Lyse øyeblikk

Andinn að störfum

Ég fór á tvær merkilegar samkomur um helgina. Á laugardaginn fór ég að íslandsmeistaramótið í bekkpressu. Á sunnudaginn fór ég í messu.
Á báðum stöðum var Andinn að störfum. Hvergi heyri ég Andann jafnoft nefndan og í kirkjunni og gymminu.
Við erum að vísu ekki að tala um sama andann á báðum stöðum.
Í kirkjunni er hann guðlegur og heilagur og kemur til manns að ofan.
Í gymminu er hann mannlegur og persónulegur og kemur að innan.
Á báðum stöðum gefur hann dug og kjark og myndar hópefli og samstöðu.
Bæði kristnir og kraftlyftingarmenn þurfa á andanum að halda ef þeir ætla að gera eitthvað af viti. Þú kemst ekki alla leið án hans. En í andanum geta kraftaverkin gerst.

Það vita það allir sem hafa reynt að gera vilja Guðs.
Eða að bæta sig í beygjum. Maður verður að setja andann í málið.

Comments are closed.