Money makes the world go around. Or so they say.
Money makes the world go around. Peningar snúa hljólin. Heimurinn snýst um peninga.
Hvaða kjaftæði er það??
Hvaðan kemur sú hugmynd??
Ekki fra Jesús, svo mikið er víst.
Þetta er dæmi um setningu sem menn hafa étið hver upp eftir öðrum svo lengi að menn eru farnir að trúa henni. Þetta er eitthvað sem ”allir vita”. Þetta hefur tekið á sig mynd náttúrulögmáls.
Þeir sem vilja vera heimsmenn setjast aftur í stólinn, kinka kolli, taka út úr sér vindilinn og segja með vískusvip: já, heimurinn snýst um peninga. Það míkið er víst.
Well dah… newsflash eins og krakkarnir segja: heimurinn snýst ekki um peninga.
HEIMURINN snýst ekki um peninga. VIÐ getum hins vegar snúist um peninga.
Eins og skopparakringlur. Ef við pössum okkur ekki. Peningar, dót og eignir geta orðið miðpunktur í okkar lifi og látið okkur snúast.
En það er ekkert náttúrulögmál, það er okkar val. Við ráðum um hvað við snúumst. Við ráðum hvað við setjum í fókus, hvað við höfum sem æðsta markmið og eyðum mestan tíma og umhugsun í.
Jesús bendir okkur oft á þetta í sínum orðum, að þar sem fjársjoður okkar er, það er hjartað okkar. Það sem við leggjum inn og söfnum, þar verður fjársjóðurinn og þar sem fjársjóðurinn er þar er hjarta okkar.
Þessi saga er þekkt og hefur valið mörgum hugarangri. Ekki að ástæðulausu.
Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Farðu og gefðu aleigu þína. En maðurinn grét því hann var mjög ríkur. Honum þótti vænt um peningana sína, hann gat ekki hugsað sér að missa þá. Til að verða mjög ríkur hlýtur líf hans að miklu leyti að hafa snúist um peninga. Jesús sagði honum að setja eitthvað annað í fókus. Að hætta að setja traust sitt á þá. En það er erfitt að fórna einhverju sem maður elskar og reiðir sig á. Eins og fyrir alkann að gefa upp flöskuna.
Þegar ég var ung táningstelpa var ég ekki frábrugðin öðrum stelpum í því að ég átti mér hetjur. Farðu inn í herbergi ungra stelpna, og reynda líka stráka, og þú munt finna veggi þakta myndum af hetjunum. Boltahetjur og kvikmyndastjörnur í bland við rocksöngvara og sjónvarpsleikara.
Vinkonur mínar söfnuðu bítlamyndum, þetta var á þeim tíma.
Ég var ekki í bítlunum. Minar hetjur voru íþróttamenn. Ég var reyndar ekki mikið fyrir hetjudýrkun en að lokum féll ég fyrir einum. Hann var hollenskur skautamaður og hét Ard Schenk. Hann var ógeðslega sætur, hár, ljóshærður og bláeygður og bestur í heimi. Ég safnaði myndum og límdi inn og setti upp á vegg. Ég dýrkaði hann. Ég held að það sé rétta orðið. Hetjudýrkun af þriðju gráðu. Ég var komin með hann á heilann.
Svo mikið að að lokum var mér hætt að standa á sama. Mér fannst sjálfri nóg komið. Ég horfði á allar myndirnar sem voru upp um alla veggi og mér fannst það ekki sniðugt. Mér fannst ég þurfa að losa mig við þessa dýrkun. Losa mig undan henni. Ég er ekki að skálda þetta. Mér leið í alvörunni þannig. Én tók allar myndirnar, allar utklippurnar og brenndi þær.
Það var erfitt. Það var beinlínis sársaukafullt. Ég man ennáað mér fannst það sárt. Ég var búin að eyða miklum tíma í að safna þessu saman, raða, nostra við, skoða osfvr. Þetta hafði tekið hluta af lífi mínu og var alls ekkert slæmt í sjálfu sér. Það kom mér á óvart hversu erfitt þetta var og sannfærði mig enn um að þetta var tímabær aðgerð.
Ég hefða sjálfsagt vaxið upp úr þessari hetjudýrkun með árunum hvort eð er, en á þessum tímapunkti var það erfitt. Mér fannst ég vera orðin heltekin af þessu idoli og ákvað að losa mig við það.
Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér, sagði Jesús.
Jesús er maður sem kann að setja hlutina á oddinn. Á ég að selja allt sem ég á? Á ég að fara að tjalda í Laugardalnum?
Ég kýs að túlka hann ekki þannig. Að taka hann ekki á orðinu. En ég heyri hvað hann segir. Það er erfiðara fyrir ríkan mann að komast inn í himnaríki en fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga.
Ég kýs að túlka hann þannig að ég eigi að vara mig á því hvað ég set í fókus, hvar mín idol eru, hverju ég stefni að leynt og ljóst, hvað það er sem ræður mínum gerðum og hugsunum. Ef við dýrkum eitthvað annað en Drottinn skulum við losa okkur við það, brenna eða gefa. Hvort sem það eru peningar, föt, hetjumyndir eða bílinn.
Heimurinn snýst ekki um peninga. Það skulum við ekki heldur gera.