Egill Skallagrímsson var, sem fúlsa við hrossabjúgu og fara frekar í fjöru og grafa upp sandorma sér til matar. Ég þekki fólk sem líta ekki á þessa einstaklinga sem fullgildir, ekki verðir sömu virðingu, umburðalyndis, tillitssemis og tækifæra og “alvöru” íslendingar – og einstaka norðmaður – fá.
Ég hélt lengi vel að með tímanum myndi ég breytast í íslending. Fyrstu tíu árin hélt ég það, en svo fór það að renna upp fyrir mér að það yrði aldrei. Þó ég gæti farið með Höfuðlausn á frummálinu, gæti vitnað í Jónas við hátíðleg tækifæri, tekið undir í Þórsmerkurljóði, saumað vambir og borðað harðfisk með smjöri yrði ég aldrei íslendingur. Einhver ósýnileg mörk voru sem ég komst ekki yfir. Það er aðallega tvennt sem ég hef aldrei náð og næ sjálfsagt aldrei úr þessu.
Í fyrsta lagi get ég ekki vanið mig af stundvísinni. Hversu mikið sem ég rembist stend ég mig ítrekað að því að vera mætt fimm mínútum fyrir tímann. Það þýðir venjulega að ég þarf að bíða í korter eftir fólkinu sem ég ætla að hitta. Ég veit þetta og reyni að vera of sein, en það bara gengur ekki. Það stríðir gegn minni þjóðarsál held ég bara.
Í öðru lagi hef ég gefist upp á að geta nokkurn tímann tamið mig þetta-reddast-hugmyndafræðinni. Hún er bara ekki til í norðmönnum, nema þá kannski í norðurnorðmönnum sem eiga að vera líkari íslendingum en aðrir norðmenn. Hinn venjulegi Ola Norðmaður fær kvíðakast ef hann getur ekki skipulagt sig þrjár vikur fram í tímann. Hann þolir mjög illa þetta-reddast og túlkar það sem kæruleysi. En þetta er íslendingum í blóð borið.
Besta dæmið um þetta finnst mér vera leiðtogafundurinn mikli, þegar Reagan og Gorbatsjof hittust hér um árið. Sá fundur var ákveðinn með mjög skömmum fyrirvara, venjulega eru slíkir stórviðburðir í undirbúningi mánuðum, jafnvel árum saman. Erlendir fréttamenn, erindrekar, fulltrúar og fylgisveinar dásömuðu íslendinga fyrir að hafa getað skipulagt fundinn með svo skömmum fyrirvara. Ég hefði getað sagt þeim að íslendingar hefðu aldrei getað skipulagt þennan fund NEMA með skömmum fyrirvara. Ef þeim hefði gefist tóm til að rífast um hver átti að gera hvað og hver átti að fá heiðurinn af hverju hefði þetta farið út um þúfur. En hér var um ákveðið verkefni að ræða, tíminn naumur og það þurfti bara að redda þessu, og þá er íslendingurinn upp á sitt besta.
Annað íslenskt sérkenni sem kemur norðmönnum ákaflega spánskt fyrir sjónir er það hvernig íslendingurinn framkvæmir. Hann ákveður hvað hann vill gera og svo byrjar hann. Vandamál sem upp koma, eins og t.d. óvæntar opinberar reglugerðir, fæst hann við eftir því sem þær berast. Þetta reddast einhvernveginn.
Þegar norðmaðurinn ætlar að framkvæma eitthvað byrjar hann á því að leggja allt niður fyrir sér, kynna sér lög og reglugerðir um málið, gera áætlun, kostnaðaráætlun, ….. og á endanum vex þetta honum svo í augu að hann hættir við allt saman.
Islendingurinn ákveður hvað hann ætlar og gerir það svo.
Fyrsta skiptið sem ég kynntist þessu var þegar tilvonandi eiginmaður minn kom með til Noregs í fyrsta skiptið. Við fórum út að borða. Þjónninn kom með matseðilinn. Ég opnaði hann og kynnti mér hvað væri á boðstólnum og reyndi að finna eitthvað sem mig langaði í. Maðurinn minn lagði matseðilinn til hliðar og reyndi að ákveða hvað hann langaði í.
Í boði voru hamborgarar, hamborgarar með osti, hamborgarar með eggi, hamborgarar með ananas, hamborgarar með skinku osfrv. Hann pantaði hamborgara með ananas, osti og eggi. Ég var hneyksluð. Það var þjónninn líka. Því miður, það er ekki á matseðlinum. Nú. Þið eigið hamborgara, er það ekki? Jú. Og það er til ananas, ekki satt? Jú. Og það er til ostur og egg? Jú. Nú þá ætla ég að fá hamborgara með ananasi, osti og eggi. Og hann fékk það auðvitað. Kokkurinn kom fram í dyrnar til að kíkja á þennan furðulega gest. Þegar hann frétti að hann væri íslendingur skildi hann allt.
Í augum norðmanna eru íslendingar ákaflega tækifærissinnaðir. Allar ákvarðanir virðast vera teknar á staðnum, miðað við aðstæður hverju sinni. Enda hef ég ennþá ekki fundið gott íslenskt orð yfir prinsíp.