Lyse øyeblikk

IM_2011

Vandamálið þegar maður byrjar á einhverju er að maður verður að klára.
Fyrir allnokkru byrjaði ég að skrifa um mót sem ég hef tekið þátt í. Ég gerði þetta sjálfri mér til skemmtunar, en svo tók ég eftir því að margir lásu textana og fóru meira að segja að lýsa eftir frásögnum í kjölfar móta. Gaman að sjálfsögðu, ekki misskilja mig.

Nú hef ég ekki keppt sjálf í tvö ár! Heilsan bannar það í bili. Ég er meira að segja nýkomin frá bæklunarlækni(hræðilegt orð) sem skoðaði myndir af baki og mjöðm og sagði hughreystandi: Þetta á bara eftir að versna. Bakið verður aldrei gott. Svo skulum við setja gerfilið í þig þegar þú getur ekki þolað sársaukann lengur. 🙂
Frábært. Ég bað hann að setja mig á biðlistann.
Sársauki er alltaf afstæð. Það fer m.a. eftir því hvort hann skili einhverju. Sársauki í fæðingu er fljótgleymdur. Um leið og barnið er komið í hendurnar á manni er maður sáttur við sársaukann. Sársauki á æfingum sem skilar bætingum og verðlaunum er líka ásættanlegur. No pain – no gain og allt það.
En tilgangslaus sársauki er ekki skemmtilegur.
Ætli þetta endi ekki með uppskurð á árinu.
Ætli maður getur beygt með gervilið? Ég gleymdi að spyrja að því.

Á meðan ég bið eftir því get ég reynt að gera gagn á öðrum vettvangi. Á íslandsmótinu í kraftlyftingum bauð ég mig fram sem ritari.

Ég var með keppnisspjöldin og skýrslurnar og þurfti þess vegna að mæta í vigtunina sem hófst kl. 9 um morguninn. Það var frábært akstursveður, sólin að koma upp og gylla hafið, en skítakuldi.
Mótið fór fram í Njarðvíkum og þar tóku á móti mér heimamenn með bros á vör. Þeir leiddu mig inn í litla kompu neðst og innst í húsinu og þar sátum við og vigtuðum fyrsta hollið og útbýttum spjöldum og merkimiðum og skráðum og skoðuðum búnað. Einhver afföll urðu vegna veikinda o.a. en flestir mættu.
Svo var farið upp í sal. Þar var allt tilbúið og uppsett og nóg af fólki sem vissi hvað það var að gera. Við Kári settumst við að lesa inn á tölvuna tölur og gera allt klárt.
Kári hefur gaman að tölum og við erum bæði að lesa undir dómarapróf svo við áttum áhugaverð samtöl um reglur og bætingar og skiptingar í holl. Vorum í aðalatriðum sammála, og ekki endilega sammála dómerunum …

Gulla bættist í hópinn og bauð upp á cerios. Hress og klár kona sem gaman er að vinna með.

Gallinn við að vinna á borðinu er að maður getur ekki litið upp og missir þess vegna af öllum lyftum. Tölurnar skipta manni ekki heldur máli, maður skrifar þær bara og má ekki vera að því að pæla í hvort það séu góðar eða slæmar tölur.
Það eina sem ég man eftir fyrstu umferð var að María ætlaði aldrei að fá gilda beygju, að Guðrún Gróa átti glæsilega innkomu í kraftlyftingum, að Helga Sviland var mættur sem aðstoðarmaður og kallaði hvatningarorð á rógalensku – hjemmekoselig.

Í hléinu var ég föst með Kára að skrá inn tölur fyrir næstu umferð og missti af matnum, en það gerði svo sem ekkert til, ég var ekki svöng. Ég var enda að fara á Food&Fun um kvöldið og mátti eiginlega ekki vera að þessu. En samt tókst mér ekki að slíta mér frá fyrr en eftir bekknum í seinni umferð.
Af hverju er þetta svona skemmtilegt?? Hvernig er hægt að fá dellu fyrir svona sérkennilegu sporti. Ég bara næ þessu ekki.

Viktor kom sá og sigraði, Krzysztof bætti sig glæsilega og ætti að íslenska nafnið sitt svo ég þurfi ekki alltaf að skrifa þessar z-ur, Rósa tók 165 í deddi og loksins sá maður að hún þurfti að beita sig, slatti af íslandsmetum í nýjum þyngdarflokkum var settur og ég blessaði Klaus fyrir að hafa sett upp gagnabanka svo ég þyrfti ekki að handfæra það allt saman. Fannar sigarði í karlaflokki og María í kvenna – ekki óvænt. Sjónvarpið mætti. Spjóti varð fimmtugur og allt endaði vel.
Ég yfirgaf staðinn sátt, og hefði alveg eins viljað vera lengur og sleppa Food&Fun.
En það verður ekki á allt kosið ..

Comments are closed.