Lyse øyeblikk

Matt. 15, 21 – 28

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Hugleiðing á konudaginn 2016

Kæru vinir. Kæru vinkonur. Til hamingju með daginn.
Í dag er konudagurinn.
Við erum nýbúin að halda upp á bóndadaginn, og valentínusardaginn. Það eru orðnir svo margir dagar sem maður verður að hafa sig allan við til að muna.
Hvert málefni fær sinn dag. Dagur barna, aldraðra, íslenskra tungu, reykleysi dagurinn, bíllausi dagurinn, hjólum í vinnuna dagurinn, dagur hafsins, bleiku slaufunnar, íslenska hestsins, dagur fílsins sjálfsagt líka. Að ég tali ekki um hundadagana.
Stundum pirrar þetta mig. Mér líður stundum eins og verið sé að ráðskast með mig. Verið að ákveða fyrir mig um hvað ég eigi að hugsa. Þá fýkur í mig og ég hugsa í dag ætla ég alla vega EKKI að hjóla í vinnuna. En það er auðvitað bara barnaleg þrjóska, eg viðurkenni það. Þetta eru yfirleitt mikilvæg málefni sem vert er að gefa gaum. Og með því að taka frá sérstakan dag gefst manni tækifæri til að velta málefninu fyrir sér.
Konudagurinn er rótgróinn og helgaður konum. Hlutverk og staða kvenna á Íslandi og á heimsvísu á hinum ýmsu sviðum lífsins er málefni sem vert er að gefa gaum. Kvenréttindi og mannréttindi og munurinn þar á milli væri efni í langt mál.
Það að ég sem kona geti yfirleitt staðið hér og haft orðið myndi valda eftirtekt og jafnvel hneykslun í sumum samfélögum – einfaldlega vegna þess að þar er sumt sem konur eiga ekki eða mega ekki gera vegna kynferðis. Það þarf ekki að fara lengra en niður í Ármúla í guðshúsi þar sem stýrr stendur “kvennabúrið” svokallaða þar sem konum er vísað til sætis í afgirtu rými og mega ekki láta í sér heyra.
Aðalpersónan í guðspjalli dagsins er kona. Kona sem á það sameiginlegt með milljónum kvenna í dag að horfa örvæntingafull á veikt barn sitt og vita ekki sitt rjúkandi ráð.
Við vitum ekki svo mikið um hana að öðru leyti, hvort hún er ung eða gömul, rík eða fátæk, gift eða ekkja, heimsk eða gáfuð. Við vitum að hún er kanversk og á veika dóttur, eða dóttur fyllta af illum anda hvernig sem menn vilja túlka það.
Ég geri ráð fyrir að hún hafi gert allt sem í hennar valdi stendur til að hjálpa dóttur sinni. Nú lætur hún sig hafa það að elta hóp ókunnugra karla með Jesú í farabroddi, hrópa á eftir þeim, auðmýkja sig fyrir þá – líkja sjálfa sig við hund – og biðja um hjálp.
Hún á samtal við Jesu sem er haft eftir í textanum. Merkilegt samtal sem lýkur með orðum Jesú: kona, mikil er trú þín. Míkil er trú þín, kona.
Ég er skírð, fermd og alin upp í kristni. Ég játa kristna trú. Mikil rosalega væri ég til í að fá að heyra þessi orð úr munni frelsarans: Mikil er trú þín, kona. Hugsið ykkur að fá að heyra Jesú segja þetta: Mikil er trú þin.
Trú íslendinga er lítil, það las ég í blaðinu fyrir nokkru. Siðmennt létu kanna það vísindalega í nóvember sl. Spurningalisti var lagður fyrir landsmenn og það sýndi sig m.a. að einungis 46% íslendinga telja sig vera trúaðir í einhverjum skilningi. Einungis 36 % segjast trúa boðskap nýja testamentisins um Krist sem frelsari. 80% í yngsta hópnum trúa ekki á tilvist Guðs. Spurningarnar voru 18 talsins og mikið virtist lagt upp úr skoðun manna á tilurð alheimsins. Það má kynna sér þetta nánar á vef samtakanna, en þar kemur fram að aðalniðurstaðan í stuttu máli er sú að “veraldlegar lífsskoðanir séu í mikilli sókn á Íslandi”. Ég veit ekki alveg hvað það þýðir og ætla ekki að gera það að umtalsefni.
Ég ætla að velta fyrir mér þessum mælikvarða á trú. Ég sé nefnilega ekki betur en að mælikvarði Siðmenntar á trú sé mjög ólíkur mælikvarða Jesú í þessu guðspjalli. Og með fyllstu virðingu fyrir Siðmennt, þá tek ég meiri mark á Jesú í þessu máli.
Hvað spyr hann um áður en hann gefur út sína yfirlýsingu: mikil er trú þín, kona. Hvernig fær hann það út? Hvaða spurningarlista leggur hann fyrir konuna til að kanna trú hennar.
Að hverju spyr hann?
– trúir þú á miklahvelli?
– trúir þú á upprisu mannsins og eilíft líf?
– trúir þú á þríeinan Guð?
– geturðu útskýrt meyjarfæðinguna?
– hvað heldur þú að Guði finnist um prestvígslu kvenna? En hjónaband samkynhneigðra?
– hvað finnst þér um aðskilnað kirkju og ríkis? Eða kirkjuheimsóknir á skólatíma?
Það verður ekki séð að konan fái tækifæri til að svara neinum af þessu spurningum. Ég veit ekki hvernig hún myndi raðast í könnun Siðmenntar. Á hvað trúir þessi kona eiginlega?
Það kemur ekki fram hvort hún tilheyri einhverjum söfnuði. Hún er ekki gyðingur. Þaðan af síður kristin. Kristur ekki ennþá upprisinn. Hann er ennþá í fullu fjöri.
Kannski trúir þessi kona hreinlega á stokka og steina, hvað veit ég.
Hvernig getur þá Jesús sagt: mikil er trú þín, kona. Hvaða mælikvarði notar hann? Hvað er svona merkilegt við þessa konu?
Hún kemur til Jesú með málin sín.
Hún viðurkennir vanmátt sinn og tekur sjensinn á að leita til æðri máttar, opnar fyrir þann möguleika að Jesús geti hjálpað. Hleypir Jesú inn í dæmið.
Viðurkennir vanmátt sinn og treystir á æðri mátt.
Að viðurkenna vanmátt sinn og treysta á æðri mátt eru hugtök sem hljóma kunnuglega fyrir alla þá sem hafa tekið þátt í 12-spora vinnu af einhverju tagi. Það eru örugglega einhverjir hér sem hafa kynnst AA eða öðrum mannbætingarsamtökum sem vinna samkvæmt sporunum 12. Ég þekki marga alka í bata sem segja að með því að viðurkenna vanmátt sinn og leita til æðri máttar hafa þeir öðlast frelsi og nýtt líf.
Ég ætla ekki að tala um AA hér. Þau samtök eru algerlega óháð trúarbrögðum, það er skýrt tekið fram, og hugtakið æðri máttur skilgreinir hver fyrir sig.
En það er ymislegt líkt með leiðinni þar og leið þessarar konu og leið minni að frelsi og nýju lífi.
Að viðurkenna vanmátt sinn og taka æðri mátt með í reikninginn.
Ég viðurkenni vanmátt minn.
Það þýðir samt ekki að ég trúi ekki á mátt minn og meginn. Ég trúi á mátt minn og megin. Ég er afskaplega frambærileg kona – myndi ég segja. Mér er ymislegt til lista lagt. Það er margt sem ég get gert, jafnvel gert ágætlega, jafnvel betur en margir aðrir. Ég hef líka mína galla og veikleika, það er ymislegt sem ég er alveg vonlaus í og ætti helst ekki að koma nálægt. Ég veit það alveg. Ég vona að ég hafi nokkuð heilbrigða og raunsæja sjálfsmynd. Það er kannski réttara að segja að ég ÞEKKI mátt minn og megin. Ekki TREYSTI mátt minn og meginn. Ég þekki mátt minn og veit sem er að hann nær svona langt og ekki lengra.
Ég þekki mátt minn og viðurkenni vanmátt minn
Ég hef kosið að gera eins og konan í guðspjallinu – að opna fyrir þann möguleika að æðri máttur sé til. Ákveðið að taka æðra mátt með í reikninginn. Mátt sem ég skil ekki og get ekki útskýrt.
Minn æðri máttur nefni ég Guð. Í minni trú er Jesus leiðin að Guði.
Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, segir hann. Ég hef tekið sjensinn á að það sé satt.
Ég trúi á Guð.
Það þýðir ekki að ég skilji heilann eftir heima. Það þýðir ekki að ég afneiti vísindi.
Það þýðir að ég læt ekki heimsmynd mína og lífsskoðun takmarkast af því sem ég get útskýrt og mannkynið hefur uppgötvað hingað til. Það er svo margt sem ég skil ekki og get ekki útskýrt bæði í Bibliunni og í alheiminum. Svarthol eru fyrir mig gersamlega óskiljanleg fyrirbæri, eða þessar þyngdakraftbylgjur sem menn fundu fyrir skemmstu. Higgsbóseindin hvað …. Ég skil hana ekki, en trui því vel að hún sé til. Mér finnst það mögnuð tilhugsun.
Ég get heldur ekki útskýrt meyjarfæðinguna – ég get svarið það.
Samt trúi ég á Guð.
Og ég neita að viðurkenna að ég sé heimskari en gengur og gerist.
Ég nota mátt minn og megin og vit mitt eins langt og það nær til að komast áfram í lífinu og gera það sem mér ber. Og svo opna ég hugann fyrir þann möguleika að til sé veruleiki ofar og utan mínum skilningi og því sem ég fæ séð með mínum augum. Og mér hefur reynst best að taka Guð með í reikninginn.

Ég á oft samtal við Jesu. Þar sem ég get ekki hlaupið á eftir honum á götum úti, fer það samtal fram í bæn.
Bænin má aldrei bresta þig, segir sálmaskáldið í 4.passiussálmi
Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmisleg.
Þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að drottins náð.
Andvana lík til einskis neytt er að sjón, heyrn og máli sneytt.
Svo er án bænar sálin snauð, sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

Ég er sammála honum. Án bænar er sálin snauð, sjónlaus, köld, dauf og, eins og Hallgrími svo lýsandi ratast á munn: rétt steindauð.

Að eiga samtal við Jesú eins og konan í guðspjallinu gerir, er gott. Samtal ekki bara um hin ýstu rök og þegar um líf og dauða er að tefla. Ekki bara þegar maður er að niðurlotum komin og getur ekki meir. Ekki bara í örvæntingu þegar allt er í húfi, heldur sem oftast. Maður veit ekki alltaf heldur sjálfur hvenær allt er í húfi. Algengasta bænin sem gengur út úr mínum munni, verð ég með skömm að segja, er sennilega þessi: Almáttugi Guð, eilífi Faðir: hvar setti ég bíllyklana mína.
Mikil er trú þín, kona.
Hvernig skilgreinum við trú. Ég hef heyrt ýmsar tilraunir til þess.
Til er eitthvað sem gengur undir nafninu ofsatrú. Hvað er það?
Ég er ofsalega trúuð. Ég er ofsatrúuð?
Öfgatrú er líka eitthvað. Er ég kannski öfgatrúuð?
Þegar trú ber á góma hef ég stundum séð að menn verða svolítið vandræðalegir og segja svo kannski: ég hef nú bara mína gömlu barnatrú.
Hvað er barnatrú?
Ég skal ekki segja, en ég veit að Jesus oft talar um börnin sem góðar fyrirmyndir fyrir okkur eldri, og ég hugsa að barnatrúin fari nokkuð nálægt þeirri skilgreiningu sem Jesús virðist nota þegar hann segir: mikil er trú þín, kona.
Að viðurkenna vanmátt sinn, takmörk sín og taka Guð með í reikninginn.
Að taka Guð út úr dæminu er væntanlega hin veraldlega lífskoðun í mikilli sókn. Að takmarka sig við það sem verður skilið mannlegum skilningi. Að láta ekki þessar guðshugmyndir þvælast fyrir sig og gera illt verra. “Ef við værum bara laus við trúarbrögð þá væri heimurinn betri,” segja menn.
Ég er ekki viss. Ég er ekki sannfærð um að hið illa komi frá trúnni.
En þegar menn vilja skilgreina trú samkvæmt spurningalistum manna, flokka menn eftir því hvað þeim finnst um tiltekin mál, raða menn í fylkingar út frá skoðun á miklahvelli eða rétt kvenna til prestvígslu, nota spurningalistaaðferðina, þá er stutt í rifrildi, fordæmingu og stríð.
Trú sem snýst um að viðurkenna vanmátt sinn og leita til æðri máttar gefur ekki mikið svigrúm til að hneykslast á öðrum. Við erum öll á sama báti og það þjónar litlum tilgangi að skipa sér í fylkinga.
Ég veit ekki hvernig ég kæmi út í könnun Siðmenntar. Hversu trúuð ég raunverulega er samkvæmt henni. Það er fullt af spurningum sem ég get ekki svarað. En ég er ekki tilbuin til að láta það stoppa mig frá þvi að gera ráð fyrir æðra mátt þegar minn máttur ekki nær lengri.
Mér er líka nokk sama um hvernig Siðmennt myndi meta mína trú. En mikið væri ég til í að fá að heyra úr munni Jesú: mikil er trú þín, kona.
Herrar mínir og frúr! Eigum við ekki að nota konudaginn til að velta fyrir okkur fordæmi konunnar í guðspjalli dagsins. Þekkja mátt okkar og megin og viðurkenna vanmátt okkar og treysta því að Jesús geti hjálpað jafnvel þó að við skiljum ekki og getum ekki útskýrt vísindalega hvernig það fer fram.
Kanverska konan sá ekki eftir því. Ég hef heldur aldrei séð eftir því.
Góðar stundir.

Comments are closed.