Lyse øyeblikk

Rölt

Leave a comment

Ég fór á foreldrarölt í gærkvöldi.
Það er alltaf sama sagan. Ég ætla aldrei að nenna því. Strax um kaffileytið fer ég að hugsa,ó nei, ég var búin að lofa að rölta í kvöld, ég nenni því ekki. Og þegar kvöldið er komið er alltaf eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu og fjölskyldan að poppa og kalt úti. Og ég hugsa: hvað er ég að gera úti? Börnin mín eru inni. Það eru örugglega enginn úti í þessu veðri. Það skiptir engu máli þó ég sleppi því. Ég fer bara næst. Eða þarnæst.
Sem betur fer hefur mér tekist að sigrast á eigin leti nógu oft til að vita að það borgar sig. Ég læt ekki undan heldur segir sjálfri mér að þegja og standa við gefin loforð. Ég fer í föðurlanda og ullarbol, dreg á mig húfu og vettlinga og fer út.
Og það er alltaf sama sagan. Um leið og ég er komin út fyrir dyr og dreg ferska kvöldloftið í lungun hugsa ég: ó já, hvað þetta er yndislegt.
Á leiðinni út í skóla reyndi ég að rifja upp hvenær ég fór síðast á röltið, og niðurstaðan kom mér á óvart. Það mun hafa verið á árunum 1997-1999. Á síðustu öld!
Staðreyndin vakti mig til umhugsunnar. Um framvindu tímanns. Áfram streymir endalaust og allt það.
Þá var öldin önnur, bókstaflega talað. Á þeim tíma var landasala til skólakrakka í algleymingi. Við vorum aðallega á svipast um eftir sprúttsölum. Þeir komu á bílunum sínum með landa á stórum brúsum og krakkarnir fengu áfyllingu á kókflöskur eða það sem var hendi næst. Urðu margir hverjir veikir og ruglaðir.

Í gær var lítið um að vera. Við mættum aðallega pólverja! Tímanna tákn. Engir krakkar úti, heldur hópar af austuevrópubúum dúðuðum í dúnúlpum með prjónahúfum niður á nefið og hendur í vösum úti á leið á hverfisbarinn.

Þetta var hressandi ganga með góðum nágrönnum. Það er langt síðan ég hef skoðað hverfið mitt á þessum tíma sólahrings. Í fylgð með fólki sem ég umgengst ekki daglega og hafa sögur að segja sem ég hef aldrei heyrt. Sem hafa aðra reynslu og aðra sjón á umhverfið. Sem hafa börn á öðrum aldri. Sem glíma við önnur vandamál. Mjög lærdómsríkt.
Hugsa sér allt sem maður missir af ef maður lætur letina ráða.

Leave a Reply