Sumir eru betri í vörn en í sókn. Það vita þjálfarar og dreifa mönnum sínum um völlinn samkvæmt því. Í handbolta ganga menn svo langt að taka varnarmenn út af í sókninni og lenda oftar en ekki illa í því þegar andstæðingurinn kemst í hraðaupphlaup og eingöngu sóknarmenn til varnar.
Þannig er það í lífinu líka. Sumir eru góðir í sókninni, aðrir bestir í vörn.
Ég er varnarmaður. Ég hef leikið í vörninni alla mína tíð og staðið mig vel.
Ég er afkaplega traust og staðföst og hvikar ekki. I stand my ground. Það er erfitt að komast fram hjá mér. Ég fell stundum fyrir gabbhreyfingum, en sá skal vera nokkuð góður. Það er ekki auðvelt að skora hjá mér, má segja. Það er helst að menn geta stokkið upp og þannig komist í færi. Ég er afskaplega bundin við jörðina og þess vegna veikust í hávörninni. Ég á erfitt með að verjast mönnum sem eru komnir á flug.
Varnarmaður er alltaf í vörn, alltaf að búast við einhverju, alltaf tilbúinn að bregðast við. Hann eyðir leiktímanum í að bregðast við hreyfingum annarra, ekki að hefja atburðarás sjálfur. Ef enginn er að sækja, verður hann aðgerðarlaus og stendur með hendur í síðu að bíða eftir næstu árás. Það tekur því ekki að skipuleggja sókn, því hann þarf að vera reiðubúinn ef ráðist verður til atlögu. Hann leitar ekki að sóknarfærum. Hann brynjar sig gegn næsta áhlaupi.
Varnarmenn þurfa að vera vel brynjaðir. Þeir fá oft að kenna á því, því sóknarmenn eru tillitslausir með öllu og hafa bara eitt markmið, að koma sínu fram. Þeir beita öllum brögðum, sérstaklega ef dómarinn sér ekki til. Varnarmaðurinn getur ekki reiknað með neinni aðstoð, hann verður að passa sig sjálfur.Hann fær ekki, og reiknar heldur ekki með, neinni samúð. Þetta er hans hlutverk. Þó hann komi marinn og blóðugur út úr leiknum fær það ekki á hann. Hann fer ekki að kenna sóknarmönnunum um og væla í þjálfarann og vorkenna sér. Þá væri hann ekki varnarmaður.
Það er hægt að vinna leiki á góðri vörn, en það þykir oft leiðinlegir leikir. Góður sóknarleikur er skemmtilegri og flottari og vekur aðdáun áhorfenda. Það er snjalli sóknarmaðurinn sem er hetjan. Á honum ber mest.
Ég er orðin fimmtug. Búin með fyrsta hálfleik. Ég er að spá í að taka meira þátt í sókninni í seinni hálfleik. Snúa vörn í sökn.
Þá þarf ég að æfa mig. Mig vantar sóknarþjálfun. Hér með auglýsist eftir góðum sóknarþjálfara