Lyse øyeblikk

Íslandsmótið í réttstöðulyftu 2004

Ég skráði mig í réttstöðumótið og mætti bjartsýn og stressuð.

Undirbúningurinn var nú ekki alveg eins og best hefði verið á kosið. Og vikan sem ég ætlaði að toppa og skoða formið fór í vaskinn. Þökk sé forsetisráðherra og hans förunautum. Segið svo að andlega og líkamlega ástandið hangi ekki á sömu spýtunni. Mér leið eins og sprungin blaðra. Sjálfsöryggið var þess vegna ekki upp á marga fiskana. Og þó. Ég ætlaði að ná  í 150 kílóin sem ég klikkaði á að hirða á íslandsmótinu. Síðasta vikan fór í að æfa sig í að lyfta í brókinni. Sama málið og í beygjunum, mér fannst vandinn vera að komast niður. Leiðin upp var minna mál.
Ég mætti í vigtun og slapp fyrir horn. Shit, næsta verkefni verður Í kjólinn fyrir jólin.

Nú er ég farin að kannast við stöðugt fleiri andlit í þessum hópi. Og fleiri farnir að kannast við mig. Nafnið mitt ekki alveg eins míkið að vefjast fyrir menn. Grí, Grey, Gay, Gray, Gurrý, Þúþarnanorska heyrist ekki eins oft. Ólíklegasta fólk er búið að skoða  heimasíðuna líka. Hjúkk. Ég ætti kannski að hugsa mig betur um áður en ég læt meira frá mér fara… Nei annars. Stundum borgar sig ekki að hugsa sig of mikið um. Sérstaklega konur ættu að hugsa minna og lyfta meira. Vera ekki að velta hlutunum fyrir sér frá öllum hugsanlegum hliðum alla tíð.

Mótið var haldið á Eiðistorgi.
Ég var fyrst svolítið hissa á staðsetningunni, en það var nú ekki svo vitlaust þegar til kom. Óþægilega kalt reyndar, og ískalt gólf. En ok. Svolítið sniðugt að hafa hringleikhúsamót á þessu. Betra en að keppendur séu uppi á sviði. Ég hafði mestar áhyggjur af fína flísagólfinu. Skyldi það hafa brotnað?
Þetta var allt minna í sniðum og auðveldara að átta sig á en fullt mót. Áhorfendavænna kannski. Og ekki jafn tímafrekt.
Ég náði líka að fylgjast með hinum keppendunum. Myndarlegir og sterkir strákar, alger krútt á litlu töfflunum sínum.

Ég byrjaði í 140 sem var ekkert mál. Gaman bara.
Reyndi svo við 150 sem var það sem mig langaði til að taka. Það gekk líka mjög vel. Kom eiginlega á óvart. Mér fannst ég eiga þó nokkuð inni og var jafnvel að hugsa um að taka Maríu á orðinu og biðja um 160 í þriðju. En ákvað að 155 væri líklegra.
Ég hélt að ég ætti það til, en komst ekki upp með það. Ekki nálægt því. Samt var ég bara ánægð með mig. Mér tókst það sem ég ætlaði mér.

María, sem bar sig illa fyrir mótið, þóttist vera hálfsloj og illa undirbúin var auðvitað bara að ljúga því. Hún hysjaði upp um sig 187,5 eins og að drekka vatn. Æddi svo í 200 eins og vitlaus kona og munaði minnstu að hún hafði það. Ég hélt á tímabili að hún ætlaði raunverulega að klára, ég get svarið það. Vantar ekki kjarkinn allavega.

Að lokum var úthlutað heilan helling af verðlaunum og bikurum. Meira að segja einn fyrir mig! En í framtíðinni verður að athuga að hafa letrið á öldungabikurum MIKLU STÆRRA. Á mínum aldri er sjónin farin að daprast.

Auðunn sigraði í karlaflokki og bætti sig. Hvernig geta menn haldið áfram að bæta sig eftir þennan tíma í bransanum? Ég var alveg gáttuð. Það er þá von fyrir svona nýgræðlinga eins og mig. Ég er sko ekki búin að segja mitt síðasta.

Comments are closed.