Kæru vinir
Mér var boðið að taka til máls hér í dag í tilefni dagsins. Það fannst mér vænt um og ég þáði það með þökkum. Í dag er þjóðhátíðardagur minn og þjóðhátíðardagur norðmanna. Ef við værum í Noregi nú myndi ég hefja mál mitt á að segja Til hamingju með daginn!
17.maí er mikill hátíðardagur í Noregi eins og allir vita sem hafa verið þar á þessum tíma árs. Þetta er eins og jólin. Langur undirbúningur og mikið tilstand. Öllu til tjaldað. Þessi hátíðarhöld fara að mestu leyti fram utandyra í sameiginlegu rými svo þetta er eins og öll þjóðin séu að halda jólin saman. Ekki ósvipað kjötkveðjuhátíðinni í Río. Allir úti á götu í skrautlegum búningum, mannmargar skrúðgöngur með yngsta barninu í vagni og langafa í hjólastól, glymjandi tónlist úr öllum áttum, uppgrip hjá ís- og pyslusölum og þrekmestu menn og konur skemmta sér fram á næsta dag.
En þessi dagur er ekki tóm skrautsýning heldur fyllist hann á hverju ári merkingu litað af þeim málefnum sem eru efst á baugi hverju sinni, í heiminum, í Noregi eða á viðkomandi stað.
Í ár eru hátíðarhöldin örugglega á mörgum stöðum helguð þeirri staðreynd að nú eru 70 ár liðin frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari í Evrópu. Þess er reyndar minnst um alla álfuna um þessar mundir með margvíslegum hætti. Ekki eru öll hátíðarhöldin jafn friðsamleg og ekki verður sagt að evrópubúar lifi áhyggjulausir og vongóðir um frið á okkar tímum. Rússar héldu stærstu hersýningu sögunnar í Moskvu um daginn og við vitum hvað er að gerast í Úkraínu. Norðmenn hafa verulegar áhyggjur af aukum umsvifum Rússa á norðurslóðum. Efnahagsvandi og atvinnuleysi þvingar fram átök og ófrið í mörgum löndum og flóðbylgja flóttamanna skapar risavaxið verkefni sem verður ekki leyst nema í sameinigu. Evrópusambandið fékk friðarverðlaun Nobels 2012 en nú hriktir í stoðum þess – á krepputímum. Þegar þörfin fyrir samstöðu er mest. Nú reynir á.
Í Noregi var stríð frá 9.apríl 1940 til 8.maí 1945.
Fyrir mig, mina kynslóð og þeim sem eldri eru enn frekar, og jafnvel þeim mér yngri, er 9.apríl ekki dagsetning. Ekki frekar en 9-11, 11.september er dagsetning fyrir bandaríkjamenn. 9.apríl merkir fyrir mig miklu meira en 24 klukkustunda tímabil á ári hverju. 9.apríl, eins og 11.september, er hugtak sem stendur fyrir eitthvað annað, eitthvað ólýsanlegt. Í því felst opinberun grimmdarinnar, það gefur innsýn í hvað maðurinn telur sig mega gera öðrum mönnum til að koma sínu fram. Það opinberar illsku og orðin, dagsetningin, 9.apríl eða 11.september framkallar óhug.
9.apríl var dagurinn þegar stríðið kom. Það var upphafið að 5 ára styrjöld sem lagði heimaland mitt í rúst. Heilu landshlutarnir voru jafnaðir við jörðu. Í Finnmark voru 75.000 menn, konur og börn hrakin frá heimilum sínum án fyrirvara. 11.000 heimili voru brennd, opinberar byggingar sprengdar í loft upp, kirkjur, skólar, spítalar, brýr, bryggjur. Allt búfé var fellt, öllum bátum sökkt. Engin lífsbjörg skilin eftir. Það stóð ekki stein yfir steini. Ljósmyndir frá þessum tíma sýna nákvæmlega sömu hluti og ljósmyndir frá stríðssvæðum í dag. Langar raðir af fólki með aleiguna undir hendinni, brennandi bæir, grátandi börn. Nazistar notuðu aflóga skip til að flytja öllu þessu fólki á brott og ég heyrði um daginn viðtal við konu sem var með í slíkri ferð. 2000 flóttmönnum var troðið í lestarnar án nokkurar aðstöðu, engin klósett, enginn matur, lítið vatn. Sjúkdómar herjuðu, margir veiktust, sumir dóu. Hún er 83 ára í dag og sagði að ekki hefði liðið sá dagur á hennar ævi þar sem henni yrði ekki hugsað um þetta. Ég yfirgef aldrei heimili mínu án þess að taka með mér drykkjarvatn; sagði hún. Norski skipaflotinn var sá fjórði stærsti í heimi í 1940 og stór hluti hans sigldi fyrir bandamenn í stríðinu. 5000 sjómenn fórust og stór hluti þeirra sem lifðu af báru þessa aldrei bætur og náði aldrei líkamlegri eða andlegri heilsu á ný. 772 norskir gyðingar voru sendir til Þýskalands í útrýmingabúðir. 34 snéru aftur.
Ég er fædd eftir stríð. En foreldrar mínir lifðu stríðið á mótunarárum ævi sinnar, og afar og ömmur mínar og þeirra kynslóð áttu í stríði og gleymdu því aldrei. Eyjan sem ég ólst upp í á vesturströndinni var mjög mikilvæg í bardaganum um Norðursjó og Norður-Atlandshaf. Þjóðverjar byggðu þar upp mikil hernaðarmannvirki, m.a. stóran flugvöll, og ráku auðvitað í burtu allir íbúar á staðnum. Þess má í leiðinni geta að þeir breyttu kirkjunni í hesthús og skotfærageymslu. Til að byggja öll þessi mannvirki notuðu þeir russneska stríðsfanga sem voru reknir í fylgð vopnaðra hermanna og schefferhunda fram hjá eldhúsglugga móður minnar á hverjum morgni og aftur í búðirnar á kvöldin. Hún og vinkonurnar mönnuðu sig stundum upp og stungu að þeim brauðbita eða jafnvel ullarleistar sem amma hafði prjónað – en þjóðverjar horfðu gjarnan í aðra átt ef börnin áttu í hlut. Þetta gleymdist ekki. Stríðið mótaði viðhorf þeirra og heimsmynd. Stríðið var alltaf nálægt.
Í tilefni þessara tímamóta hefur mikið efni verið gefið út í mörgum löndum. Bækur, ljósmyndir, heimildarmyndir og leiknar myndir. Sumt er áður óbirt, sumt er gert upp og endurútgefið. Nýtt efni og ný framsetning og nýjir áhorfendur gefur efninu nýtt gildi. En úrelt er þetta ekki – sagan er sígild.
Ég sá um daginn bandaríska mynd sem ég hafði ekki séð áður og hafði djúp áhrif á mig, þrátt fyrir þann skráp sem endalausar hryllingsmyndir í fréttunum hafa gefið mér. Myndin sýndi aðkoman í búðunum í Buchenwald í apríl 1945. Bandaríkjamenn komu fyrstir þar að og trúðu ekki því sem þeir sáu. Eisenhower kallaði til ljósmyndara og kvikmyndargerðarmenn, þingmenn og fréttamenn frá Vesturlöndum til að skrásetja og vitna um það sem þar sást. Honum varð að orði: sagt er að hermennirnir okkar viti ekki alltaf hvað þeir eru að berjast fyrir. En nú vita þeir allavega hverju þeir eru að berjast gegn.
Grimmd sem verður ekki lýst með orðum. Botnlaus illska. Hvaðan kemur þessi hæfileiki mannsins til að misþyrma aðra svo miskunnarlaust? Er þetta eðlilegt?
Er þetta kannski hið rétta eðli mannsins? Er þetta náttúran í allri sinni dýrð, eðlileg hegðun dýrsins? Yfirráð hins sterka? Miskunnarleysið í hávegum. Er maðurinn svona? Erum við svona?
Eða er til illt afl? Er hið djöfullega til? Stundum finnst mér eins og þeir sem efast um tilvist Guðs efist líka um tilvist hins illa. Er þetta allt í okkar huga eða er hið guðdómlega til óháð manninum? Er hið djöfullega til? Er til Guð? Er til Djöfull?
Sumir halda því fram að Guð og illskan sé sami hluturinn, tvær hliðar á sama máli. Að eingyðistrú hver sem hún nefnist er undirrótin að öllu stríði og ómennsku. Að hugmyndin um einn guð og einn sannleikur gefur mönnum tilefni og afsökun til að útrýma öllu sem ekki samræmist þeirra skilning á sannleikanum. Gerir það jafnvel að skyldu og þarfaverk að berjast fyrir hin eina guð og hinn eina sannleikur með því að útrýma öllu öðru. Það er í fréttunum á hverjum degi. Og við skulum ekki setja okkur á háan hest gagnvart islam og öðrum trúarbrögðum, það er ekki eins og morð hafi ekki verið framin í Jesú nafni.
Það eru margir sem segja nei. Ég get ekki trúað á Guði í svo vondum heimi. Ef Guð er til, hvernig getur hann þá látið þetta gerast. Hvar er hann?? Hefur hann séð myndirnar frá Sýrlandi? Hefur hann heyrt um Boko Haram? Ætlar hann ekki að gera eitthvað í þessu, hann sem þykist vera alvaldur, alvitur og algóður? Hver hefur með svona Guð að gera sem horfir upp á slíka neyð? Ætlast hann til þess að við dýrkum hann með lotningu?
Maður sem veit sitthvað um grimmd og djöfulskap er Desmond Tutu biskup. Hann hefur alist upp og starfað í Suður-Afríku á tímum kynþáttaaðskilnaðar. Hann var formaður sannleiksnefndarinnar svokallaðri sem var sett á laggirnar eftir afnám apartheid laganna – sáttanefnd milli manna sem höfðu framið ólýsanleg grimmdarverk gegn hvern öðrum og gegn mannkyninu. Tutu þekkir andlit illsku og haturs betur en flestir. Hann hefur mætt djöflinum í mannsmynd.
Það virðist ekki hafa hamlað trú hans á Guði.
Hann fékk friðarverðlaun Nobels 1984 og hefur oft komið til Noregs eftir það. Í einu viðtali sagði hann svolítið sem hefur setið í mér. Hann sagði: mikið hlytur að vera erfitt fyrir fólkið í þessu landi að trúa á Guði.
Þið sem hafið ekki neyð, fátækt, hatur, grimmd og pyntingar stöðugt fyrir augum, sem búið við öryggi, alsnægtir, réttlæti og frið. Það hlýtur að vera erfitt að koma auga á Guð í slíku landi.
Þegar hið djöfullega er ekki í augnsýn er hið guðdómlega heldur ekki augljóst.
Ég trúi á tilvist Guðs. En það er rétt hjá Tutu, það er svolítið erfitt að trúa á tilvist Guðs án þess að viðurkenna tilvist hins illa.
Það er hlægilegt að trúa á djöfull með horn og hala og þrífork. Eða á Guð með skegg og skikkju og sítt hár.
En hið djöfullega er ekki hlægilegt og hið guðdómlega ekki heldur. Og baráttan milli góðs og ills er ekki djók. Hún er í gangi, blasir það ekki við? Þurfum við annað en að horfa í kringum okkur?
Noregur er besta land í heimi til að búa í skilst mér. Það hafa kannanir staðfest. Það finnst íslendingum að því er virðist. Allavega flykkjast íslendingar til Noregs í stórum stíl og hafa gert undanfarin ár. Besta land í heimi – í dag.
Það var það ekki fyrir 70 árum, þá var landið í rúst. Og það er ekki gott að vita hvernig verður eftir önnur 70 ár. Kannski verður Ísland, Noregur, Evrópa eins og við þekkjum það í dag ekki til.
En eitt er víst, það veit ég. Hið illa verður til. Og hið góða verður til. Og baráttan milli góðs og ills verður í gangi.
Hversu ríkt og réttlátt og friðsælt Ísland, Noreg og Evrópu sem okkur tekst að skapa, þá mun okkur ekki takast að útrýma hið djöfullega og ekki heldur guð. Það þori ég að fullyrða.
Noregur er ríkasta land í heimi. Auðurinn er til vandræða.
Frelsarinn gefur ekki mikið fyrir veraldlegt ríkidæmi. Það er erfiðara fyrir ríkan mann að komast inn í himnaríki en fyrir úlfalda að komast gegnum nálarauga. Ok. Þar höfum við það, Norðmenn. Ef við treystum á olíuauð eða annan auð og neitum að deila með öðrum … erum við ekki ríkir.
Fyrir 70 árum flúðu Norðmenn landi sínu í þúsundatali, undan pyntingum og vísum dauða. Í dag flýja menn frá öðrum löndum til Noregs í leit að öryggi og framtíð.
Myndir af flóttamönnum á flekum á Miðjarðarhafinu hafa verið á forsíðum undanfarið. Ein slík mynd vakti mikil viðbrögð í Noregi, þið getið googlað hana þegar þið komið heim. Hún er af 6 ára gömlum strák, Elyud Dawit, sem er dreginn upp í björgunarbát við Rhodos í apríl. Hann drukknaði. Það var ekki sú staðreynd sem vakti viðbrögðin – heldur hitt, að hann var með prjónahúfu á höfði. Með norsku munstri.
Frændfólk hans býr í Noregi og hafði sent honum húfuna. Hann var á leiðinni til Noregs með móður sinni, sem druknaði líka þegar hún reyndi að bjarga honum.
Húfan vakti viðbrögð. Hún opnaði augu norðmanna fyrir því að Elyud gæti verið einn af okkur. Hann VAR einn af okkur.
Stríðinu gegn nazistum lauk fyrir 70 árum. En baráttunni er ekki lokið.
Á meðan maðurinn ennþá telur morð vera valkostur í stöðunni þegar hann á í deilur við aðra. Á meðan það er ennþá talin raunhæf leið til lausna að drepa þann sem ekki vill fara að vilja mínum. Á meðan eigum við í stríði.
Barátta sem lýkur ekki fyrir en öll börn hafa nóg að borða og sofa örugg.
Við sem erum kristnir höfum fengið sérstaklega skýr fyrirmæli. Um að vera salt jarðar og ljós í heimi og benda á hið góða. Að sýna aðrar lausnir með hegðun okkar. Að deila í staðinn fyrir að deila. Að deila til að forðast deilur.
Í dag er 17.maí. 17.maí er heldur ekki bara dagsetning. Það er hugtak með innihald. Eins og 9.april minnir okkur á hið ljóta minnir 17.maí okkur á hið fallega. Gleði, hamingju, samstaða, öryggi – það er rík ástæða til að fara út að götu og dansa.
Í dag fögnum við og þökkum að við megum lifa í friði. Að nú eru tímarnir þannig að það erum við sem njótum þess að hafa allt til alls og megum lifa í friði.
Megi alsnægtirnar ekki koma í veg fyrir að við sjáum Guð. Megum við fá náð til að sjá Guð í þeim sem þjást og kærleika til að deilda.
Góðar stundir.