William Shatner hefur komist út i geim. Stórmerkilegt!
Í fyrsta lagi stórmerkilegt að það skyldi vera hægt að senda níræðan mann út í geim og ná honum niður aftur í heilu lagi! Ef hann getur gert það þá getur hver sem er gert það.
Hver sem er – sem hefur efni á því, það er að segja.
Eða sem er kapteinn James T. Kirk.
Því það er auðvitað málið.
Jeff Bezos er ekki að skjóta Shatner á loft vegna þess að hann er allra leikara bestur og mesti mannvinur heims.
Shatner er skotið á loft vegna þess að hann er James T. Kirk.
Í öðru lagi er stórmerkilegt að sjá þessa birtingarmynd af þýðingu StarTrek í menningu okkar og hvatningaráhrif þess á menn eins og Bezos sem “boldly have gone where no man has gone before“.
Ég tek það til mín sem staðfestingu á að það er ekki endilega ég sem er skrýtin, verandi heilshugar trekkie.
Í þriðja lagi er stórmerkilegt að sjá viðtölin við Shatner nýlentan. Maður sem oftast hefur komið fyrir í viðtölum sem frekar arrogant og kýniskur rembingskarl er kominn niður á jörðina – í tvöfaldri merkingu. Hann er sleginn, lotningarfullur og orða vant. Hann hefur farið um heima og geima, séð heiminn og geiminn og sjálfan sig í réttum hlutföllum og áttað sig.
Viðbrögð hans ætti að færa okkur heim sanninn um hversu mikill munur það er fyrir manneskju annars vegar að VITA eitthvað og hins vegar að REYNA eitthvað.
Til að skilja er ekki nóg að vita og hafa þekkingu.
Til að skilja þurfa menn að reyna á eigin skinni.
I hope I will never recover from this, sagði karlinn.
Í mínum eyrum hljómar það svona: Ég vona að þessi opinberun muni móta líf mitt héðan í frá, að sjóndeildarhringurinn dragist ekki saman aftur, að ég hafi lært í eitt skipti fyrir öll að jörðin snúist um sólina, ekki um mig og að lífið er dýrmætt og viðkvæmt.