Lyse øyeblikk

Takako – minningarorð

1 Comment

Kæru vinir Takako.

Barátta.

Lítið blóm brýst í gegnum snjóinn
Vorið kemur
Og sólin skín.

Laxinn syndir á móti straumnum
Kemst upp ána
Og hrygnir

Krían flýgur milli heimskautanna
Í hlýrra veður
Og til baka

Baráttan er í eðli allra hluta
Átökin hefjast
Og þeim lýkur

Þetta eru orð Indriða Inga Stefánssonar, samstarfmanns Takako og fylgdu kveðju frá vinnufélögum. Þetta er baráttukveðja. Takako var óttalaus kona, hún óttaðist ekki baráttuna og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hún elskaði fjölskyldu sína og hún elskaði lífið. Henni fannst það þess virði að berjast fyrir.

Við Takako kynntumst í þessari kirkju. Við kynntumst meira að segja nákvæmlega hér í þessum tröppum, í 2. sópran í Mótettukórnum. Við stóðum saman í fremstu röð vegna þess að við vorum báðar svo litlar. Í þessum sporum lágu leiðir okkar fyrst saman og hér skilja þær. Þetta er ekki slæmur staður til að skilja. Hér vil ég helst skilja við Takako vinkonu mína, fyrir frama altari Drottins. Hér er hún í góðum höndum. Sterkar hendur hafa tekið við henni. Ég hef ekki áhyggjur af Takako.

Það er að beiðni Takako sjálfrar að ég tek til máls hér. Mér er heiður að því, og ég held ég viti af hverju. Ég held að ég viti hvað hún hefði viljað að ég segði. Við töluðum oft um það, og alltaf nú í veikindum hennar. Að augnablikið er eilíft. Að núið er allt sem við höfum. Að tíminn er dýrmætur. “Segðu mér brandara,” sagði hún við mig þegar hún gat komið upp orði. “Mig langar að hlæja. Mig langar að nota tímann minn til að hlæja og vera glöð”.

Tíminn er svo dýrmætur. Þessi augljósi sannleikur sem við viljum svo gjarnan gleyma.

Takako minnti mig á þetta í veikindum sínum, og ég held að hún hafi viljað minna okkur á það hér. Munið að lífið er stutt. Munið að nota tímann. Munið að njóta þess að lifa. Lifið vakandi.

Lífhlaup Takako hófst í Japan, landi hinnar rísandi sólar. Og endaði hér á Íslandi, landi miðnætursólarinnar. Nú er hún í landi hinnar eilífu sólar, hjá honum sem segir “Ég er ljós heimsins”. Megi geislar þeirrar sólar lýsa henni og okkur  öllum. Í þeirri birtu er best að lifa – og deyja. Nýr lítill sólargeisli fæddist inn í fjölskylduna fyrir örfáum dögum. Lífið lætur ekki að sér hæða. Lífið kviknar og heldur áfram. Ábyrgð okkar er hér, við höfum verk að vinna.

Nú grátum við og syrgjum Takako. Hún á skilið djúpa sorg og mörg tár. Sorgin þarf sinn tíma. Stöndum saman í sorginni, styðjum og styrkjum hvort annað í sorginni.

Líf okkar heldur áfram. Lífið hefur sinn tíma. Stöndum saman, styðjum og styrkjum hvort annað í lífinu. Megi minningin um Takako og ást hennar á lífið og allt hið fallega í lífinu verða okkur hvatning til að elska og meta lífið og allt hið fallega og góða í lífinu.

Þegar ég kom til hennar í veikindum hennar kvaddi hún mig alltaf á sama hátt. Hún þakkaði fyrir komuna og baðst fyrirgefningar á að hafa ekki getað tekið betur á móti mér. Hún, fárveik konan, hafði áhyggjur af líðan minni og fannst leitt að geta ekki gert meira fyrir mig.

Ef ég þekkti Takako rétt hefði hún viljað kveðja alla sína mörgu vini þannig. Með þökkum fyrir allt hið góða og bón um fyrirgefningu fyrir það sem hún náði ekki að gera fyrir okkur áður en hún fór.
Þannig langar mig að kveðja vinkonu mína nú.  Arrigato. Takk fyrir allt hið góða. Fyrirgefðu mér það sem ég náði ekki að segja og gera fyrir þig.

Góða ferð vinkona.

One thought on “Takako – minningarorð

  1. Pingback: På blåtur? – Lyse øyeblikk