Lyse øyeblikk

Takako – minning

Takakó Inaba Jónsson, minning.

GHEA50UK

Í fyrra kom hingað til lands vinsæl japönsk sjónvarpskona til að taka upp efni um Takako fyrir þáttinn sinn. Henni fannst það í meira lagi frásagnarvert að japönsk kona skyldi hafa sest að í þessu afskekkta landi. Takako var líka merkileg kona sem átti heima bæði í fjölmenninu hjá japönsku stórþjóðinni, og í fámenninu á Íslandi. Hún var heima bæði í Tokyo og Vík í Mýrdal. Þetta gaf henni mjög einstakt sjónarhorn á marga hluti.

Takako tók hlutverki sinu í lífinu alvarlega og vandaði sig. Þegar hún ákvað að setjast að á Íslandi lagði hún sig fram við að virða íslenskar hefðir og venjur og kynnti sér íslenska sögu og menningu. Hún lærði málið mjög vel. Framburðurinn var með sjarmerandi japönskum hreim, og orðaforðinn var klassískt gullaldarmál, enda var hún vel lesin.
Hún ræktaði garðinn sinn og vináttuna. Það var ein af hennar allra sterkustu hliðum, hvað hún lét sér annt um hag annara, tók þátt í lífi vina sinna og mætti öllum með jákvæðu viðmóti.

Við Takako kynntumst í Mótettukór Hallgrímskirkju. Hún var listelsk kona, og flestir fundir okkar snerust með einhverjum hætti um listiðkun, okkar eða annara. Ótal tónleikar, sýningar, leikhúsferðir og bókmenntaumræður eigum við að baki. Á síðasta fundi okkar í Brekkutúninu snérust umræðurnar um Íslandsklukku Laxness. Síðustu tónleikarnir okkar komst hún á milli lyfjameðferða, “Ég kem, þetta er góð vika hjá mér”. Siðasta samtalið okkar þar sem hún gat með einhverju móti talað, snérist um Manga teiknimyndasögur og hennar japanska sjónarhorn á þeim. “Ég skal lána þér sögu sem ég veit um. Þú verður að lesa hana.”

Ég á ótal slíkar minningar um Takako. Með þeim allra skemmtilegstu var þegar við gerðumst málaliðar hjá Óperusmiðju Austurlands og sungum Elía á Seyðisfirði. Æfingarnar, tónleikarnir og ferðin fram og tilbaka í góðu veðri, allt er þetta ógleymanlegt.

Næst hjarta hennar stóð samt fjölskyldan og heimilið. Þau Kjartan bjuggu sér fallegt bú þangað sem gott var að koma. Við sátum oft við eldhúsborðið og ræddum málin, svo duttu Árni og Ólöf inn á leið í eða úr spilatíma, sund, ballet .. alltaf eitthvað, en gáfu sig tíma til að heilsa og spjalla. Þetta voru efnileg börn, og Takako bar mikla umhyggju fyrir  þau, hafði metnað fyrir þeirra hönd og var stolt af þeim með réttu. Og hún hafði áhyggjur auðvitað – hvaða móður hefur ekki áhyggjur af börnunum sínum. “Blessuð, slappaðu af,” sagði ég. “Það er gott í þeim, þau pluma sig.” Jú, hún varð að viðurkenna það, þau voru frábær. Nú eru þau ekki lengur börn, heldur fullorðið fólk með eigin fjölskyldu og Takako var orðin amma.  Mikill er missir litlu telpnanna að fá ekki að kynnast Takako ömmu.

Kæri Kjartan, elsku Ólöf og Árni. Megi Drottinn blessa ykkur og ykkar nánustu í þessum  mikla missi. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningin um Takako verður alltaf með okkur. Litla konan skildi eftir sig djúp spor.

Gry og fjölskylda.

Minningargrein um Takako Inaba Jónsson, jarðsett föstudaginn 24. september 2004

Comments are closed.