Lyse øyeblikk

Morgunverkin

Morgungöngurnar með hundinn rúla. Það sem hófst af illri nauðsyn er orðið ómissandi byrjun á góðum degi. Á fætur, í fötin, kveikja undir kaffivélinni og af stað. Í öllum veðrum. Það skiptir máli að fara í öllum veðrum. Ef ég fer ekki út í þoku og rigningu kann ég ekki að meta sólskinið og lognið. 
Ég fer snemma, þegar engir eru á ferli nema blaðburðarstrákar og smáfuglar. Borgin er ekki vöknuð, allt kyrrt. Nema hjá fuglunum, reyndar. Á þessum tíma árs er brjálað að gera hjá þeim um leið og sólin kemur upp. Lætin!

Hundurinn er hrifinn. Yfirleitt. Ef veðrið er mjög slæmt er hann stundum tregur. Þá þarf að ræsa hann út. Hann liggur þá yfirleitt í lazyboy-stólnum, öðru nafni húsbóndastólnum, þegar ég kem fram. Þegar ég veifa ólinni fyrir framan nefið á honum opnar hann annað augað og horfir vantrúr á mig. Ætlar þú út í þessu veðri, kona sem er þriðji í röðinni fyrir aftan mig og húsbóndann?? Hefur þú ekki heyrt orðatiltækið ekki hundi út sígandi?? En svo kemur hann um leið og hann heyrir að ég hreyfi við útihurðinni. Hann stenst ekki mátið.

Ég fer alltaf sama hringinn, mátulega langur. Ég mæti alltaf fullorðnum manni á leið í vinnuna. Hann er mjög nákvæmur á tímann. Ég veit hvort ég sé seint eða snemma á ferð út frá því hvar ég mæti honum. Í dag var ég komin langleiðina í Select þegar ég hitti hann. Það þýðir að ég var snemma á ferð. Hann er aldrei seinn. Við bjóðum alltaf hvort öðru góðan dag. Skrýtnir svona morgunfundir. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan hann kemur eða hvert hann fer, en hann er hluti af mínum degi. Ég er viss um að hann taki eftir mér líka, og saknar mín ef ég kem ekki. Hvar ætli konan með hundinn sé í dag. Er hún veik, er hún í sólarlandaferð, er hún flutt?

Þegar ég kem heim eru allir sofandi ennþá. Útbý morgunmat handa þeim. Heill dagur framundan.

Livet er ikke det værste man har, og om lidt er kaffen klar! 

Comments are closed.