Lyse øyeblikk

Bikarmót 2008

Ég skráði mig á bikarmót KRAFT sem nokkurskonar generalprufa fyrir norska öldungamótið framundan. Mér fannst ég þurfa að fá eina loka tækniæfingu, enda er ég búin að einbeita mér algerlega að tækni undanfarnar vikur og jafnvel mánuði. Ég hef örugglega oft verið líkamlega sterkari en nú, en aldrei jafn örugg tæknilega.

Sem tækniæfing var mótið algert suksess! Ég fékk 27 hvít ljós, og geri aðrir betur.

Og það var ekki vegna þess að ég var að lyfta laufléttar þyngdir. Fjögur norsk og þrjú norðurlandamet öldunga og besta bekksería ævi minnar vitna um það.

Eftir íslandsmótið í vor setti ég stefnuna á norska öldungamótið og ég vissi að ég hefði ekkert erindi þangað nema ég gæti bætt beygjustílinn minn um 300%. Síðan hef ég algerlega einbeitt mér að því að hætta að detta svona mikið fram í lyftunum, standa í hælunum og fara djúpt. Ég hef notað lægri þyngdir og æft með upphækkun undir hælunum og frontbeygjur í stórum stíl. Ég hef líka fjölgað brókaræfingum.

Mestu munaði um einkaæfingu sem ég fékk að taka með bæði Maríu og Klaus sem aðstoðarmenn. Hokus pokus, Gry i fokus, eins og Klaus myndi segja.

Þar gat ég skoðað í rólegheitum og öryggi beygjurnar með þeirra aðstoð og út úr því komu þrjú atriði sem ég síðan hef lagað:

Nr. 1) að standa beinna undir stönginni þegar ég tek hana af,

Nr. 2) að standa gleiðar

Nr. 1,2 og 3) að auka hraðann, að fara úr lúsarbeygjum í leifturbeygjur.

Það tókst mér vel á bikarmótinu og vonandi líka í Noregi.

Ég tók seríuna 110 – 115 – 122,5. Kannski ekkert meiriháttar, en allar beygjurnar voru öruggar og djúpar og það var aðalatriðið. Gott fyrir sjálfstraustið.

Á bekknum var ég búin að fá leiðsögn Jakobs Baldurssonar á Akranesi, og menn verða ekki samir eftir það. Þar lærði ég fyrst og fremst að nota víðara og fastara grip og fékk almennt aukið öryggi og sjálfstraust sem aldrei má vanmeta. Enda náði ég þremur öruggum og fallegum lyftum á mótinu, 75 – 80 – 85. Það hefði nú þurft að segja mér það þrisvar fyrir nokkrum árum að menn ættu eftir að hrósa mig fyrir bekkpressur.

Deddið ætlaði ég enn og aftur að láta mæta afganginn. Ég var ekki búin að æfa það sérstaklega, enda tæknin ok þar. Ég ákvað líka að sleppa brókinni og lyfta brókarlaus, eða þannig. Í því ástandi sem ég er núna er hún hvort eð er meira til trafala en gagns. Þá vil ég frekar sleppa henni og njóta þess að lyfta sársaukalaust. Ég lækkaði byrjunarþyngd niður í 110, sem eiginlega var síðasta upphitunarþyngd, til að tryggja metin sem voru komin. Síðan fór ég í 122,5 og var nú eiginlega orðin södd og sæl. En María fussaði og sveiaði og lamdi mig í framan og sagði mér að láta svo lítið að taka norðurlandametið í deddi líka fyrst ég væri nú að þessu! Ég hundskaðist þess vegna fram og lyfti 132,5 áreynslulítið.

Við þetta hækkuðu norsku metin í þessum flokki um samtals10 kg. Mér líður eins og Elena Isinbajeva sem alltaf hækkar metin sín með minnsta mögulega mun, 1cm í einu. Hennar met eru reyndar heimsmet ….

Ég var mjög sátt við sjálfan mig í þetta skiptið og fann til mun meira öryggis en síðast. Hugarfarið var öðruvísi. Ég var að mæta í mínar lyftur, mér fannst ég eiga lyfturnar og hafa vald yfir þeim, ekki þær yfir mig. Ég var í sókn, ekki í vörn og hafði þor til að taka tíma og kanna mig og hugsa áður en ég byrjaði. Vonandi næ ég þessu aftur úti.

Það munaði auðvitað líka um að hafa Maríu með sér, góður aðstoðarmaður er gulli betri.

Með einbeitinguna í botni missti ég af flest öllu sem gerðist kringum mig, þó að þar hafi verið á sveimi myndarlegir og myndskreyttir strákar af öllum stærðum og gerðum með allavega nýstárlegum hárgreiðslum og útbúnaði. Nokkrir voru að mæta á sitt fyrsta mót og náðu að klára – sem er afrek útaf fyrir sig fyrir unga og mettnaðarfulla með mömmu í salnum. Ég tek nú bara ofan fyrir þessum ungu strákum og stelpum sem leggja í þetta. Vonandi komast þau á bragðið og halda áfram í alvöru. Það er ágætis lífslærdómur fyrir ungt fólk, held ég, að finna að hlutir gerast ekki af sjálfu sér, að það þarf að hafa fyrir þeim og leggja sig fram. Vinna. Vera þolinmóður. Ekki gefast upp. Þá verður stoltið og sjálfstraustið líka raunverulegt þegar maður nær markmiðum sínum.

Nýliðun hlýtur að vera eitt aðalmarkmiða KRAFT á þeim tímamótum sem félagið er á. Á tímum uppbyggingar til nýrrar framtíðar eru ungu strákarnir og stelpurnar mikilvægasta fólkið og það fólk sem þarf að hlúa að. Fólkið sem þarf að finna sig velkomið og finna stuðning og áhuga þeirra sem reyndari eru. Ég veit t.d. sjálf að þegar ég var að byrja hefði mér þótt frábært ef félagið hefði haldið æfingarbúðir, eða æfingarfund þar sem ég hefði getað komið og fengið tilsögn reyndra manna um tækni, æfingarprógröm og útbúnað. Og kynnst öðrum úr sportinu svo maður fyndist sig vera hluti af einhverjum félagsskap. Ég segi bara svona ….

Aðstaðan var ágæt fannst mér, og flest vel gert. En ymislegt hefði auðvitað mátt betur fara. Einhverja hluta vegna eru alltaf fullt af last-minute reddingum á staðnum sem reyndir mótshaldarar ættu að geta komist hjá með smá fyrirhyggju. Slíkar uppákomur eru mjög truflandi fyrir keppendur og áhorfendur og gefa mótið viðvaningslegt yfirbragð sem er óþarft.

Dómaratvíeykið með góðum viðbót var á sínum stað og á heiður skilið. Þegar sambandið næst kýs sér heiðursfélaga skal ég mæla með þeim Helga og Herði.
Jafnvel þó ég eigi á hættu að vera kölluð dómarasleikja.

Comments are closed.