Lyse øyeblikk

Viðar Daníelsson – in memoriam

Fyrir tveimur áratugum kynntust tvær litlar hnátur i leikskólanum Hólaborg í Breiðholti.

Þær bundust hreinum tryggðarböndum sem halda enn.

Önnur var Dagný Lóa, yngst í okkar fjölskyldu, hin var Ásdís María Viðarsdóttir Daníelssonar.

Vinátta þeirra smitaði fljótlega hina fjölskyldumeðlimina,  Börnin voru á svipuðum aldri í sama skóla og leikskóla, mæðurnar áttu skap saman og lík áhugamál og fjölskyldufeðurnir sömuleiðis.

Áður en varði voru Fýlshólar 8 reglulegur viðkomustaður okkar og sömuleiðis heimilið okkar þeirra.

Samveran náði fljótlega út fyrir heimilin, við vorum saman á ferðalögum, í veiðiferðum, félagsstörfum og menningarmálum.

Við munum Noregsferðina miklu þegar við tvenn hjón með tveimur litlum stelpum og fimm unglingum á mismunandi gelgjustigum fórum í siglingu til Færeyja og Noregs og lentum í mörgum ævintýrum og veiðiferðina í Soginu sem fékk svo eftirminnilegan endi. Þegar maður byrjar að rifja upp er af mörgu að taka.

Viðar var umsvifamikill og fyrirferðamikill maður á þessum árum. Hann stóð í stórræðum í sinu fyrirtæki og hafði mikið undir. Heimilið og fjölskyldan var honum alger kjölfesta og það leyndi sér ekki hversu stoltur hann var af henni og þakklátur að eiga hana.

Viðar var höfðingi heim að sækja, alltaf hjálpsamur, glaðlegur og jákvæður og óþolandi stríðinn stundum. Fann upp “sæmdarheiti” á okkur sem ekki alltaf féllu í góðan jarðveg og verða ekki rifjuð upp hér. Hávaxinn og hávær gat hann kvekkt Dagnýju litlu stundum, en bætti upp fyrir það þegar hann gaf henni og Ásdísi eins skvísuföt sem þær gætu skartað í leikskólanum.

Þessi ævikafli endaði svo brátt þegar Viðar veiktist alvarlega og aldrei náði fulla heilsu aftur. Áfallið var mikið og breytti tilveru hans og fjölskyldunnar til frambúðar. Allt í einu var fótunum kippt undan þeim og nú þurfti að móta framtíðina á nýjum forsendum.

Samskipti okkar við Viðar breyttust óhjákvæmilega líka og tóku á sig aðra mynd, en eitt breyttist aldrei, óbilandi vinátta og velvild hans í okkar garð var alltaf söm við sig og þó hann hafði marga hildi háð um ævina bar aldrei á biturð eða reiði. Glaðlegur kvaddi hann í síðasta símtalinu fyrir skemmstu þegar næsta spilakvöld var til umræðu.

Við teljum það heiður að mega í dag fylgja Viðari Daníelssyni hinstu skrefin og mega kveðja hann sem kæran vin.  Í sorg minnumst við hans með virðingu og þakklæti fyrir alla vináttu og vinsemd, greiðvikni og rausn, hlátursköst og trúnaðarsamtöl, fyrir ómetanlegar og stundum óborganlegar samverustundir.

Öllum ættingjum og ástvinum Viðars, Kömmu, Bjarna og Sæunni vottum við samúðar.

Ásdís María, Anna Sóley og Arnar Ingi, þið eruð hluti af heilum kafla í sögu okkar fjölskyldu. Í þeim kafla er pabbi ykkar óaðskiljanlegur miðpunktur og gleðigjafi. Við munum geyma og aldrei gleyma hann í hjörtum okkar og sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gry, Kristján, Dagny, Bára, Nils og Astrid.

Comments are closed.