Það getur verið erfitt að skilja reglurnar á leikvelli lífsins. Stundum eru menn teknir útaf í miðjum leik, menn sem virðast vera að gera góða hluti og valda sinni stöðu fullkomlega. Menn eins og Gunnar Hauksson. Í okkar augum var Gunnar ómissandi lykilmaður, duglegur og ráðagóður. Maður sem við máttum ekki missa.
Gunnar þekkti leikreglurnar vel. Hann vissi að leiknum gæti lokið þegar minnst varði og þegar hann veiktist horfðist hann í augu við þann möguleika af algeru æðruleysi. Hann óttaðist ekki. Hann treysti leikstjórnandanum mikla. Hann treysti því að hvernig sem færi fyrir sér héldi leikurinn áfram og leikið yrði til sigurs.
Gunnar var ekki vanur að verma varamannabekkinn. Hann vildi taka þátt og leggja sitt af mörkum hvort sem var í einkalífi, starfi eða félagsmálum. Gunnari var annt um fólk og hann var ætíð reiðubúinn til að taka þátt í að skapa gott og þroskavænlegt samfélag þar sem allir fengu að njóta sín.
Gunnar gaf kost á sér í sóknarnefnd Fellasóknar árið 2003. Hann starfaði þar sem meðstjórnandi, gjaldkeri og síðan sem formaður þar til hann varð að draga sig í hlé vegna þeirra veikinda sem drógu hann til dauða. Hann notaði reynslu sína og þekkingu í þágu kirkjunnar og lagði áherslu á að fjalla opinskátt um hlutina svo sjónarmið allra komust til skila og allt var uppi á borðinu. Hann var óhræddur við að taka á erfiðum málum, alltaf málefnalegur og sanngjarn. Og alltaf var stutt í brosið. Sem sóknarbarn í Fellasókn hef ég notið góðs af þeim hlutum sem Gunnar átti þátt í að koma til leiðar. Með öðrum sóknarbörnum vil ég þakka fyrir það. Sem samstarfsmaður í sóknarnefnd eignaðist ég jákvæðan og einlægan félaga í skemmtilegu og áhugaverðu starfi. „Við leysum það!“ var viðkvæði hans þegar upp komu snúin mál. „Við leysum það í sameiningu!“.
Fyrir hönd okkar allra sem höfum unnið með Gunnari í Fella- og Hólakirkju vil ég þakka yndislega viðkynningu og vel unnin störf. Við geymum minninguna um mikinn öðling og traustan vin í hjörtum okkar. Megi Drottinn blessa störf Gunnars og safnaðarstarfið allt.
Við sem eftir erum á vellinum skulum þjappa okkur saman og halda leiknum áfram. Við vitum eins og Gunnar að við erum í vinningsliðinu. Sigurinn er í sjónmáli. Gunnar var mikill fjölskyldumaður og skilur eftir sig samhenta og sterka fjölskyldu sem er honum til mikils sóma. Við sendum Jóhönnu, fjölskyldu og ástvinum Gunnars öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Drottin að blessa þau og styrkja í þeirra mikla missi.
Það er bjart yfir minningu Gunnars. Hið eilífa ljós lýsi honum og okkur öllum. Í þeirri birtu er best að lifa. Og deyja.
Gry Ek Gunnarsson,
formaður sóknarnefndar Fellasóknar.