Lyse øyeblikk

Lúk.5,17

Dag nokkurn var Jesús að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til að lækna. Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú. En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú. Og er Jesús sá trú þeirra sagði hann: „Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“
Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: „Hver er sá er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“
En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: „Hvað hugsið þið í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru þér fyrirgefnar, eða segja: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér,“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“
Jafnskjótt stóð maðurinn upp frammi fyrir þeim, tók það sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð. En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu óttaslegnir og sögðu: „Óskiljanlegt er það sem við höfum séð í dag.“

Þetta var alltaf ein af uppáhalds biblíusögunum mínum. Við lærðum biblíusögur í skólanum og í sunnudagaskólanum og flestar voru þær skemmtilegar og áhrifamiklar, en þessi fannst mér bera af. Það var kannski m.a. vegna þess að á veggnum í bænahúsinu hékk málverk sem sýndi atburðinn.
Þetta er mögnuð saga. Vinir lamaða mannsins bera hann á börum til Jesú og deyja ekki ráðalausir þegar þeir komast ekki leiðar sinnar gegnum mannþrönginn. Þeir klifra einfaldlega upp á þak, rjúfa það og láta börurnar síga niður beint fyrir framan nefið á frelsaranum.

Alveg til fyrirmyndar. Bókstaflega talað! Til fyrirmyndar fyrir okkur.
Við sem höfum sömu trú og þeir á að Jesús geti læknað höfum tækifæri til að bera þá sem okkur þykir vænt um, höfum áhyggjur af eða þurfa lækningu fram fyrir Guði. Við getum látið þá síga beint fyrir framan nefið á honum í fyrirbæn.

Við eru sköpuð til góðra verka. Fyrirbæn er gott verk, mikilvægt verk, frábær leið til að styðja við bakið á náunganum. Stundum er fyrirbæn það besta, eða jafnvel eina, sem við getum gert í stöðunni. Við vitum kannski ekki alltaf hvað við eigum að biðja UM, en við vitum yfirleitt hvern við eigum að biðja FYRIR.

Ég fyrir mitt leyti ber ábyrgð á nokkrum persónum. Nánustu vini og fjölskyldumeðlimi auðvitað, og nokkrir hafa bæst í hópinn. Ég hef sjálf notið góðs af fyrirbænum annarra, og geri enn. Annars er ekki gott að vita hvernig væri komið fyrir mér í dag.

Comments are closed.