Lyse øyeblikk

Innsti koppur í búri

Leave a comment

Ég var starfsmaður á Kópavogsmótinu um daginn og þá rifjaðist upp fyrir mér fyrsta innkoma mín í páverheiminum. Mitt fyrsta mót 2004. Það eru sex ár síðan, sem er svo sem ekki langur tími á mælikvarða eilífðarinnar.

Þá þekkti ég bókstaflega ekki kjaft á staðnum. Ég mætti algerlega Palli einn í heiminum. Hafði aldrei fundið lyktina af hitakremi.

 Í þetta skiptið, sex árum seinna, þekkti ég svo að segja alla, kannski ekki persónulega og ekki endilega með nafni, en flestir í sjón. Og flestir þekktu mig. Ég hafði hlutverki að gegna og menn komu til mín með alls konar spurningar og áttu greinilega von á að ég vissi allt um allt. Hvar vigtunin færi fram, hvar karlaklefinn væri, hvert væri reikningsnúmer Breiðabliks, hvort Jón Jónsson væri hættur við keppni, verðið á vöfflum og hvort þessir sokkar væru nógu uppháir. Mér leið eins og gangandi uppflettirit.

Einkennilegt.

Ég hef gengið í allskonar félög og samtök um dagana og einhvernveginn hefur mér alltaf tekist að enda sem stjórnarmaður. Hvað segir það um mig? Er ég raunverulega svo stjórnsöm að ég geti ekki séð eitt einasta félag í friði án þess að þurfa að skipta mér af? Ekki datt mér í hug þarna á byrjendamótinu 2004 að ég ætti eftir að hafa lyklavöldin í íþróttamiðstöðinni í Laugardal og vera fulltrúi Íslands á þingi NPF. Not by a long shot.

Undarlegt.

En þannig er það nú samt. Nú sit ég sem ritari Kraftlyftingasambands Íslands með ábyrgð á fundargerðum, heimasíðu, skjalavörslu, samskipti við útlönd, mótaskráningar, metaskráningar, nefndu það bara…

Ég hef setið í mörgum stjórnum en þetta er einhver besti hópur sem ég hef unnið með. Hann sker sig úr að tvennu leyti.

Í fyrsta lagi eru allir stjórnarmenn virkir. Í sumum stjórnum gerir enginn neitt nema formaðurinn og hugsanlega einn/tveir í viðbót. Ég hef horft upp á fólk sitja í stjórnum árum saman án þess að gera handtak. Og jafnvel þiggja laun fyrir! Svo glatað sem það nú er.

Í öðru lagi er hópurinn samsettur af mjög ólíkum persónuleikum sem allir hafa fengið verkefni við hæfi. Það er heldur ekki sjálfsagt. Stjórnir geta verið svo einsleitir að það mætti halda að allir hefði gengið í sama skóla, og sérgáfur manna njóta sín ekki endilega. Über-egó eiga það til að einoka fundi gersamleg, en þannig er það ekki í þessum hópi – þó ekki vanti egóin…

Þessu er öðruvísi farið. Finnst mér.

Mín fær að vaða uppi með það sem ég er góð í. Skipulag og kerfi, skráningar og textagerð, netvinnsla og skrifleg samskipti, ferlar og eftirfylgni. Sjálfstæð og ábyggileg.

Sigurjón er fínn formaður. Skipulagður og reyndur stjórnandi, félagslyndur og vel kynntur, taktískt klókur, mátulega ýtinn og kappsfullur án þess að þurfa að vera númer eitt í öllum málum.

Guðjón er fínn varaformaður. Hrifnæmur smekkmaður með gott auga fyrir smáatriði. Velviljaður og fordómalaus, örlátur og stutt í hláturinn. Góður í að kryfja mál til mergjar.

Birgir býr yfir mikla dómgreind sem treystandi er á og hefur alltaf eitthvað gáfulegt til málanna að leggja. Ráðagóður og leysir sín verkefni hávaðalaust .

Kári er nýr og á eftir að sanna sig. En kemur fyrir sem ábyggilegur og vandaður maður. Einar Már, varamaður, sömuleiðis. Það er algert skilyrði að hafa utanbæjarmenn í hópnum sem leggja til annarskonar sjónarhorn. Áfram allskonar.

Hinir varamennirnir eru líka óborganlegir – í bestu merkingu þess orðs.

Auðunn er ómetanlegur og veit hvernig þetta á að vera. Hann hefur lifað söguna og þegar hann talar, hlusta menn. Hann hefur öðrum fremur helgað sér þessari íþrótt hér á landi, og það er ánægjulegt að hann fái að taka þátt í að koma henni á eðlilegan stall í íþróttaheiminum.

Hjalti er óstöðvandi þegar hann tekur sér eitthvað fyrir hendur og nýtur sín best þegar míkið gengur á. Fæddur reddari , rótarinn í hópnum.

Í stjórn þurfa að sitja allskonar fólk. Mátulega skynsamt og mátulega klikkað fólk. Míkið er ég ánægð að hafa álpast inn í þetta gengi.

Leave a Reply