Lyse øyeblikk

Norska öldungamótið 2008

Jæja, þá er ég loksins búin að vinna titil í kraftlyftingum. Er opinberlega sterkasta kona Noregs yfir fimmtugt. Að vera búin að æfa markvisst mánuðum saman og ná síðan að klára dæmið þegar á hólminn er komið er meiriháttar lífsreynsla. Líka fyrir kerlingar eins og mig.

Mér fannst ég þurfa að sanna mig. Ég var búin að mæta á stelpumót tvisvar og hafði fengið skráð á mig þó nokkur norsk öldungamet án þess að hafa nokkurntímann sýnt landanum að ég kunni  yfirleitt að lyfta. Nú var tími til kominn.

Eftir endurkomu á íslandsmótinu í apríl setti ég stefnuna á norska unglinga- og öldungamótið í Ganddal. Og ég sagði öllum sem heyra vildu frá því, til að guggna ekki. Mér var ljóst að ég yrði að einbeita mér að tækninni, ég ætlaði ekki að ferðast alla leið til Noregs til að detta úr í beygjum.  Á íslandsmótinu fékk ég ekki nema tvö hvít ljós í þremur beygjum. Sem betur fer voru þau í sömu lyftunni!

Ég hóf æfingar og vann mest í tækni í beygjum og bekk. Ég hef oft lyft þyngra svo styrkurinn var kannski ekki alveg í topp, en það verður að vera seinna tíma mál. Ég  fjölgaði líka æfingum með útbúnaði. Mér fannst það gagnlegt, og ætla að halda því áfram. Sérstaklega í beygjum þarf ég að venjast brókinni.

Ég æfði töluvert með Maríu sem var á leiðinni á HM í Canada. Hún er hörkudugleg og leggur mikið á sig, aðdáunarvert. Við fórum  þrisvar saman á Akranes til að æfa bekkinn hjá Jakobi. Það var ofurgagnlegt. Allt í einu var 85 orðin örugg þyngd.
Í beygjunni létu framfarirnar bíða eftir sér. En svo náði ég einkatíma hjá Maríu og Klaus og gat tamið mér rétta fótastöðu og hraða. Það var mjög til bóta.

Bikarmót KRAFT var tvær vikur fyrir norska mótið og ég ákvað að nota það sem generalprufa. María, ódrepandi stuðningskona, bauðst til að aðstoða mig. Ég ætlaði að einbeita mér eingöngu að tækni. Mótið varð algert suksess.  Ekki nóg með að ég fékk 9 lyftur. Ég fékk 27 hvít ljós. Geri aðrið betur.
Nú fannst mér ég vera klár í slaginn. Ég var skráð til leiks fyrir ODIN SK, fékk gistingu hjá Håvard og tilboð um aðstoð frá Frey Aðalsteinssyni. Hann ætlaði sjálfur að lyfta á föstudeginum, en ég á laugardegi, svo það smellpassaði. 12 konur voru skráðar til leiks, þar af 4 í M1 og ein í M2 – yours truly. Tone Ingebriktsen og Inger Blikra voru báðar skráðar. Það fannst mér sérstaklega gaman. Fyrir Tone var þetta endurinnkoma eftir nokkurra ára hlé og markmiðið  að ná lágmörkum fyrir opna norska meistaramótið. Inger kom við á leiðinni heim frá HM í Canada þar sem hún varð heimsmeistari, setti heimsmet og var tekin inn í Hall of Fame. Mér fannst heiður að vera yfirleitt skráð á sama móti og hún. Mér leið eins og golfáhugamaður sem allt í einu er staddur í holli með Tiger Woods. Án frekari samanburðar.
Ég kom við á föstudaginn til að kíkja á þroskuðu karlana. Það var gaman að hitta gamla kunningja og finna að menn mundu eftir mér og fögnuðu. Ég skoðaði aðstæður sem voru algerlega til fyrirmyndar, hitti Frey sem var nývigtaður og fylgðist með honum rústa hvert íslandsmetið á fætur öðru.
Þetta var búið að vera langur dagur, svo ég lét bróðir minn sækja mig. Hann var í bílstjórahlutverkinu alla helgina og stóð sig vel. Sem betur fer var íþróttahöllin nálægt heimilinu.
Ég fór beint í rúmið eftir að hafa farið yfir töskuna í hundraðasta skiptið. Vigtun var klukkan 8.00, sem bauð ekki upp á annað en að fara snemma í háttinn.

Ég var ekki nervös fyrir fimm aura. Mjög skrítið. Ég var svo ákveðin í hvað ég ætlaði að gera að stressið komst ekki að. Ég var algerlega með hugann við verkefnið og var búin að fara gegnum lyfturnar svo oft í huganum að mér fannst ég kunna þær utanað. Nú var bara eftir að fara undir stöngina og klára þær.
Morguninn eftir lagði ég snemma af stað og var mætt fyrir utan höllina tíu mínútur fyrir átta ásamt Tone og Freyr sem sýndi af sér mjög óíslenskulega stundvísi. Hann hefur augljóslega búið lengi í Noregi. Svo fjölgaði í hópinn og loksins kom líka maðurinn með lyklana svo við komumst inn. Biðröð fyrir framan vigtunarklefann, loftið víbrandi af spennu. Linda vigtaði okkur. Hún var raddlaus eftir þulustarfið  daginn áður og hvíslaði. Ég hvíslaði ósjálfrátt tilbaka að ég ætlaði að byrja í 110 – 75 – 120. Svo var græjuskoðun og tekin hæð, morgunmatur og kaffi. Ég gaf mér algerlega Frey á vald og hætti að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut. Hann hljóp um og athugaði öll mál og hafði augu á klukkunni. Margra manna maki.

Í fyrsta sinn hafði ég ákveðið hvernig ég ætlaði að hita upp, yfirleitt hef ég látið það ráðast einhvernveginn, en nú vissi ég nákvæmlega hvað ég þurfti.
beygjur:  20 – 40 – 60 – 80 vafin – 100 í brók – 110.
bekkur: 20 – 40 – 60 – 70 í slopp
dedd: 60 – 90 – 110
Aðstaðan var til fyrirmyndar. Nóg af stöngum og nóg af plássinu. Ég gat hitað upp á mínum eigin hraða og lagt undir mig stór svæði.  Freyr var í því að tína upp eftir mér. Ég var ekki ein um að breiða úr mér, bananar lágu á víð og dreif um allan salinn eins og í apabúri.
Ég réðst á fyrstu lyftuna af ákefð. Hún skipti öllu máli, nú YRÐI ég bara að standa mig. Ég var búin að fara yfir þetta hundrað sinnum, var mjög yfirveguð, tók allan tíma sem ég þurfti og beygði létt. Hraðinn var ekki alveg nógur, ég fékk eitt rautt, en sem betur fer tvö hvít. Ég var búin að stimpla mig inn og ekki smá sátt. Ég fór svo í 117,5 sem var skítlétt, 3 – 0. Svo bað  ég um 125, nýtt norskt kerlingamet. Ég settist niður til að einbeita mér með tónlist i eyrunum, þegar ég loksins mundi hvernig ég átti að kveikja á mp3 spilaranum.  Enn og aftur upplifði ég að heilinn var hættur að starfa og allt blóðið farið út í vöðvana. Ég ætlaði aldrei að muna hvar takkinn var. Maður er gersalega rænulaus á svona móti. Ef maður hefði ekki góða aðstoðarmenn myndi maður sjálfsagt ekki rata á sviðið.
Tónlistin gerði útslagið. Sömu lögin og á æfingum. Þau hljómuðu kunnuglega og notalega og losaði mig algerlega við sviðsskrekkinn. Ég gat ekki beðið eftir að komast að svo ég gæti ráðist á 125 og RÚSTAÐ það. Það var skítlétt. Reyndar eitt rautt, skortur á hraða á leiðinni niður, en það fauk upp eins og fis. Eins og að standa upp af klósettinu, eins og þulurinn sagði. Ég á fullt inni í beygjum, ég er viss um það.
Kraftaverkið var staðreynd, ég kláraði þrjár gildar lyftur. Nákvæmlega eins og ég ætlaði mér. Ný norsk og norðurlandamet í M2.

Ég fékk mér snickers og vatn og slappaði af. Nú voru litur strákarnir að beygja, og við höfðum rúman tíma.
Ég hitaði upp á bekknum og hlakkaði til. Mest hlakkaði ég til að reyna við 85 aftur. Ég ætlaði ekki að fara hærra. Freyr átti fullt í fangi með að troða mig í sloppinn. Hann er ekki hannaður fyrir svona brjóstagóðar konur. En það hafðist. Ég hafði fjárfest í nýjan singlet hjá Stian daginn áður og ætlaði að vígja hann.

Ég byrjaði í 75, 2 – 1. Það var eiginlega of létt. Nú er kominn tími til að hækka byrjunarþyngd í bekknum. Næst tók ég 80 fislétt. Svo bað ég um 85. Ég hugsa að ég hefði tekið 87,5, mér leið þannig, en markmiðið var 85 kg og gild lyfta, svo ég ákvað að standa við það. Mig langaði að sannfærast um að ég hefði vald á 85. Þrjú hvít og 100% lyfta. Freyr var hrifinn.

Þannig fór það. Ég gat varla trúað því. Mér hafði tekist að gera nákvæmlega það sem hafði ætlað mér. Nú gat ég lagst undir feld með góðri samvisku og safnað kröftum fyrir deddið.

Ég hafði ekki fylgst með hinum, nema Tone sem sat við hliðina á mér baksviðs með heila hirðsveit af aðstoðarmönnum með Hildeborg í broddi fylkingar. Hún brosti sífellt breiðara í hvert skipti sem hún var búin að fara fram og lyfta.  Greinilega í formi. Inger rölti fram og aftur og skrapp öðru hverju fram til að lyfta smá. Á kjötinu, með hita og við mikinn fögnuð áhorfenda. Það var töluverður fjöldi í salnum. Ungu stelpurnar vora magnaðar. Sérstaklega Tutta.
Ég ákvað að sleppa brókinni í deddinu. Og að lyfta 135. Ég velti fyrir mér 115 – 125 – 135, en endaði í 120 – 130 – 135. Tryggja 130 ef hitt skyldi bregðast.

Ég hitaði upp. 110 var grunsamlega þungt. Ég tók mig saman í andlitinu og fór fram og lyfti 120. Mér fannst ég þurfa að hafa fyrir því.
Vertu bara róleg, sagði Freyr. Fyrsta lyftan er stundum svona, þetta gengur betur næst.
Og það var rétt hjá honum. Ég lyfti 130 skemmtilega létt.

Freyr og Jan Sjøl (sjálfur) voru að ræða málin þegar ég kom niður. Farðu í 140 sögðu þeir. Þetta var svo létt. Einmitt það já. Auðvelt fyrir þá að segja. Ég hélt mig við 135. Mér fannst mjög gott að hafa íslenskan aðstoðarmann og geta lyft á íslensku. Ég hef ekki pælt í því fyrr, en íslenskan er mitt lyftingarmál. Ég kann ekki að lyfta á norsku.

135 reyndist skynsamlega valið. Ég þurfti að hafa fyrir því. Hefði sennilega marið 137,5 en varla 140 brókarlaus. Þetta gerði 345 samanlagt. Ný norsk og norðurlandamet í M2 og 9 gildar lyftur. Ég var helsátt.
Nú vantar mig nýjan bekkpressuslopp. Menn hlógu að mér þegar ég dróg fram Inzersloppinn. Og svo þarf ég að fara að æfa hamstring og neðrabak. Stiff og dips. Byggja upp styrk. Komast aftur í 150 í deddi og 140 í beygju. Sem fyrst!

Bestu þakkir til Maríu, Klaus og Kobba. Håvard og fjölskylda. Og síðast en ekki síst til Freysa.

Comments are closed.