Þú, Guð, sem veist og gefur allt,
mitt geð er hvikult, blint og valt
og hugur snauður, hjartað kalt –
þó vil ég vera þinn.
Og þú ert ríkur, þitt er allt,
og þú ert faðir minn.
Þú þekkir allan heimsins harm,
hvert hjarta grætur þér við barn,
þú vegur á þinn ástararm
hvert afbrot manns og böl.
Við krossins djúpa, hreina harm
þú helgar alla kvöl.
Þú átt mitt líf, þú leystir mig
þú lést mig blindan finna þig
af þeirri náð, er söm við sig
hvern dag mig dæmdan ber.
Þú, Kristur, bróðir, blessar mig
og biður fyrir mér.
Minn Guð, sem varst og ert mér allt
og alla blessar þúsundfalt,
þú skilur hjartað, veilt og valt,
og mannsins mörgu sár.
Þú ber þinn kross og bætir allt
og brosir gegnum tár.
Sigurbjörn Einarsson.