Lyse øyeblikk

Af sérkennilegum fílum og öðrum samviskuföngum.

Gísli Sigurðsson íslenskufræðingur sagði mér einu sinni ágætan brandara. Hann var um þegar aðildarlönd Sameinuðu þjóðanna ætluðu að heiðra fílinn með útgáfu skemmti- og fræðirita honum til vegsemdar. Þjóðverjar riðu á vaðið með stóran doðrant nefndan Das Leben des Elefantes – Erster Teil. Frakkar sömdu L´amour d´Éléphant. Bretar gáfu út How I shot my first Elephant. Bandaríkjamenn lögðu fram How to make Elephants bigger and better. Danir gáfu út Elefanten på 31 forskellige måder – en kogebog. Svíar komu með Elefanten och dens Sociala Problem. Framlag norðmanna var Norge og vi nordmenn. Frá Íslandi komu Þættir af sérkennilegum fílum.

Mér datt þessi saga í hug í morgunn yfir blöðunum þegar ég sá að hinn sérkennilegi fíll Bobby Fischer væri orðinn íslendingur. Fréttin þakti hálfa forsíðu blaðs allra landsmanna undir stríðsfyrirsögn og aðalleiðari blaðsins tók málið fyrir. Allur þessi hasar í kringum þennan sérkennilega fíl kemur mér ákaflega íslenskt fyrir sjónir.

Hvað er málið með þennan mann? Hvað hefur hann gert til að verðskulda að löggjafarþing íslendinga komi saman og leggi heiður sinn og starfskrafta í að setja sérstakar reglur í hans þágu? Að dæma af þeim fáum orðum sem ég hef heyrt hann segja er hann óvenjulega sjálfhverfur, tillitslaus, fordómafullur og arrogant. Gengur kannski ekki alveg heill til skógar?

Mér finnst það samt mjög athyglisverð leið sem Alþingi hefur fundið þarna til að aðstoða og jafnvel frelsa samviskufanga úti í heimi. Nú bið ég spennt eftir framhaldinu.

Ég legg til að menn beiti sér næst af jafnmiklum íslenskum dugnaði í máli Aung San Suu Kyi friðarverðlaunahafa. Ég er næstum því sannfærð um að hennar málstaður sé jafngóður og Bobby Fischer. Hún er að vísu laus úr 6 ára stofufangelsi, en býr enn við mjög skertu ferðafrelsi og mannréttindum. Ef hún fengi íslenskan ríkisborgararétt gæti hún hugsanlega ferðast frjálst um heiminn og lagt góðum málum lið.
Ef hún vildi þiggja íslenskt ríkisfang yrði það landi og þjóð til mikils sóma. Og þjóðin ætti allt í einu 2 Nobelsverðlaunahafa ..

Áfram Ísland!

Comments are closed.