Þetta var mitt fjórða íslandsmeistaramót. Maður er ekki lengur bara gömul, heldur líka gömul í hettunni. (Hvaða hetta er verið að tala um annars?)
Mótið var sögulegt fyrir margra hluta sakir.
Í fyrsta lagi var þetta fyrsta íslandsmeistaramót sem ég hef tekið þátt í þar sem menn fóru heim eftir langan dag án þess að hafa fengið að vita hverjir urðu íslandsmeistarar! Það ríkti slík ringulreið og skipulagsleysi að það var til háborinnar skammar. Ég nenni ekki einu sinni að telja upp allt það sem hefði mátt betur fara í utanumhald um þetta mót, mér nægir að nefna söluborðið við innganginn að áhorfendapöllunum sem var vægast sagt lítið freistandi og þá staðreynd að hinn mikli glæsilegi íslandsmeistarabikar stóð eftir á borðinu þegar menn voru farnir heim. Það lá fyrir að þetta yrði fjölmennasta íslandsmót frá upphafi og þess vegna meiri þorf en nokkru sinni á þéttu skipulagi þar sem búið væri að hugsa fyrir öll smáatriði og fjölmennt starfslið með skýrar og nákvæmar verkefnalýsingar. Og örugga stjórnun og kynningu í hátalaranum. Kynnir sem segði hluti eins og t.d. “Nú reynir Jón Jónsson við 200 kg. Næstir í röðinni eru Pétur Pétursson, Óli Ólason og Friðrik Frank” – ekki “Hver er næstur? Er það Jón? Og hvað tekur hann? Kalli geturðu komið hingað aðeins? Þetta er frábært”
Því miður var það þetta dæmalaust misheppnaða skipulag sem stóð upp úr á endanum.
Í öðru lagi barst sú frétt inn á mótið að Íþróttaþing ÍSÍ hafði samþykkt um morguninn að stofna sérsamband um kraftlyftingar innan tveggja ára. Langþráð markmið í sjónmáli. Guðjón og Sigurjón mættu á staðinn með fréttina glóðvolga beint af þinginu á jakkafötunum og uppgíraðir eftir niðurstöðuna.
Í þriðja lagi var lyfjaeftirlitið mætt á staðinn og yours truly lenti í því. Ekki fyrr var ég komin úr brókinni eftir síðustu deddlyftu fyrr en tvær rauðklæddar konur með skjalamöppur birtust og sögðu mér að koma og pissa í glas. Ég fagnaði komu þeirra ákaft, en mikið rosalega reyndist mér erfitt að pissa samkvæmt skipun. Ég drakk fjórar flöskur af kolsýrtu sykurvatni og hálfan líter af kaffí og varð samt ekki mál. Ég var með konunum á hælunum í klukkutíma áður en ég loksins gat látið þær hafa það sem þær biðu eftir. Ný lífsreynsla það.
Í fjórða lagi var ég með nýjan aðstoðarmann. Ég hef aldrei haft nein sérstakan aðstoðarmann sem ég hef getað gengið að vísan, ekki síðan við Jónsi “hættum saman”. Þetta hefur alltaf bjargast, en það hefur komið fyrir að ég hef mætt ein á mót í von um að einhver myndi bjarga mér á staðnum. Það er engin framtíðarlausn. Þegar ég var í Noregi síðast sá ég að stelpurnar þar voru flestar búnar að virkja karlana sína í málið og nú hafði María líka tekið það skref að ná sér í mann sem væri brúklegur í þetta. Mér fannst það sniðug hugmynd og ákvað að reyna að þjálfa minn upp í hlutverkið. Þegar maður hefur eignað sér karl sem hefur reynst traustsins verður í 35 ár liggur það beint við. Ég lagði þess vegna fram tillögu um að hann gerðist minn framtíðaraðstoðarmann og ég yrði hans framtíðar caddy í golfinu. Hann þurfti ekki einu sinni að hugsa sig um heldur samþykkti á staðnum.
Við hjónin höfum lifað saman í 35 ár þrátt fyrir að vera eins ólík og tvær manneskjur geta orðið og við höfum áhugamál sem varla skarast. Hans einu kynni af kraftlyftingum var að hann hefði einu sinni á ævinni komið á kraftlyftingamót.
Ég náði að draga hann með á tvær æfingar fyrir mótið til að kenna honum undirstöðuatriðin, en þurfti á endanum að semja við Klaus um að vefja mig þar sem minn maður hafði ekki náð nægilegri leikni í því fyrir mótið. Nú taka við reglubundnar vafningaræfingar í okkar hjónalífi. Það má kannski útfæra þær skemmtilega …
En allt hitt gekk vel. Hann klæddi mig í sloppinn, meldaði þyngdir, færði mig næringu og hvatti mig óspart til dáða. Ég held að þetta geti orðið framtíðarlausn. Nú þarf bara að venja hann af því að tala svona mikið. Aðstoðarmenn þurfa að kunna að þegja og hlýða. Eins og allir góðir menn – come to think of it.
Ég hef samt grun um að hann hafi gert besta dílinn hér. Ég horfi með blendnum huga til sumarsins og sé mig í anda baksandi við stóra golfkerru einhversstaðar útí móa.
I fimmta lagi náði ég minn besta árangur ever. Í þetta skipti mætti ég til leiks með ákveðin markmið um árangur. Í þetta skipti vissi ég hvaða tölur ég þyrfti að taka til að vera a)sátt – b)helsátt – c)himinlifandi. En þær tölur voru a)360 – b)370 – c)380.
Ég byrjaði í 120 í beygjunni. Eins og venjulega hafði ég eytt síðustu tveimur æfingum í að reyna að komast niður í löglega dýpt. Árangurslítið, en ég var samt mátulega örugg um að mér myndi takast það þegar á hólminn væri komið. Það stóðst.
120 var létt og örugg. Ég fór svo í 130 sem var nýtt Norðurlandamet í mínum flokki. Það voru líka þrjú hvít ljós. Ég var s.s. búin að ná bætingu og ákvað þess vegna að láta vaða á 140 sem hefur verið mitt takmark í 5 ár. Mín besta lyfta hefur verið 137,5 sem er kjánaleg tala.
Mér fannst stöngin alveg fáránlega þung á bakinu og hugsaði með sjálfri mér “WTF – á ég að fara niður með þetta?” Ég ákvað að láta mig vaða niður og treysta á Guð. lukkuna, brókina og vafningana til að koma mér upp aftur. Ég missti eiginlega stjórn á lyftunni á leiðinni upp en Klaus öskraði inn í eyrað á mér “fight, fight!” og ég beit tönnunum saman og gerði nákvæmlega það og komst upp við illan leik. Þetta var illa útfærð lyfta en hún var dæmd gild 2-1 og ég komin með enn eitt Norðurlandametið og nýtt persónulegt líka. 15 kg bæting síðan í nóvember er ekki slæmt.
Þetta var góð byrjun og nú var um að gera að halda áfram á þessari braut í bekknum.
Ég hafði tekið 100 kg á æfingu með stoppi og pressað 105 með smá spotti. Ég hafði þess vegna látið mig dreyma um að fá að reyna við 100 kg í þriðju lyftu. En nú fann ég eiginlega strax i fyrstu lyftu að þetta var ekki dagurinn til að gera stóra hluti. Mér fannst stöngin svo þung í lófanum strax í 85. En ég kláraði þá lyftu örugglega og þannig að allir héldu að það hafði verið skítlétt og hvöttu mig til að bæta vel á. Ég taldi samt vissast að takmarka mig við 90. Það var það sem var markmiðið sem ég hafði viljað ná, lágmarksþyngdin sem ég væri sátt við, svo ég fór í 90. Hún var líka þung í lófa en fór upp með þrjú hvít. Þetta var allt samkvæmt bókinni og nú var draumurinn að reyna við 100 í þriðju. Ég vissi samt að það væri fyrirfram dæmt til að misheppnast, þetta var ekki dagurinn. 95 var samt hugsanlega doable. Ég fór ákveðin í þá lyftu og hafði hana innan seilingar en upplifði einkennilegan endi á þeirri lyftu. Ég fór upp með hana og hélt sjálf að ég væri búin að rétta úr höndunum, ég hélt raunverulega að ég væri búin að klára hana þegar ég fann að stöngin var á leiðinni niður aftur, ég var ekki alveg búin að rétta úr! Hægra megin – sem hefur verið veika hliðin í allan vetur. Ég eiginlega skil ekki hvað gerðist en eitthvað klikkaði.
Ég var sátt við 90 þrátt fyrir allt – nýtt norskt öldungamet – og ég veit að það eru bætingarmöguleikar í bekknum. Ég hætti ekki fyrr en ég næ 100 kg úr þessu!
Þá var að fara aftur í hrikalega þröngu brókina fyrir deddið. Ég ákvað að lækka byrjunarþyngd til að tryggja metin. og byrjaði í 125. Ekkert mál. Hækkaði svo í 135 sem tók í og fór svo í 140. Það var markmiðið fyrirfram og ég var ákveðin í að taka hana. Það var nokkuð nálægt toppi, ég hefði hugsanlega tekið 145 en ég er ekki viss. Þetta var samt bæting, nýtt met enn eina ferðina, í gegn með 8 lyftur og samanlagt 370 kg. Ég var helsátt. Þessi tala er lágmark fyrir þáttöku á opna norska meistaramótið og mér finnst gaman að kona á mínum aldri geti uppfyllt það skilyrði. Ég ætla samt ekki að skrá mig á það mót að sinni.
En kannki fer maður að horfa á alþjóðamót öldunga? Lágmarkið til að mega keppa fyrir Noreg á EM er 290 kg í mínum flokki.
Þetta var langur dagur í Mosfellsbæ. Mótið drógst von úr víti og var ekki búið fyrr en langt gengið í tíu um kvöldið.
Svona getur alvöru íþróttasamband ekki staðið að meistaramótum, það var sameiginleg niðurstaða allra á staðnum.
Íslandmót – eða reyndar hvaða mót sem er – heldur maður ekki bara einhvernveginn.
Odin SK hélt meistaramót í bekkpressu í síðasta mánuði. Þar var allt fyrirfram skipulagt niður í minnsta smáatriði og tveir undirbúningsfundir voru haldnir fyrir mótið með öllum sem komu að skipulaginu. Það var byrjað marga mánuði fyrir mótið að finna sjálfboðaliða. Reyndar konur höfðu umsjón með veitinarsölu og aðgangseyri, báru ábyrgð og einbeittu sér að því. Vel undirbuinn þulur einbeitti sér að því að vera þulur. Þeir sem áttu að sjá um að gera pallinn kláran vissu hvar græjurnar voru og hvaða tímamörk þeir þurftu að uppfylla. Þaulvant fólk sat á ritaraborðinu og reiknaði jafnóðum. Og sumir voru bara í að raða upp stólum og fylgjast með að salurinn væri snyrtilegur. Fyrir mótið var tilbúinn tímasettur listi yfir öll verk sem átti að vinna og nöfn og jafnvel símanúmer þeirra sem áttu að vinna þau. Það voru 173 keppendur á mótinu. Odin SK er lítill klúbbur með 38 skráða meðlimi sem sumir hverjir voru meðal keppenda á mótinu. Samt tókst með þessu þaulskipulagi að halda mótið með sóma. Svona vinnubrögð eru til fyrirmyndar. Hér eru miklir bætingarmöguleikar hjá KRAFT.
Nú þurfa allir áhugamenn og -konur um þessa íþrótt að leggja hönd á plóg til að efla sín félög og auka hróður þessarar íþróttar.
Allir geta gert eitthvað, það munar um hvert handtak hversu lítið sem það er.
Þessi törn er búin. Nú tekur við nýtt markmið: niður um þyngdarflokk.