Auðvitað var þetta rétt hjá Maríu. Þetta var langskemmtilegasta mótið. Það var gaman. Æðislega gaman. Eiginlega full gaman, því ég varð of upptekin af öllu umstanginu og að fylgjast með hinum til að hugsa nógu míkið um mínar eigin lyftur.Ég hafði heldur engin sérstök markmið fyrir mótið, önnur en að vera með og auðvitað helst bæta mig. Ég var ekki að mæta í neinum sérstökum baráttuhug, ekki kannski rétta hugarfarið til stórræðanna. Aðalatriðið að hlusta og læra.
Það var svolítið yfirþyrmandi; áhorfendur, sjónvarpsvélar og fjölmiðlar, fullt af nýju fólki að heilsa mér, læti og hasar bæði inni í sal og backstage. Gaman að vera þátttakandi. Og gaman að verða vitni að mörgum glæsilegum lyftum, sumum sögulegum lyftum. Reyndar líka mörgum glötuðum lyftum. Og reyndar nokkrum slysalegum lyftum sem hefðu getað farið, eða jafnvel fóru mjög illa. Sorg og gleði í jöfnum skömmtum. Allir að hvetja alla. Afar mannlegt sport – alls ekki ofurmannlegt eins og sumir segja. Mannlegt. Og kvenlegt.
Mín eigin frammístaða var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég bætti mig jú, um 2,5 kg – minna mátti það nú ekki vera! Mér tókst að halda meðvitund í lyftunum í þetta sinn – reynslan er farin að segja til sín. Sérstakleg í bekknum, þar var ég með á nótunum allan tíman og tókst að vanda mig eins og ég vildi.
Mér hafði gengið mjög vel í hnébeygjum á æfingum og var eiginlega viss um að ég myndi bæta mig þar. Síðasta lyftan var samt alveg úti á túni, og ég veit eiginlega ekki af hverju. 120 kg er þyngd sem ég virkilega á að eiga vel inni. Kannski var ég bara hreinlega stressuð svona í fyrstu lyftunum á alvöru móti, köld og vitlaus.
Í bekknum gat ég mjakað mig upp í 72,5. Ég verð að fara það í hænuskrefum greinilega. Ég finn samt að tæknin er að batna, staðan á bekknum er betri og mér tókst að vanda mig. Ég var sátt við það.
Í réttstöðunni jafnaði ég 145. Ég veit ekki af hverju ég bað ekki um 150.
Bullshit, þú veist það vel auminginn þinn.
You chickened out!
Þú þorðir ekki – af því að þú hélst að það yrði kannski of þungt!
Well dah………………………..!
Earth to you, STUPID! Þetta eru kraftlyftingar! Það Á AÐ VERA þungt!
Með svona kerlingarviðhorfi getur þú hætt þessu og farið heim að brjóta servíettur. Það var ekki eins og þú hefðir einhverju að tapa á að reyna….
AAARRRGGGHHH!!! Af hverju kom engin og lamdi mig í hausinn og sagði Halló STUPID, hvað ertu að pæla? Á ekki að fara að taka á því? Af hverju lamdi ég mig ekki sjálf í hausinn? Með sleggju. Það hefði verið mátulegt á mig fyrir þessa vanvirðu við sportið.
Það er sök sér að geta ekki lyft 150 kg. En að þora ekki að reyna að lyfta 150 kg er náttúrulega fyrir neðan allar hellur. Það er bara til eitt orð yfir það, orð sem ég ætla ekki að hafa eftir hér þar sem börn og gamalmenni gæti slysast til að lesa það.
Nú ætla ég að taka smá pásu á meðan nagsárin í handarbökunum eru að gróa.
Ég er búin að lyfta á 3 mótum á 2 mánuðum og það er orðið gott í bili.
Svo ætla ég að taka til óspilltra málanna. Tími vettlingatakanna er liðinn. Nú er ég búin að sjá hvernig eigi að fara að þessu. Nú ætla ég að byrja að æfa! Og hæna nú!