Það er mikið talað um lúxus þessa dagana. Menn keppast við að eyða í afmælisveislur, ferðalög, landnámsjarðir og einkaþotur.
Dagamunarstuðull manna er misjafn. Ég fyrir mitt leyti er fegin að Elton John & lífverðir hafi ekki crashað afmælið mitt.
Hámarkslúxus í mínu lífi, það sem mér finnst æðislegast ef ég má velja hvað sem er, er lúxus sem ég leyfi mér vikulega. Nefnilega að eiga frí á sunnudögum, vakna á undan öllum hinum og geta borðað hafragrautinn minn í algeru næði á meðan uppáhaldskaffið mitt er að hellast upp á. Stundum vaknar hundurinn líka og kemur og hnusar af mér áður en hann leggst niður við fætur mínar. Stundum kveiki ég upp í arinninn og slekk ljósin. Í morgunn var sérstaklega fallegt úti. Það snjóaði rólega og jólakortalega.
Ég er vön að skoða blöðin yfir hafragrautnum og taka síðan kaffið og sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins með mér upp í stofu. Það ætlaði ég í morgunn líka, og stefndi á að klára gátuna áður en útsendingin frá heimsmeistaramótinu í skíðaskotfimi hæfist í Anterselva. Ég ætlaði að njóta þess með seinni kaffibollanum.
Ég átti mig einskis ills von þegar ég settist með hafrana og blöðin. En svo blasti við mér stríðsfyrirsögn Fréttablaðsins: Formaður Kraftlyftingasambandsins tekinn með 30.000 steratöflur.
Ég er áhugakona um kraftlyftingar. Á gamals aldri hef ég fengið dellu fyrir þessa sérkennilegu íþrótt. Mér er annt um framgang og vegsemd sportsins. Það er hugsanlegt að kraftlyftingarheimurinn hefði getið fengið verri fréttir á sunnudagsmorgni, en í fljótu bragði dettur mér ekki í hug hvað það ætti að vera.
Mér finnst hrikalegt til þess að vita að maður sem ég tek mark á og met mikils skuli standa í þessum óþverra. En persónuleg vonbrigði verður hver að vinna úr með sínum hætti, þannig er nú það.
Mér finnst ennþá hrikalegra til þess að vita að kraftlyftingasambandinu hafi verið stjórnað af steraheildsala. Hversu skammarlegt er það?
Langar mig að vera meðlimur í slíku sambandi? Nja…
Hvað gera bændur nú?
Sögur um lyfjanotkun og steratöku hafa loðað við kraftlyftingar gegnum tíðina. Það eru ekki fordómar, heldur staðreyndir. Nú er hafin barátta gegn þessu í alþjóðasambandinu og mörgum landssamböndum. Ég hef ekki baktjaldarþekkingu í málinu, en fyrir mig lítur það út eins og tekist sé á um þessi mál í alvöru – kannski í fyrsta sinn. Þegar alþjóðasambandið leggur í að útiloka Rússa og Úkraínumenn með tölu kviknar í mér von. Svo barnaleg er ég. Ég leyfi mér að vona.
Í mínum huga er það dagsljóst að ef að menn vilja láta taka þessu sporti alvarlega verða menn að vinna eins og alvörumenn, ekki hræsnarar sem segja eitt og gera annað.
Kraft er ekki meðlimur í ÍSÍ. Meðal almennings er skýringin augljós; kraftlyftingarmenn vilja fá að dópa í friði. Þeir vilja ekki lúta lyfjaprófum og eftirliti. Þeir treysta sér ekki til að starfa eins og aðrir íþróttamenn.
Ég þekki ekki söguna og veit ekki hvernig standi á utansambandsverunni. Sjálfsagt eru ástæðurnar fleiri en ein. En ég fæ ekki séð að kraftlyftingar eigi sér framtíð nema menn taki þessi mál til endurskoðunnar.
Stjórnin á ekki annarra kosta völ en að gefa strax út yfirlýsingu þar sem stefna félagsins í sambandi við lyfjanotkun komi skýrt fram. Ef hún er til.
Sem félagsmaður vil ég líka sjá áætlun stjórnarinnar um aðgerðir sem gripið verður til til að tryggja framgang þeirrar stefnu. Ef þær eru einhverjar.
Um þetta ættu menn ekki að þurfa hugsa lengi. Ekki ef meiningin er að hafa þetta sem alvöru íþróttasamband en ekki einkaklúbb einhverra sem vilja eiga sín leyndarmál í friði.
Eitt er víst, í slíkum klúbbi vil ég ekki vera.
Þegar ég gekk í kraftlyftingasambandið í hitteðfyrra sögðu menn mér í óspurðum fréttum að ég væri að ganga til liðs við smyglara, dóphausa og glæpamenn. Ég tók þann pól í hæðina að trúa ekki kjaftasögum heldur meta menn og málefni útfrá eigin reynslu.
Það má segja að ég hafi notað sömu aðferð og bandaríkjaher notar gagnvart hommum: don´t ask, don´t tell, don´t know.
Ég sé það núna að það er ekki afstaða sem dugar til lengdar. Ekki fyrir mig og alveg pottþétt ekki fyrir bandaríkjaher. Fyrr eða síðar verða menn að horfast í augu við raunveruleikann.