Lyse øyeblikk

ÍM 2005

Íslandsmeistaramótið var haldið á Grand Hotel Reykjavik.
Ég mætti til leiks í 82,5 kg flokki að þessu sinni til að reyna við tvö norsk öldungamet sem voru innan seilingar. Ég var búin að tala um að taka þau við alla sem heyra vildu, svo nú var eins gott að standa við stóru orðin. það hafði líka kostað töluverða skriffinsku að ganga frá formlegheitum í kringum þetta. Nú átti allt að vera á hreinu, bara eftir að klára þyngdirnar.

Við vorum fjórar konur skráðar, hver í sínum flokki og fengum vigtun og mælingu í kvennaklefanum að þessu sinni. Segið svo að menn geti ekki tekið framförum!

Aðstæður á hótelinu voru svolítið sérstakar, en mikil stemning í salnum og troðið út úr dyrum. Frekar þröngt á þingi þar sem við biðum í röð frammi, þröngt um MIG – hvernig ætli hafi farið um stóru strákana. Ég lenti undir einhverju pálmatréi í hálfgerðum felum.

Fyrsta metið sem ég ætlaði að reyna við var 130 kg í beygjum. Ég byrjaði í 120. Ég hafði ekki tekið hæðina á statífinu nógu vel og það var of hátt stillt. Ég átti í erfiðleikum með að komast út með stöngina, en það hafðist og strákarnir breyttu stillingunni í framhaldinu. Næsta þyngd var tilraun við norskt öldungamet 132,5. það var mjög létt og skemmtilegt. Svo tók ég 137,5 sem var aðeins þyngra en samt vel öruggt. Ég á ennþá meira inni, það er ég viss um. Nú ætla ég að taka fram alvörubrókina sem ég á inni í skáp og beygja í henni næst.
Ég var mjög ánægð með beygjurnar, ekki bara tölurnar heldur að ég skyldi fá allar þrjár gildar. Ég veit alveg ástæðuna fyrir því. Um síðustu helgi var ég að beygja í umsjón Inger Blikra, heimsmethafa öldunga í hnébeygju. Hún hvíslaði lausnarorð í eyra mér sem ég hafði í huga þegar ég beygði – og viti menn – það virkaði. Ég fann mig mjög vel, varð öryggið uppmálað.

Svo var byrjað að hita upp á bekknum. Ég varð svo hugfangin af að fylgjast með upphituninni hjá Jóhönnu Eyvinds að ég gleymdi næstum að hita sjálf. Þar voru greinilega stórir hlutir í uppsiglingu.
Nú var orðið mál að komast í sloppinn. Ég var með nýjan slopp sem ég hafði keypt þröngan þegar ég var -75 kg. Ég vissi að það tæki mér amk korter að komast í hann. Kári hafði lofað að aðstoða mig, en hann var límdur við míkrófóninn uppi í sal. Ég heyrði öskrin í honum alveg niður í kjallara. “Fjögurhundruðþrjátíuogtvöoghálftkílo – fjögurhundruðþrjátíuogtvöoghálftkílo!!” O shit! Þetta hlýtur að vera Auðunn! Tíminn flýgur. Nú voru góð ráð dýr. Ég ákvað að reyna við Dominic Gala. Hann hafði montað sig af því við mig einu sinni að geta troðið hverju sem væri í hvað sem væri. Hann brást hin kurteisasti við og gekk til verksins af einurð og alúð og var fljótur að því. Greinilega vanur maður. Þegar Kári hinn orðheldni kom móður og másandi sat mín hin rólegasta í fullum skrúða og þóttist hafa klædd sig sjálf. Ég náði einni upphitunarlyftu í sloppnum fyrir showtime.
Ég byrjaði í 72,5. Það var svo létt að það tók varla að lyfta því. Ég fór síðan í 77,5 sem líka var létt, en ógilt einhverra hluta vegna. Ég var svolítið spæld yfir því þar sem ég hafði hlakkað til að reyna við 80 kg. Þar sem ég var að hugsa um samanlagða metið fannst mér best að taka sömu þyngd aftur þar sem hún var nokkuð örugg. það tókst í seinna skiptið.

Svo tók við góð pása fyrir deddið. Ég lagði mig með heyrnatólin og mp3spilarann minn. Sonur minn tvítugur hafði tekið upp lögin eftir sínum smekk. Sumt kom mér á óvart, t.d. að hann skyldi hafa tekið upp 9-5 með Dolly Parton! Þessi krakkar hafa mjög fjölbreyttan tónlistarsmekk, eða kannski var hann að gera þetta fyrir mömmu…
Nú fann ég fyrir mjög sérstakri aukaverkan af lyftunum. Allt blóðið var farið út í vöðvana og ekkert eftir í heilanum. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf lagt saman tölurnar mínar og fundið út hvað ég þurfti að dedda til að ná tótalmetinu. Ég er með fínt stúdentspróf í stærðfræði, en þetta var too much. Ég þurfti að ná í penna og blað, skrifa upp og taka til láns eins og 1. bekkingur í grunnskóla. Ég fann út að mig vantaði 145 kg. Átti ég að taka það í fyrstu eða annarri tilraun, það var spurningin. Ég ákvað að taka það í annarri og lækka frekar byrjunarþyngdina. 135 + 145 + 150 og samanlagt 365 kg.
það var 10 kg bæting frá öldungamótinu í mars. Mér finnst það bara fínt hjá mér. Tvibæting á tveimur norskum kerlingarmetum, ég er bara ánægð með mig!

Nú var að drífa sig í fötin og koma sér upp í sal til að ná síðustu úrslitalyftunum hjá þeim stóru. Spennan var eðlilega mestur kringum Auðun og Benna, og margir eflaust komnir til að sjá það einvígi. En þar voru margir aðrir góðir menn að gera góða hluti, og ég verð að viðurkenna að kynnirinn fór svolítið í taugarnar á mér þegar hann lét hjá líða að kynna það sem fyrir augum bar og talaði meira um það sem kannski kynni að koma til með að gerast eftir hálftíma eða svo. Mér fannst það ákveðin óvirðing við þá sem voru að leggja sig alla fram á pallinum að vera að tala um hvað hinir sem á eftir kæmu væru miklu stærri og sterkari og merkilegri. Ég veit það ekki, kannski er ég bara svona viðkvæm …
Auðunn og Benni sviku engan. Benni er auðvitað magnaður þegar hann þrammar sig upp, og ég vona að honum endist aldur til að hirða þetta réttstöðumet. Það er innan seilingar og hann ungur.
Auðunn er ótrúlegur keppnismaður og alltaf gaman að sjá hann lyfta. Hann er bestur.

þegar ég kom heim beið mín tölvubréf fra Tone Glomstein sem átti gömlu metin. Hún var að forvitnast hvort mér hafði tekist ætlunarverkið. Sjálf er hún að æfa fyrir norðurlandabekkpressumót öldunga og er á leiðinni niður í -75 aftur. Þangað ætla ég líka, heimsókninni í 82,5 er lokið. Mér líður ekki vel svona bólstruð. Annars var hún að benda mig á að norska bekkpressumótsmet öldunga í 82,5 er 77,5 – og bekkpressumótið er í júni …

Comments are closed.

Discover more from Lyse øyeblikk

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading