Lyse øyeblikk

ÍM bekkur 2011

1 Comment

Ég lagði af stað á Skagann upp úr átta til að vigta mann og annan. Þar sem ég hafði tekið að mér að koma með öll spjöld og gögn yrði ég að vera mætt í vigtun.

Ferðin tók lengri tíma en ég hafði ætlað, mér finnst orðið vont að keyra í myrkri og rigningu. Og svo er ég orðið svo mikið borgarbarn að ég var búin að gleyma hvar háu ljósin voru á bílnum!

Á Akranesi var allt á fullu – Hermann tók frábærlega á móti mér, það vantaði ekkert nema rauða dregilinn, og sýndi mér mótssvæðið sem var óðum að fæðast.

Svo renndu dómarar í hlað og vigtunaraðstaða var sett upp og sjóið hófst. Búið er að prenta ný skráningarspjöld fyrir sambandið en hin nýtna húsmóðir hún ég ákvað að klára bunkann af gömlum spjöldum, svo þau voru af öllum stærðum og gerðum. Keppnisskýrslurnar voru tilbúnar, búið var að föndra meldingarspjöldin og nafnspjöldin voru semi-klár.

Skrýtið hvað það er auðvelt að kenna gömlum og ungum … að sitja. Þegar ég mætti fyrst með meldingarspjöldin á bikarmótið vissu menn ekki hvað það var. Eða hvernig átti að nota þau. Menn ýmist týndi þeim, gleymdi þeim uppi, vantaði penna eða nenntu ekki að standa í þessu kjaftæði það væri hvort eð er ekki vasar á singletunum og ekki hægt að ætlast til að keppendur væru með meldingar á hreinu og að hugsa um einhver pappírssnifsi þegar annað og mikilvægara væri á dagskrá.
Þegar menn svo sáu Dean Bowring og aðstoðarmann hans samviskusamlega fylla út miðana og skila þeim með plísum og thankyou-um til ritara kom hugsunarsvipur á menn.

Núna tóku menn við meldingarspjöldunum sínum möglunarlaust og engum keppanda datt í hug að yrða á ritaraborðið. Útfylltir miðar á borðið – ekkert kjaftæði.

Sama með nafnspjöldin um hálsinn. Byrjuðum á því á Selfossi, sumum til undrunnar. Hvaða óþarfa hálstau var nú þetta! Nú var annað uppá teningnum. Mér hafði orðið á að klúðra miðunum fyrir aðstoðarmenn og það var ekki vinsælt. Menn vildu fá sína miða or else …
Mér finnst þetta allt vera framför og í áttina að því að gera mótin okkar að alvöru íþróttakeppnum. Árangurinn er auðvitað það sem mestu máli skiptir, en umgjörðin er líka mikilvæg.

Auðvitað þarf hver keppandi að hafa hjá sér aðstoðarmann sem getur séð um meldingar o.a. Og auðvitað þarf sá aðstoðarmaður að vera skráður á mótið og merktur sem slíkur. Og auðvitað eiga ekki aðrir aðgang að upphitunar- og keppnissvæði á meðan á mótinu stendur. Hvernig væri það í öðrum íþróttagreinum, t.d. fótbolta, ef vinir og vandamenn færu að fjölmenna í búningsklefann í hálfleik?
Þegar barnabarnið er að lyfta á amma að vera uppí stúku, ekki á tali við tímavörðinn!

Vigtunin gekk ok, enginn féll á henni þó að sumir báru þess merki að hafa fastað fyrir mótið og þurftu að strípa sig alveg. Þó nokkur afföll urðu samt, veikindi hrjáðu marga og allt Selfossliðið sat t.d. heima. Það var búið að tilkynna það fyrirfram, en ekki hafði borist upplýsingar um alla þá sem duttu út. Þar þarf að tryggja betra upplýsingarflæði í framtíðinni. Þó að stundum veikjast menn auðvitað og detta út á síðustu stundu eins og gengur.

Inni í sal var Kári sveittur að skrá inn data á tölvuna og ég fékk að sjá goodliftið close up í fyrsta sinn. Ég held að þetta sé með betri fjárfestingarhugmyndum sem ég hef fengið, margar flugur í einu höggi; mótsstjórnarkerfi fyrir sambandið, afmælisgjöf til Sigurjóns og sameign allra félaga. Það vill enginn halda mót héðanífrá þar sem þetta er ekki notað. Það þýðir að mótshaldari verður að skaffa og þjálfa ritara og þekkingin mun breiðast út.

Ég kom mér fyrir á ritaraborðið og horfði á kraðakið í kringum mig þar sem allir voru á hlaupum að redda og sækja og bjarga og bera. Bekkurinn var kominn í hús, lóðin, ljósin, fánarnir, mónitórarnir ýmist virkuðu eða duttu út, hljóðkerfið var ósamvinnuþýtt – Sigurjón hljómaði eins og hann væri að tala utan úr geimnum – átti að setja mottu eða ekki?? Og hvar voru eiginlega nafnspjöldin fyrir aðstoðarmennina?!
Gulla var mætt á spjöldin og gerði athugasemd við trefjadúkinn á ritaraborðinu. Á Íslandsmeistarmótinu verður sko handútsaumað!

En þetta var vel undirbúið hjá þeim Hemma&co af miklum metnaði. Menn voru brosandi klárir í slaginn. Stangamenn voru búnir að æfa sig, búið var að teipa niður allar snúrur, skjávörpur og tölvur online, verðlaun og fánar uppstilltir. Keppnispallurinn var rúmgóður og aðgengilegur, kaffi og brauð fyrir embættismenn, prentuð upplýsingarskilti … dj-inn mættur … nefndu það bara ..

Svo hófst mótið og ég held að það hafi bara verið skemmtilegt. Það leiðinlega við að vera að vinna á borðinu er að maður missir af lyftunum. Einbeitinging er svo mikil á skráningu og að fylgjast með að allt sé rétt að maður nær ekki að fylgjast með keppendum. Ég náði samt að falla fyrir Aron Lee Duc Teitsson – mér fannst lyfturnar hans alveg sérstaklega vel útfærðar. Kannski var það hraðinn sem heillaði mig, hver veit?

Sumir lyftu í fyrsta sinn á móti – aðrir voru að gera þetta í hundraðasta sinn. Sumir voru á heimavelli og sumir höfðu farið um langan veg til að vera með. Alveg dæmalaust er þetta skemmtilegt hvað sem því líður. Sumir bættu sig, settu jafnvel Íslandsmet. Heimasætan hún Lára Bogey klúðraði sínu móti með glæsibrag sem var auðvitað alvega einstaklega fúlt á heimavelli – þessir sloppar geta verið svo leiðinlegir. En hún virkar ekki vera sú sem auðveldlega lætur slá sig út af laginu, hún heldur ótrauð áfram. Ég vona að strákarnir á Akranesi, og reyndar í öllum klúbbum, hugsi vel um konurnar sínar. Það er ákveðið skref hjá ungri stelpu að kýla á það í powernum.

Ármenningar hálfpartinn rústuðu mótinu og unnu alla þrjá bikarana. Fannar hélt sýningu á hvernig eigi að gera þetta með því að lyfta 250 kg með hörku. Sterkastur allra.
Verðalaunaafhending er alltaf skemmtileg og ég fékk heiðurinn að því að hengja um hálsinn. Hefði ég vitað það fyrir hefði ég farið í háhælaða – enda náði ég varla upp í sigurvegarana. Það voru peningar og bikarar og fæðubótaefni. María og Fannar tóku bikarana og Ármenningar liðabikarinn. Þeir mættu víghreifir til leiks og stungu rækilega upp í Massamenn sem unnu í fyrra. Ármenningar hafa áttað sig á mátt kvenna og mættu með öflugt lið í kvennaflokkunum og háfuðu inn stigum þar.

En Massamenn fengu líka sinn skerf af ljómanum þar sem verðlaunin fyrir sigur í liðakeppni 2010 voru afhent. Þeir röðuðu sig upp með borðann sinn og brostu hringinn. Signý hampaði bikarnum, en hún kemst nú næstum því ofan í hann sjálf. Nú þurfa þeir að draga fleiri stelpur í lið með sér þarna suðurfrá, það er málið.
Mér fannst mjög vænt um að eiga þátt í að heiðra Hörð Magnússon í lok mótsins. Hann var vel að þessu kominn.

Til hamingju Skagamenn með mótið. Þið megi vera stoltir.
Auðvitað er alltaf margt sem má betur fara. Ekkert félag mér vitanlega er yfirmannað. Mikið mæðir á fáa menn og þá verður sumt einfaldlega að mæta afganginn. En þegar menn halda áfram að taka áskorunina og gefast ekki upp, þjálfast þetta. Það verður auðveldara næst, menn læra af reynslu og bæta sig í mótahaldi eins og undir stönginni.
Tímasetningin var ákveðið vandamál. Keppendum fækkaði frá því sem lagt var upp með. Goodliftkerfið flýtir ekkert smá fyrir framkvæmd, kemur í veg fyrir misskilningi og töfum og lætur mótið gang mjög hratt og vel fyrir sig. Þetta gerði það að verkum að bíða þyrfti eftir þriðja hollinu þar sem ákveðinn tími verður að líða frá vigtun fram að fyrstu lyftu. Erfitt að sjá fyrir, en eitthvað sem fer í reynslubankann.

Allt mótahald ætti að enda á uppskerufundi fljótlega eftir mótið. Þegar menn eru ekki úrvinda en samt með mótið í fersku minni. Þegar viðbrögð annara hafa borist og sjónarhornið er í jafnvægi. Þar ættu menn að fara yfir framkvæmdina, skrifa hjá sér hvað tókst vel og hvað klikkaði. Það eru svo óendanlega mörg smáatriði sem þarf að hugsa fyrir og ef þau eru á blaði gleymast þau síður. Sumt má t.d. útbúa með löngum fyrirvara og þarf ekki að taka tíma á mótsdag.

Persónulega langar mig næst að sjá stangarmenn í samstæðum klæðnaði og vasalausum buxum 😉
Takk fyrir eftirminnilegan dag öll sömul. Same time next year??

One thought on “ÍM bekkur 2011

  1. It was hard to find your posts in google. I found it on 19 position, you
    should build some quality backlinks , it will help you to increase traffic.
    I know how to help you, just search in google – k2 seo
    tips

Leave a Reply