Lyse øyeblikk

Vöðvastyrkur og siðferðisþrek

Ég hafði alltaf ætlað að vera með á bikarmótinu. Svo var því flýtt og ég í Noregi.

Ég tók því stefnuna á Reykjanesmótið.

En hvað gerist? Alþingi Íslendinga ákveður að taka mig sérstaklega fyrir og setja lög mér til höfuðs. Ég var svo gersamlega slegin út af laginu að ég gat ekki hugsað um neitt lyftingarmót. Ég hef ekki orðið jafn reið í annan tíma. Ég grenjaði af reiði þegar Halldór Ásgrímsson kom fram í sjónvarpi og sagði (í frjálslegri þýðingu minni): þegiðu kerling og farðu aftur að vinna. Hættu að berjast fyrir bættum kjörum og níðast á saklausum skólabörnum.
Verkfallréttur launafólks er ekkert náttúrulögmál. Það er réttur sem fyrri kynslóðir hafa barist fyrir í alvöru, og sem í mörgum löndum er fjarlægur draumur enn þann dag í dag. Afi minn og hans samtímamenn sultu heilu hungri í baráttunni í denn. Þegar verkföll var ólögleg hryðjuverkastarfsemi, verkalýðsforingjar voru glæpamenn og landráðsmenn og langt frá því að vera “góðar fyrirmyndir” fyrir blessuð börnin. Hættulegir kommúnistar sem vildu hafa eitthvað um það að segja hversu dýrt þeir seldu sig. Sem voru tilbúnir til að fórna mannorði sinu og öryggi til að berjast fyrir hluti sem okkur finnst vera sjálfsögð mannréttindi en sem þá þóttu hin mesta firra.

Einn af þeim mönnum sem ég hef borið mesta virðingu fyrir er Lech Walesa. Ekki vegna þess að hann varð forseti. Ekki vegna þess að hann fékk friðarverðlaun Nobels. Heldur fyrir það að hann klifraði yfir hliðið í skipasmíðastöðina í Gdansk. Su mynd stendur mér alltaf jafnskýr fyrir hugskotssjónum. Hann hafði siðferðisþrek til að standa í fremstu víglínu. 7 barna faðir. Sanntrúaður kaþólikki. Rekinn úr vinnu. Settur í fangelsi. Lögbrjótur, glæpamaður, óvinur ríkisins. Hann barðist fyrir rétt hins venjulega borgara gegn alræðisvald stjórnmálamanna. Barðist með vopni sem ekki drepur, en sem bítur. Samstaðan. Solidarnos.
Og nú sér löggjafin ástæðu til að setja lög sem banna verkfall. Sem slær eina vopnið sem við höfum úr höndunum á okkur. Með valdi. Lög sem eru ætluð að bjarga viðsemjendum okkar úr klípu. “Draga sveitarfélögunum að landi”, eins og Einar Oddur svo skemmtilega komst að orði í sjónvarpsviðtali.
Ég held að ég hafi aldrei orðið reiðari. Nú stend ég í fyrsta skiptið á ævinni í raun í þeim sporum að þurfa að ákveða hvort ég ætla að hlýða landslögum eða eigin sannfæringu.

Ég er löghlýðin kona. Ég trúi á réttarríkið og því að mér ber að virða og fara eftir lögum. Það er ekki í lagi að brjóta lög. En nú segir samviskan mín skýrt að þetta er ekki rétt. Ég á ekki að láta þetta yfir mig ganga, mér ber skylda til að mótmæla. Ekki bara sjálfs míns vegna, heldur vegna þess að stjórnvöld eru að fremja gróft brot á launafólk. Þögn er sama og samþykki.
Til að komast hjá því að samþykkja eitthvað sem er ósiðlegt verð ég að gera eitthvað sem er ólöglegt. Eða til að komast hjá því að brjóta lög verð ég að samþykkja eitthvað sem er ósiðlegt. Ég er í flækt í siðferðilegri sjálfheldu. “Hofstadter-Moebius” flækja delux. Nú skil ég af hverju Hal 9000 fór á taugum.

Eftir andvökunótt ákveð ég að standa með sjálfri mér. Ég get ekki mætt til vinnu undir þessum kringumstæðum. Ég get ekki þóst vera veik og misnotað veikindaréttinn. Ég verð svo bara að taka afleiðingunum og bera höfuðið hátt.

það fór ótrúleg orka í þessar sálarkvalir. Orkan fór öll í siðferðisþrekið, og ekkert var eftir í líkamlega þrekið. Mér leið eins og ég væri nýstaðin upp úr erfiðum veikindum. Ég gat ekki lyft litlifingur. Hvað þá tekið þátt í neitt Reykjanesmót. Þannig fór það.

Comments are closed.