Lyse øyeblikk

Heimir Steinsson, minning

heimirHaustið 1975 kom ég, þá 18 ára gömul, til Íslands til að stunda nám í Lýðháskólanum í Skálholti. Ég hafði frétt af skólanum og sendi eftir upplýsingum um hann. Fljótlega barst mér svarið – 14 þéttskrifaðar blaðsíður með upplýsingum um staðinn, skólann og námið – á íslensku, undirritað af Heimi Steinssyni, rektor. Á dönsku lét hann þess getið að til að geta haft gagn af skólavistinni þyrfti ég að hafa nægilegt vald á íslensku til að geta skilið bréfið. Eftir tveggja daga uppflettingar í orðabók Blöndals á háskólabókasafninu í Bergen var ég litlu nær um Skálholtsskóla, en ákvað að láta það ekki aftra mér og sótti um skólavist. Það reyndist afdrifarík ákvörðun í mínu lífi.

Þetta var mín fyrsta ferð að heiman og Heimir og Dóra gengu mér í foreldrastað. Þau tóku á móti mér á gulu bjöllunni sinni og opnuðu heimili sitt fyrir mig í mánuð áður en skólinn byrjaði til að ég gæti lært íslensku. Ég fékk einkakennslu í íslensku hjá sr. Heimi. Það voru skemmtilegir tímar, þar sem ekki var eytt miklum tíma í glósun og málfræðistagl, ég veit ekki hvort okkar skemmti sér betur. Heimir var krefjandi kennari og gerði ekki ráð fyrir að þurfa að endurtaka hlutina oft. Hann kenndi mér ekki bara tungumálið, heldur vakti hann áhuga minn og ást á málinu, íslenskum bókmenntum, sögu og menningu og lagði grunninn að því hversu vel mér hefur síðan gengið að aðlagast þessu nýja heimalandi mínu.

Þetta var 4. starfsár Lýðháskólans í Skálholti og þau hjónin ráku skólann af miklum eldmóði og umhyggju fyrir nemendum. Heimir var margfróður maður og miðlaði óspart af sínu, en var um leið mjög fróðleiksfús og tilbúinn til að læra af nemendunum. Hann var forvitinn um alla hluti og hafði áhuga á að heyra sjónarmið þess unga fólks sem honum var trúað fyrir. Hann hvatti stöðugt til rökræðna og umræðna um allt milli himins og jarðar og var ekki feiminn við að ræða við okkur um grundvallaratriði í heimspeki, pólitík og trúmálum af opnum huga og á jafnræðisgrundvelli. Hann lagði stöðugt áherslu á gildi menntunar, ekki bara sem tæki til frægðar og frama, heldur sem tæki til að öðlast skilning á manninum og samfélagi  mannanna.  Þannig stjórnaði  hann þessum skóla í besta anda lýðháskólahugsjónarinnar. Ég veit um marga nemendur sem notuðu árið í Skálholti til að hugsa sinn gang og ákveða framtíðarstefnuna undir áhrifum og leiðsögn sr. Heimis.

Eftir að Heimir og Dóra fóru frá Skálholti hittumst við sjaldnar, en alltaf þegar leiðir lágu saman fundum við einlæga vináttu og áhuga þeirra.

Minningargreinaskrif var eitt þeirra séríslensku fyrirbæra sem sr. Heimir kynnti og skýrði fyrir mér og því langar mig  að minnast hans með þessu móti. Elsku Dóra, við Kristján sendum þér og þínum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Okkur hefur alltaf þótt svo vænt um ykkur og þið höfðuð mótandi áhrif á líf okkar beggja.

Gry og Kristján Eggert

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/537154/

sskoli42

Comments are closed.