Lyse øyeblikk

Byrjendamótið 2009

Ég fór á byrjendamótið 2009. Það var öðruvísi fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta lagi var það fyrsta mótið haldið af hinni nýskipuðu Kraftlyftingadeild ÍSI. Fyrsta mót KRAFT eftir að kraftlyftingar urðu alvöru íþrótt í skjóli ÍSI, og mættir voru 15 krakkar sem langaði til að verða kraftlyftingamenn og –konur. Þau sýndu öll mjög einbeittan lyftingavilja.

Í öðru lagi var það haldið á Keflavíkurvellinum heitnum, í gamla íþróttahúsi  hersins. Það var allt í lagi. Svolítið kalt, en ok. Amerískur andi sveif yfir staðnum. Þegar ég keyrði framhjá gamla checkpoint charlie fékk ég yfirþyrmandi nostalgíuhroll – þar stóðu vopnaðir bandaríkjamenn þegar ég kom til Íslands í fyrsta sinn 1975, en þá var flugvöllurinn á umráðasvæði hersins. Víetnamstríðið var að ljúka, Saigon var nýfallinn.

Í þriðja lagi var þetta sannkallað byrjendamót.
Keppendur voru ungir og óhræddir. Sumir höfðu greinilega fengið góða tilsögn, aðrir renndu blint í sjóinn. Fatnaður og útbúnaður var allavega, sumir gleymdu að fara í og mættu á sviðið fáklæddir bæði að ofan og neðan. Sumir snéru rassinn  í dómarana og margir voru óþolinmóðir og nenntu ekki að bíða eftir merkjum þeirra. Sérstaklega í beygjum – dæmigerð byrjendavilla. Það nöguðu sig margir í handarbakið eftir að hafa klárað flottar lyftur og byrjað að fagna of snemma. En til þess eru byrjendamót – til að læra af. Það voru líka margar flottar lyftur og verulega gaman að sjá einbeitinguna og áhugann.

Vonandi var þetta góð reynsla hjá öllum og hvatning til að fara nú heim í hérað og æfa vel fyrir næsta mót. Vonandi  lærðu allir eitthvað nýtt og fundu verkefni til að takast á við á næstu æfingum. Vonandi hafa allir byrjendur hjá sér reynda menn sem kenna þeim að vera þolinmóðir og láta tímann vinna með sér. Sem kenna þeim að þyngdirnar koma þegar tæknin batnar og að það borgar sig að vera þolinmóður og vinna vel í undirstöðuatriðunum. Vonandi eru hjá þeim reyndir menn sem kenna þeim að kraftlyftingamenn nota ekki pillur og lyf til að bæta árangur sinn – heldur hyggjuvitið, úthaldið, þolinmæðina, þrjóskuna og þrotlausar æfingar og átök. Þessi ungmenni eiga skilið að fá slíka tilsögn.

Að öllum öðrum ógleymdum held ég að Eggert Thorarensen 14 ára kappi hafi átt hug og hjörtu allra á staðnum. Níu fallega útfærðar lyftur, hann sýndi meira öryggi en margir hinna. Ekki skrýtið að hans nánustu ljómuðu og voru bókstaflega að springa af verðskulduðu stolti.  Ég fylgðist auðvitað best með konunum sem komu sterkar inn – Ólöf, sem vissi hvað hún söng, setti meira að segja þrjú íslandsmet. Nú verður Thelma að svara fyrir sig og Breiðablik! Hinar sýndu líka mikinn styrk og efni.

Það voru ekki bara keppendur sem voru byrjendur. Tveir dómarakandidatar voru mættir í próftöku, hæfilega taugaóstyrkir, og Helgi og Hörður sátu sem æðstiprestar og skráðu hjá sér öll mistök og vafasama úrskurði. Sem voru samt ekki fleiri en svo að báðir náðu prófinu.
Dómarar þurfa að líta í öll horn og hafa örugga og ákveðna framgöngu. Það má ekki ríkja vafa um hver ræður á vellinum, frekar en í boltanum. Dómarinn ræður hvað sem raular og tautar. Mér finnst að dómarar þurfa að klæðast ákveðnum búningi eða vera greinilega merktir, eins og fótboltadómarar til að sýna skýrt að þeir eru hafnir  yfir hinum. Kannski dómarar í eins bolum, eða skyrtum, eða jökkum, eða húfum eða eitthvað.

Stangamenn voru líka byrjendur og í kennslustund hjá Ármanni sem þarf nú að fara að hugsa alvarlega  um að þjálfa upp nýja kynslóð af góðum stangamönnum. Hann verður að fara að halda námskeið. Það munar mjög um góða stangamenn, bæði öryggisins vegna og líka til að láta mót ganga vel og greiðlega fyrir sig. Keppnispallurinn á að vera eins og borð á góðum veitingarstað. Hreint og snyrtilegt og rétt lagt á, aðgengilegt og freistandi fyrir notendur. Alltaf til reiðu án þess að nokkur verður var við vinnuna sem fer í að leggja á. Og svo þarf að tryggja með öllum tiltækum ráðum að stangamenn hafi alltaf nýjustu tölur og upplýsingar innan handar svo þeir geta gengið beint til verks. Það getur ekki verið mikið mál að búa þannig um hnútana.

Nýútnefndur formaður Kraftlyftadeildarinnar var mótsstjóri. Svolítið öóruggur í fyrstu en kom sterkari inn eftir því sem hann öðlaðist aukið öryggi og yfirlit yfir það sem fram fór. Svona gengur þetta fyrir sig, you rise to the occasion.

Meira að segja ég fékk nýtt hlutverk þar sem ég var drifin í tímatöku svo stóridaninn gæti fengið sér að borða og farið að taka myndir sem hann gerir manna best. Myndirnar voru líka öðruvísi að þessu sinni og sýndu mörg skemmtileg sjónarhorn og óborganleg augnablik og svipbrigði. Ég vandaði mig á tímatakkanum  mjög og var alveg búin í vísifingri eftir mótið.  Harðsperrur á morgunn…

Áhorfendur voru áhugasamir og nokkuð fjölmennir. Með aukinni þátttöku og aðsókn nýrra áhugamanna verður mikilvægt að fá fræðandi skýringar og kynningar á mótum. Þarna er mikill bætingarmöguleiki.

Ég held reyndar að leiðin liggi bara upp á við. Ég held að þetta sé byrjun að einhverju nýju og skemmtilegu. Ég held að allir áhugamenn um kraftlyftingar hljóti að horfa björtum augum til framtíðar. Þeir sem hafa borið hitann og þungan af starfinu undanfarið eiga þakkir skildar.

Við skammstöfuðum Byrjendamótið 2009 ”BYR-09”.

Við ættum kannski frekar að segja ”MEÐBYR-09”.

Comments are closed.