Lyse øyeblikk

Magnum mysterium

Hvernig lítur Guð út?
Það er eitthvað sem menn velta fyrir sér, ekki síst börn. Og eitthvað sem er erfitt að svara, því enginn veit hvernig Guð lítur út. Enginn hefur séð Guð. Hann er víst ósýnilegur.
Menn hafa gert tilraunir til að sjá hann fyrir sér og teiknað og málað myndir af honum. Í okkar menningarsögu er hann ekki ósvipaður jólasveininum, gamall karl með skegg og hempu sem situr í skýjum og horfir yfir. Þessa staðalmynd hafa aðrir gagnrýnt harðlega og haldið fram að móti hugsanir okkar um almættið óheppilega og að myndin gæti alveg eins verið af fatlaðri konu af inuita-ættum eins og af gömlum hvítum karli. Því má eflaust til sanns vegar færa. Sumir hafa tekið þann pól í hæðina að banna með öllu guðslíkneski til að koma í veg fyrir að menn skapi Guð í sinni ímynd. Meikar alveg sens ….
Því enginn veit jú hvernig Guð lítur út. Enginn hefur séð Guð.

Eða hvað?

Við kristnir menn tilheyrum einu af fáu, kannski eina, trúarsamfélagið sem þykist hafa séð Guð. Við höldum því fram í okkar trúarjátningu að við vitum hvernig Guð lítur út. Vegna þess að hann hefur sýnt sig fyrir okkur.
Orðið var hold. Guð varð maður. Það er atburðurinn sem við fögnum á jólum. Guð fæddist!
Við trúum og játum að Kristur var Guð. Eins og segir í Níkeujátningunni: Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum, fæddur, eigi gjörður, samur föðurnum.
Þau sem voru honum samtíða gátu séð Guð eigin augum. Horft á hann. Þau gátu komið við hann. Talað við hann. Við byggjum okkar trú á þeirra vitnisburði. Verst að það skyldi ekki verið búið að finna upp instagram. …

Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn (Joh. 14,9) segir Kristur.
Og hvernig lítur svo Guð út í alvörunni?
Hann er lítið, varnarlaust flóttamannabarn. Þannig lítur Guð út.
Hann er ósköp venjulegur verkamaður. Þannig lítur Guð út.
Hann er dæmdur, pýntaður glæpamaður tekinn af lífi. Þannig lítur Guð út.
þannig sýnir Guð sig fyrir okkar augum. Við vitum hvernig Guð lítur út.

Ef þú vilt vita hvernig Guð lítur út skaltu horfa á næsta mann. Hann er kannski ekkert sérstaklega fríður, kannski beinlínis ljótur og leiðinlegur, jafnvel vondur. Að þínu mati.
En þannig lítur Guð út. Það er það næsta sem við komumst.
Við tilbiðjum Guð sem hefur birst í mannslíki og boðið okkur að nefna sig bróður. Sem hefur sagt okkur að virða hvort annað sem bræður.
Við vitum hvernig Guð lítur út og hvernig við eigum að þjóna honum, því hann hefur sagt okkur það: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. ……. og ….Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér.

Guð birtist okkur á jólunum. Við vitum hvernig hann lítur út.

Comments are closed.