Lyse øyeblikk

Fógetamótið 2006

30. september var haldið bekkpressumót án útbúnaðar í minningu Ólafs Sigurgeirssonar.  Vel til fundið.
fogetiMótið var haldið í húsnæði B&L og var í alla staði hið glæsilegasta og Fógetanum til sóma. Falleg minningarorð, heiðursþögn, Hamraborgin á sínum stað, skemmtilegar myndir af Ólafi upp um alla veggi dragandi björg í bú, vegleg verðlaun í boði, góð þátttaka og míkil stemning.

Ég var búin að æfa bekkinn með Maríu mér til gagns og skemmtunnar og  ætlaði mér að ná 65 kg. Ég væri ánægð með 65. Það var langt síðan ég hafði tekið þátt í móti, ég hafði ekki klárað mót síðan íslandsmótið  2005. Héðan í frá verð ég annaðhvort að skrá mig á öll hugsanleg mót eða hætta þessu.
Þetta var fyrsta kjötmótið mitt og míkið var þetta nú einfalt og lítið mál miðað við stóru græjumótin. Maður mætti bara, vigtaði sig, hitaði upp og lyfti. Ekkert vesen. Ég held að ég leggist á sveif með þeim sem vilja hætta þessu græjustússi og lyfta hrátt.

Mótið hófst með heiðurslyftum þar sem fjöldi manns lyfti 20 eða 60 og hugsuðu til Ólafs á meðan. Þetta fannst mér skemmtileg hugmynd og falleg.

Síðan hófst keppnin – á mér eins og venjulega. Ég byrjaði á 55 til að rifja upp hvernig átti að gera þetta. Síðan tók ég 60 léttilega og bað svo um 65 sem var það sem ég ætlaði mér. Mér fannst dómararnir ekki gera neinar sérstakar kröfum um löng stopp, svo ég ákvað að stoppa eins stutt og ég þyrði og slapp fyrir horn með það. Lyftan var ekki erfið, ég hafði ekki sérstaklega míkið fyrir henni. Það lofar góðu um framhaldið. Í fyrsta skiptið á móti fannst mér gaman að lyfta í bekknum og gékk til verks án nokkurs kvíðboga.

Við vorum fjórar stelpur, auk mín og Maríu mættu hörkutólið Jóhanna Eyvins og glæný stelpa sem hét Þóra. Hún minnti mig svolítið á Hildeborg, bæði í byggingu og viðmóti. Kannski getur hún orðið jafnsterk ef hún heldur áfram að æfa, hver veit….

Eftir að ég var búin að lyfta fór ég að lítast um eftir Astrid sem ætlaði að kíkja á mótið. Hún var ekki komin, svo ég skaust heim og náði í mömmu sem aldrei hefur á lyftingarmót komið. Hún horfði svolítið skelkuð í kringum sig og spurði hvort ég væri viss um að ég væri í réttum félagsskap. Ég fullvissaði hana um það og reyndi að útskýra það sem fram fór. Það létti yfir henni þegar ég fékk þennan líka flotta bikar og hún tók myndir í gríð og erg.
Jóhanna og Auðunn unnu farandbikarana engum að óvörum og margir fóru helsáttir heim. Sumir ekki, eins og gengur. Þeir hafa þá eitthvað til að vinna að á næstunni.

Flott mót.
Það eina sem var fullkomlega misheppnað var græni liturinn á ennisbandinu hans Ólafs. Hvað var maðurinn að hugsa?? Þarna sannaðist í eitt skipti fyrir öll að smekkur manna er misjafn.

Comments are closed.