Lyse øyeblikk

Kópavogsmótið í bekkpressu 2009

25. júlí 2009 var sögulegur dagur í íþróttafélaginu Breiðablik. Þá hélt nýstofnuð kraftlyfingadeild sitt fyrsta mót, Kópavogsmótið í bekkpressu. Fyrsta, en vonandi ekki síðasta. Sem eldheitur Blikari var ég fyrst til að skrá mig á mótið og horfði björtum augum til framtíðar … þangað til mér var bent á það tveimur vikum fyrir mót að þetta væri ekki kjötmót eins og ég hafði haldið heldur alvöru græjumót og ég i engri æfingu. Nú voru góð ráð dýr. Mér tókst að grafa mig niður á bekkpressusloppinn minn og mætti með hann á æfingu. Með aðstoð góðra manna komst ég í hann og tók nokkrar tilraunalyftur. Mér fannst ég vera eins og belja á svelli. Nei, hugsaði ég með sjálfri mér, þetta verður bara klúður, ég hætti við allt saman. Sem betur fer á ég góða vini sem stundum hafa vit á að hafa vit fyrir mér. María beitti hinni alþjóðlegu hvað-er-það-versta-sem-getur-gerst-aðferð á mig. Þar hitti skrattinn ömmu sína, þetta er aðferð sem ég er vön að beita vægðarlaust á aðra. Ég tók aðra sloppaæfingu sem tókst aðeins betur, svo ég ákvað að láta slag standa og vera með. Enda hvað-var-það-versta-sem-gat-gerst?
Mótið var vel skipulagt og eiga aðstandendur heiður skilið. Salurinn hentaði ágætlega fyrir bekkpressumót og öllum fánunum hafði verið komið fyrir á áberandi stað ásamt verðlaunum. Pallurinn var glæsilegur með nýsmíðanan bekk í réttum litum, lóðin snyrtilega frá gengið, rúmt um starfsmenn mótsins og áhorfendur. Reyndar hefði biðaðstaða keppenda við bakdyrnar mátt vera rýmri. Þar myndaðist hálfgert kaos.
Söluborðum hafði verið komið fyrir og þaðan barst lokkandi vöfflu- og kaffiilmur sem truflaði einbeitinguna ekkert smá! Borðið var vel skipað, stangamenn með sitt á hreinu og dómarar mættir til leiks. Verðlaunaafhending hátíðleg, myndatakan excessive og áfram mætti telja. Upphitunaraðstaðan slapp fyrir horn, um leið og þátttakendum fjölgar þarf að bæta úr henni. Að þessu sinni voru það frekar keppendur sem brugðust, þar sem nokkrir skráðir létu ekki sjá sig, eða mættu seint og síðarmeir. Meðal keppenda var reyndar furðufugl. Gæsasteggur sem hafði verið skráður til leiks af velviljuðum vinum. Bekkpressa er auðvitað góður undirbúningur undir flest, en kannski ekki endilega hjónabandi?? Og þó …

Ég mætti með eiginmanninn mér til halds og traust og honum fannst það ekki lítið sniðugt þegar hann þurfti að taka ábyrgð á mér með skriflegum hætti og fá formlegt keppnisleyfi sem þjálfara. Hann var kátur með það, hélt sjálfsagt að nú myndi ég hlýða, aldrei þessu vant. Hann er vanari að klæða mér úr bolum enn í, en stóð sig með prýði og skellti mér í sloppinn á nótæm. Ég hafði meldað 85 sem byrjunarþyngd, en komst í upphitun vel niður með 80 og ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig og byrja þar. Við vorum 6 stelpur og mynduðum okkar eigið holl. Það var skemmtilegt en alveg á mörkunum. Það var varla svo maður náði að setjast niður áður en röðin var komin að manni aftur. 80 kg var létt og skemmtilegt og rétt byrjunnarþyngd. Ég fór svo í 85 sem tók aðeins í. Ég þurfti aðeins að hugsa um 3. lyftu. Ég taldi mig vera nokkuð örugga með 87,5 en hálftæp með 90. Ég reyndi samt 90 og komst með hana upp, en útréttingin var ekki nógu jöfn og tvö rauð. Þetta hefur verið til vandræða í bekknum undanfarið ár eða svo. Þegar lyfturnar verða þungar, fer hægri hendin að bila. Það gerðist á Íslandmótinu og það gerðist núna. Samt er ég rétthent. Ef einhver hefur tillögu að lausn á þessu vandamáli er hún vel þegin. Ég var samt sátt við mitt. Ég var enganveginn búin að æfa mig upp í þetta mót, eiginlega á byrjunarreit í æfingum þannig að þetta lofar bara góðu.

María varð stigahæst kvenna, Guðmundur Erlingsson karla. Daníel Einarsson var valinn efnilegasti keppandann. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut og fær góðan stuðning fyrir austan fjall.
Nú er verið að koma á fót kvennalandsliði hvorki meira né minna. I like. Það voru sex stelpur með í þetta sinn. Það er nýbúið að halda sérstakt stelpumót fyrir norðan. I like! Það er hugur í konum. I like!!!

Nú getur maður farið að snúa sér að öðru. Ég ætla á að gera 140 að öruggri þyngd í beygjum og stefni á 150 bæði í beygjum og deddi. Næg verkefni framundan.
Og ef bæjarstjórnarmenn standa við hálfgefin loforð verður æfingaraðstaðan bættur innan tíðar. Það væri nú gaman að eignast sitt eigið! Þá gæti maður farið að koma fyrir öllum græjunum eftir eigin höfði, raða lóðum eftir reglum feng shui og hengja upp blúndugardínur. Ég get ekki beðið….

Comments are closed.